Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 14:17:48 (7476)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Sú upptalning sem kom fram hér í máli hæstv. utanrrh. um þau stjórnvöld á Norðurlöndum sem þegar hefðu aflétt viðskiptabanni á Suður-Afríku er, held ég, okkur þingmönnum öllum vel kunn. Þessi upptalning kemur fram í grg. með frv. til laga og lögð hafa verið fram ýmis gögn um þetta þannig að það er auðvitað ekkert nýtt í því máli. En þó svo að stjórnvöld hafi gert þetta víða í löndunum í kringum okkur, þá er tvennt í því máli.
    Í fyrsta lagi hafa þau ekki afnumið það að fullu, þau hafa flest hver haldið eftir ákveðnum þáttum í þessu viðskiptabanni, á vopnaviðskiptum, á olíuviðskiptum, á fjárfestingu og ýmsu slíku. Enginn hefur enn gengið fram og afnumið það að fullu og öllu held ég að mér sé óhætt að fullyrða.
    Í öðru lagi er rétt að halda því til haga að auðvitað hafa í þessum löndum verið skiptar skoðanir um það hvort það bæri að afnema viðskiptabannið og þó svo stjórnvöld hafi náð sínu fram er ekki þar með sagt að það hafi gerst samhljóða og einróma í þjóðþingunum.
    Atburðir undanfarinna daga og sérstaklega morðið á Chris Hani gera það að verkum að menn ættu kannski að fara sér hægt í þessum málum og a.m.k. ekki reyna að þrýsta þessu í gegnum þingið. Þessir atburðir geta auðveldlega dregið dilk á eftir sér og það getur brugðið til beggja átta með þróunina í Suður-Afríku á næstu vikum og mánuðum. Það er alveg ljóst að þó að búið sé að setja saman ákveðið plan um það hvernig standa skuli að málum á næstu mánuðum í Suður-Afríku og menn hafi rætt um það og komið sér saman um það að reyna að stefna að kosningum, fyrstu frjálsu kosningunum í sögu Suður-Afríku, í apríl nk., þá er það bara hugmynd. Dagsetningin hefur ekki verið ákveðin og hún getur auðvitað breyst, eins og hún hefur svo sem gert áður, og dagsetningunni getur seinkað.
    Því hefur oft verið haldið fram, hef ég tekið eftir í fjölmiðlum hér, að Chris Hani hafi verið einn helsti stuðningsmaður Nelsons Mandela, hafi verið mikill forustumaður, sem hann auðvitað var, í ANC og hægri hönd Nelsons Mandela. Ég held að hið rétta sé miklu frekar að Chris Hani hafi verið einn af gagnrýnendum Nelsons Mandela og einn af þeim sem fannst Mandela og hans stuðningsmenn fara of hratt eða vera of samstarfsfúsir skulum við segja og það eru öfgamenn til hægri sem drepa Chris Hani og róta með því upp miklu moldviðri meðal blökkumanna. Og eins og menn hafa kannski heyrt í fjölmiðlum að undanförnu, þá hefur gagnrýni á Nelson Mandela aukist verulega og hann á undir högg að sækja fyrir það að hann sé of samstarfsfús við hvíta minni hlutann. Ég held að ef þessu moldviðri verði rótað mjög mikið upp, þá geti orðið þarna mjög hættulegt ástand eins og hér hefur verið bent á. Mér finnst því fyllsta ástæða til að fara hægt í þetta mál. Auðvitað veit ég það eins og allir sem hér eru að tala um þetta að afstaða okkar skiptir engum sköpum í þessu máli. En við verðum að ræða um svona mál af fullri reisn og við verðum að hafa þá hugmynd sjálf að við séum samábyrg í því sem er að gerast í heiminum í kringum okkur og við viljum hafa á því skoðanir sem við getum staðið við þó að við höfum kannski ekki neitt gífurlega mikil áhrif.