Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:08:15 (7488)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Síðast þegar þetta mál var á dagskrá, þá vorum við hv. 8. þm. Reykn. meira sammála um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi en nú, enda er hann ekki að ræða um það. Hann er að ræða um einhver forms- og aukaatriði varðandi málsmeðferð þessa máls á vettvangi stjórnmálaflokkanna sem auðvitað er þeirra mál hvernig þeir standa að slíkum afgreiðslum og snertir ekki efni þessa máls sem er auðvitað aðalatriðið.
    Varðandi það að gera lítið úr þeim sem stóðu að þessari samþykkt og beðið var um að fá álit frá í utanrmn. þá finnst mér það alveg fráleitt að tala þannig um umsagnaraðila nefndairnnar en gera síðan lítið úr því þegar nefndin hefur fengið þeirra skoðanir og fara þá að lítillækka það fólk með þeim hætti sem hv. ræðumaður gerði, það finnst mér ekki sæma.
    Þetta mál er þannig vaxið að við skulum ræða efni þess og þegar það var hér til fyrri umræðu, þá vorum við hv. þm. að verulegu leyti sammála. Hann talaði um að þetta væri lítill angi af miklu stærra máli og við erum sammála um það. Það voru ákveðnar tímasetningar sem íslenska ríkisstjórnin þurfti að bregðast við. Hún gerði það. Málið hafði verið rætt hér í þinginu. Í einni fyrstu ræðu sem ég flutti hér í þinginu, þá vakti ég máls á þessu og sætti ákúrum fyrir þannig að málið hafði verið rætt hér á þessum vettvangi og víðar áður en ríkisstjórnin tók sína ákvörðun. Og þetta finnst mér aukaatriði. Aðalatriðið er það sem var hér og einkenndi umræðuna 6. apríl þegar við hv. 8. þm. Reykn. vorum að meginatriði sammála um efni þessa mikla máls og þurfum þess vegna núna að setja á deilur um aukaatriði til þess að reyna kannski að slá ryki í augu einhverra sem fylgjast með þessum umræðum.