Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:03:28 (7471)

     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er leggur minni hluti utanrmn. til að afnám banns taki ekki gildi fyrr en lýðræðislegar þingkosningar hafa verið ákveðnar í Suður-Afríku. Mér virtist koma fram nokkur misskilningur í sambandi við þessa tillögu og m.a. kom fram hjá formanni utanrmn. í umræðum í nefndinni þegar málið var tekið fyrir á ný að meiri hlutinn lítur svo á að þessi ákvörðun hafi þegar verið tekin. Það teljum við ekki. Það er unnið að því að ná samkomulagi um hin erfiðu málefni Suður-Afríku og vonandi tekst það. Eins og þau mál standa núna hefur verið ákveðið að lýðræðislegar kosningar fari fram en dagsetning þeirra hefur ekki verið ákveðin, m.a. hefur komið fram í máli hv. formanns að það kunni að frestast fram yfir áramótin. Við lítum því svo á að í raun sé ekki orðið samkomulag um þetta atriði fyrr en heildarsamkomulagið liggur fyrir. Þetta er eitt af fjölmörgum atriðum í mjög flókinni samningsgerð um lýðræðislegar kosningar og fjölmargt fleira sem þar er verið að semja um á milli mig minnir 26 eða 28 stjórnmálaflokka og samtaka. Vonandi tekst þetta en þar til heildarsamkomulag liggur fyrir er ekki hægt að segja að þessi ákvörðun hafi verið tekin. Við byggjum okkar brtt. ekki síst á því að Afríska þjóðarráðið hefur nýlega lagt eindregið til að viðskiptabann verði ekki afnumið á þessu stigi, þ.e. fyrr en heildarsamkomulag liggur fyrir og þar með dagsetning á lýðræðislegum kosningum. Því varð ekki samkomulag þegar málið var tekið fyrir á ný í utanrmn. um að hverfa frá þessari brtt.