Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:06:53 (7473)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég harma það að meiri hluti utanrmn. skuli þrýsta á um afgreiðslu þessa frv. Ég tel að það sé óráð af Íslands hálfu að fella úr gildi þau lög sem hér voru sett á sínum tíma á meðan ekki er ljóst að staðið verði við fyrirheit um kosningar og þær dagsettar og annað það sem knúið er á um af fulltrúa meiri hluta fólks í Suður-Afríku. Ég átta mig í rauninni alls ekki á því hvað rekur á eftir því að fella þessi lög úr gildi sem góð samstaða var um á sínum tíma að sett yrðu eftir að knúið hafði verið á um það hér um lengri tíma að Ísland stigi þetta skref. Menn segja e.t.v. að það skipti ekki miklu máli, lóð Íslands í þessari vogarskál, en ég tel hins vegar að svo sé þó ekki væri nema gagnvart okkur sjálfum og stöðu okkar á alþjóðavettvangi og varðar þá engu hvað aðrar þjóðir hafa gert í þessum efnum sem við berum okkur stundum saman við, en sumar Norðurlandaþjóðirnar aðrar en Ísland hafa dregið það að fella lög um viðskiptabann úr gildi með svipuðum röksemdum og fulltrúar í stjórnarandstöðu hafa borið fram í sambandi við þetta mál.