Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 15:47:06 (7485)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef látið í ljósi þá skoðun á undanförnum vikum að það sé mikilvægt að skapaður sé vettvangur til þess að allir stjórnmálaflokkarnir í landinu geti rætt saman um utanríkisstefnu Íslendinga í ljósi gjörbreyttra viðhorfa í alþjóðamálum. Ég hef tekið eftir því að ýmsir forustumenn núverandi stjórnarflokka hafa tekið undir þá hugsun sem hvílir að baki þessari hugmynd. Hins vegar verður að segja þá sögu eins og hún er að vinnubrögðin varðandi það mál sem við hér erum að ræða, aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu, eru í fullkominni andstöðu við þessa hugsun. Það er satt að segja mjög sérkennilegt af hæstv. ríkisstjórn að halda þannig á málum að ætla sér að ganga frá aukaaðild Íslands að þessu hernaðarsamstarfi án þess að Alþingi gæti áður fjallað um málið, hvorki á vettvangi utanrmn. né hér í þingsalnum með ítarlegum hætti. Ég held að allir eigi að geta verið sammála um það að slík vinnubrögð hvorki sæma mikilvægi utanríkismála né eru vænleg til þess að skapa efnislega og eðlilega málefnalega umræðu í landinu. Ég vil þess vegna í upphafi þessarar umræðu lýsa þeirri von minni að nú verði slíkum vinnubrögðum hætt. Sú reynsla sem menn hafa haft af meðferð þessa máls sé hin síðasta af þessu tagi.
    Auðvitað er það líka, virðulegi forseti, fullkomlega út í hött að þessi umræða fari fram án þess að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur. Nú hef ég ekki hugmynd um hvað hann er að gera, blessaður. Það má vel vera að hann sé mjög önnum kafinn en þetta er ekki mjög brýnt mál, virðulegi forseti? ( Forseti: Forseta er kunnugt um að hæstv. utanrrh. er á fundi í forsrn. og það er þá aðeins fyrir forseta að gera að gera honum skilaboð, þá mundi hann mæta hér.) Í sjálfu sér er það nú þannig, virðulegi forseti, að ég get alveg flutt mína ræðu án þess að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur en mér finnst það hvorki sæma þinginu né sæma hæstv. utanrrh. að umræða af þessu tagi, virðulegi forseti, fari fram án þess að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur. Hér er verið að taka til afgreiðslu og mæla fyrir nál. utanrmn. um aðild Íslands að hernaðarbandalagi. Það er ekki lítið skref, virðulegi forseti, fyrir okkar þjóð að gerast með formlegum hætti aðili að þessu bandalagi. Þetta er nú ekkert dægurmál og mér finnst það hvorki vera rétt stjórn á þinginu né rétt forgangsröð á vinnuáætlun hæstv. utanrrh. að hann skuli einmitt velja þann tíma þegar þessi umræða fer fram til að vera fjarstaddur. Það hlýtur að hafa verið hægt að finna einhvern annan tíma á þessum sólarhring, virðulegi forseti, þar sem þessi umræða gæti farið fram. Og ég verð að segja það alveg eins og er, það særir dálítið virðingu mína fyrir þinginu og fyrir þeim störfum sem við erum hér að vinna og fyrir þeim formlega gerningi sem það er að þjóðþing taki ákvörðun af þessu tagi, að sá ráðherra sem ber ábyrgð á málinu skuli ekki vera viðstaddur. En ég ætla ekki að gera kröfu til þess að hann sé kallaður hingað, það er ekki þess vegna, virðulegi forseti, mér finnst þetta bara einfaldlega ekki ná nokkurri átt. Og auðvitað ætti forsetinn að sjá um það að svona hlutir gerist ekki.
    Hver er ástæðan fyrir því að við erum að fjalla um þetta mál hér? Hún er í raun og veru sú að Evrópubandalagið tók um það ákvörðun í Maastricht að þróa enn frekar sameiginlega utanríkisstefnu sína og byggja upp úr Vestur-Evrópusambandinu eins konar hernaðararm þeirrar sameiginlegu Evrópustefnu Evrópubandalagsins. Það er ástæðan fyrir því að við stöndum nú hér í þessum sporum. Er einhver sérstök ástæða fyrir Íslendinga til þess að tengjast með þessum hætti ákvörðun Evrópubandalagsins um sameiginlega utanríkisstefnu og styrkleika hennar í nýju hernaðarbandalagi, nýju að því leyti til að eðli þess og verkefni tekur verulegum breytingum? Mitt svar hefur verið nei. Ég sé enga ástæðu til þess í ljósi þess sem fram hefur komið að slík ákvörðun sé tekin.
    Sá sem mælti fyrir áliti meiri hluta utanrmn. hefur nokkuð haldið fram þeirri kenningu og sama hefur hæstv. utanrrh. gert að það sé nauðsynlegt fyrir Íslendinga vegna aðildarinnar NATO að vera aðili að Vestur-Evrópusambandinu vegna þess að innan Vestur-Evrópusambandsins muni fara fram samhæfing á stefnu Evrópuríkjanna innan NATO. Það er í sjálfu sér mjög merkileg kenning og ég hef nú lýst því yfir í utanrmn. og get endurtekið það hér, að ég efast um að það sé mikill fótur fyrir henni. En ef hún væri rétt, þá vekur það auðvitað upp mjög merkilega spurningar um það hvernig Atlantshafsbandalagið sé að breytast. Ég ætla í því sambandi að nefna eitt ríki sem aldrei hefur verið nefnt í þeirri umræðu og það er Kanada.
    Nú vill svo til að ég og hv. þm. Björn Bjarnason störfuðum lengi saman í nefnd sem bar heitið Öryggismálanefnd. Það var að vísu eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar að leggja þá nefnd niður í einhverju sparnaðarírafári sem greip forsrn. á fyrstu mánuðum tilvistar núv. forsrh. þó að sparnaðurinn væri aðallega fólginn í því að starfsmaður nefndarinnar var færður inn í forsrn. Áður en hv. þm. Björn Bjarnason tók sæti í þeirri nefnd, sæti sem fyrrv. forsrh. Geir Hallgrímsson hafði haft á sínum tíma í nefndinni, þá átti nefndin viðræður við ráðuneytisstjóra varnarmálaráðuneytisins í Kanada. Það voru mjög merkilegar viðræður. Í þeim kom fram að þeir hagsmunir sem Kanada taldi sig aðallega hafa af aðild að Atlantshafsbandalaginu var að verjast Bandaríkjunum. Það hljómaði í fyrstu nokkuð sérkennilega sem kenning en síðan kom útskýring ráðuneytisstjórans í varnarmálaráðuneytinu kanadíska á því sjónarmiði. Hún var á þessa leið: Kanadamenn telja öryggi sínu á engan hátt ógnað einu og sér, öryggi Kanada sé samofið öryggi Bandaríkjanna og það séu engar líkur á því að nokkurt ríki muni leggja til orrustu við Kanada án þess að leggja um leið til orrustu við Bandaríkin. Þess vegna þurfi Kanada í sjálfu sér ekki á neinni aðild að hernaðarbandalagi að halda til þess að tryggja öryggi sitt. Hins vegar sé hið stóra grannríki Kanada, Bandaríkin, mjög erfitt í sambúð og það þrengir mjög að Kanada á sviði alþjóðamála að búa í tvíbýli með Bandaríkjunum í þessum heimshluta. Þess vegna sé það nauðsynlegt fyrir Kanada innan NATO að geta átt bandamenn hinna ýmsu Evrópuríkja í því að knýja Bandaríkin til skoðanabreytinga og afstöðubreytinga af ýsmu tagi. Það var þess vegna alveg ljóst í þessum umræðum sem að vísu fóru fram fyrir nokkuð mörgum árum síðan að Kanada leitaði eftir því að fá hin ýmsu ríki Evrópu innan NATO til þess að mynda með sér bandalag gegn skoðunum Bandaríkjanna innan bandalagsins á hverjum tíma.
    Á sama hátt á ég nú eftir að sjá ríkisstjórnir Breta í framtíðinni leita eftir nánu bandalagi við ríkisstjórnir Frakka sem hafa haft takmarkaðan áhuga á hernaðarsamvinnu innan Atlantshafsbandalagsins og

hafa satt að segja meiri áhuga á því að koma sér upp sameiginlegum herafla með Þjóðverjum eins og atburðir sýna á síðustu missirum. Þá á ég eftir að sjá ríkisstjórn í Bretlandi leggja á það kapp að sameina fyrst sjónarmið sín með ríkjunum á meginlandi Evrópu áður en kemur að viðræðum við Bandaríkin um það hver afstaðan eigi að vera.
    Mörg fleiri orð væri hægt að færa fram um þessa kenningu. Þetta er í raun og veru eina kenningin sem talsmenn þess að Íslendingar gerist aðilar að Vestur-Evrópubandalaginu hafa flutt fram. Það er alveg ljóst að öryggishagsmunir Íslands styrkjast ekki við aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Það hefur verið viðurkennt af hæstv. utanrrh. Öryggishagsmunir Íslands styrkjast ekki. Það er alveg ljóst að önnur ríki Vestur-Evrópusambandsins skuldbinda sig ekki með neinum hætti til þess að grípa til aðgerða ef öryggi Íslands er ógnað, ekki með neinum hætti. Það er engin skuldbinding af hálfu hinna fullgildu aðildarríkja Vestur-Evrópusambandsins að grípa til neinna aðgerða til að koma Íslandi til bjargar ef á það kynni að verða ráðist. Að því leyti er Vestur-Evrópusambandið allmiklu öðruvísi en NATO. Þess vegna hafa ekki verið færð fram af hálfu talsmanna þessa máls rök fyrir því að af öryggisástæðum þurfi Íslendingar að gerast aðilar að þessu bandalagi. Einu rökin eru þau að Ísland megi ekki einangrast frá þeirri pólitísku umræðu sem fram fer á þessum vettvangi. En það hlýtur, virðulegi forseti, fyrst og fremst að vera sú pólitíska umræða sem snýr að sameiginlegri þróun sameiginlegrar utanríkisstefnu Evrópubandalagsins. Það er miklu líklegra að verða meginviðfangsefni þessa bandalags heldur en eitthvert samráð innan Atlantshafsbandalagsins. Og ég tel þess vegna, þegar umbúðirnar eru teknar utan af þessum málflutningi, að með þessari aðgerð sé fyrst og fremst verið að tengja Íslendinga inn í sameiginlega utanríkisstefnu Evróubandalagsins á þann hátt að Íslendingar geti setið við það borð þar sem hernaðarumræðan um þá utanríkisstefnu fer fram. Og það er nú satt að segja dálítið fáránlegt að það ríki í Vestur-Evrópu sem hefur engan her eigi einmitt að sitja við það borð innan Evrópubandalagsins þar sem hermálin eru rædd á grundvelli hinnar sameiginlegu utanríkisstefnu.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að þetta mál sé ekki mjög mikið hugsað og mér finnst satt að segja að sú skýrsla sem verður rædd hérna seinna í dag að því leyti sem hún víkur að þessu Vestur-Evrópusambandi vera í mjög miklu skötulíki hvað það snertir að reyna að færa einhver sannfærandi rök fyrir því að þetta sé nauðsynjamál. Það er það á engan hátt. Enda kemur það í ljós, virðulegi forseti, að samstaðan um þetta mál nær ekki út fyrir raðir stjórnarflokkanna og ég vil nú spyrja hv. þm. Björn Bjarnason, sem situr hér einn til andsvara af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli: Finnst honum það skynsamlegt einmitt á þessum tímum sem hér hafa verið nefndir, að þá skuli það gerast í fyrsta sinn í sögu íslenska lýðveldisins að það myndast þröngur meiri hluti fyrir afgerandi aðgerð í utanríkismálum eins og þetta er? Það er alveg ljóst að í þeirri atkvæðagreiðslu sem hér mun fara fram mun birtast þrengsti meiri hluti sem fram hefur komið í nokkurri meiri háttar ákvörðun Íslendinga í utanríkismálum. Varðandi aðildina að Atlantshafsbandalaginu var breiðari meiri hluti. Varðandi inngönguna í EFTA var breiðari meiri hluti. Við afgreiðslu EES-samningsins reyndist vera breiðari grundvöllur fyrir þeim samningi eins og fram kom í atkvæðagreiðslu hér í vetur. En það stefnir allt í það að í þessari atkvæðagreiðslu verði það bara fótgönguliðar ríkisstjórnarflokkanna sem af flokkslegri hollustu styðja þetta mál. Framsfl., Kvennalistinn og Alþb. gera það ekki. Mér finnst þess vegna sá þáttur málsins líka vera með þeim hætti að hann setji mikil spurningarmerki við það hvort hér sé skynsamlega á málum haldið af hálfu ríksstjórnarinnar. Ég er með þá kenningu að hæstv. utanrrh. hafi tekið þetta mál upp þegar hann var staddur á því þrepi á þróunarferli sínum sem ég hef stundum kallað í léttum dúr inngönguæðið. Það var hér í fyrra að það mátti ekki birtast nein samtök í okkar heimshluta að hæstv. utanrrh. vildi ekki ganga í þau. Og hann meira að segja setti á töluverðar flugeldasýningar til þess að mótmæla því að hann fengi ekki að komast í baltíska ráðið. Það komu varla saman menn hér í vesturhluta álfunnar á þeim missirum og stofnuðu einhvers konar samtök að hæstv. utanrrh. vildi ekki vera þar. Svona menn eru kallaðir á ensku máli joiners sem ganga yfirleitt í alla klúbba sem þeim er boðið að ganga í og það verður aðalatriði verknaðarins að vera meðlimur. Undirbúningurinn var lítill. Mér er kunnugt um það að innan stjórnarflokkanna fór ekki fram ítarleg umræða um þetta. Málið var ekki rætt ítarlega í þingflokki Sjálfstfl. áður en þetta var ákveðið. Það hefur verið upplýst. Það hefur líka verið upplýst að það var ekki mikil umræða um málið í þingflokki Alþfl., það var engin umræða um málið í utanrmn. áður en ríkisstjórnin tók sína ákvörðun og það fór engin formleg umræða fram hér í þinginu.
    Virðulegi utanrrh. Ég gerði við það athugasemd hér áðan að mér fannst ekki við hæfi að láta þessa umræðu fara hér fram þannig að ráðherrann væri ekki viðstaddur, en ég nenni nú hins vegar ekki að fara að endurtaka hluti sem ég var ekki með áðan í minni ræðu en vil þó segja það að lokum og benda hæstv. utanrrh. á það að líklega mun það gerast við afgreiðslu þessa máls að hér mun birtast þrengsti meiri hluti sem nokkru sinni hefur birst við afgreiðslu á aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum og það held ég að sýni dálítið hvað málið er hæpið og hvað það er illa unnið.
    Í upphafi máls míns, og ég get látið það vera mín lokaorð líka, lét ég í ljósi þá ósk að þeir menn sem m.a. eru forustumenn stjórnarflokkanna sem hafa tekið undir það sem ég hef sagt á undanförnum vikum að það þyrfti að eiga sér stað umræða milli flokkanna í landinu um utanríkisstefnu framtíðarinnar, láti það ekki henda sig aftur að vinna að málum með þeim hætti eins og gerðist í þessu máli. Vinnubrögðin í þessu máli eru á engan hátt samboðin veigamiklu utanríkismáli af því tagi sem hér er verið að afgreiða.
    Ég vil svo að lokum taka undir þau sjónarmið sem fram komu í ræðu frsm. minni hlutans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem flutti mál sitt fyrir hönd okkar fulltrúa Framsfl., Alþb. og Kvennalista sem utanrmn. eru.