Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:05:53 (7472)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil aðeins skýra frá því að eins og fram kom við 2. umr. málsins þá kom fram ósk um það að utanrmn. kæmi saman og ræddi þetta mál á milli umræðna og það var gert. Og eins og hv. 7. þm. Reykn. hefur skýrt frá varð niðurstaðan sú að meiri hlutinn og minni hlutinn hafa ólíkan skilning á því hvað felst í brtt. minni hlutans. Meiri hlutinn telur að það liggi þegar fyrir samkomulag í Suður-Afríku um að lýðræðislegar kosningar fari fram og spurningin sé sú hvort þær fari fram á þessu ári eða fyrir lok apríl á næsta ári. Úr þessum ágreiningi varð ekki skorið á nefndarfundinum og þess vegna stendur málið í sömu stöðu og það var hér við 2. umr. eins og fram hefur komið.