Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:10:03 (7489)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hann er greinilega mikilvægur þessi ungi framsóknarmaður í stjórn Varðbergs sem stóð að þessari ályktun þannig að það er nú kannski rétt fyrir þá sem eru í forustu Framsfl. að kynna sér það hver er þessi höfuðsnillingur sem hv. þm. Björn Bjarnason gerir nú að sínu aðalhaldreipi þegar hann er að reyna að sýna fram á að það finnist einhverjir menn sem styðja þetta mál fyrir utan þingmenn stjórnarflokkanna. Hins vegar hafa þeir almennt ekki verið mjög hátt skrifaðir í sögu Framsfl. sem hafa setið í stjórn Varðbergs. Það er staðreynd.
    Hv. þm. vék að þeim umræðum sem fóru fram fyrir páska og það er auðvitað alveg rétt að gera það, ekki hægt að gera það hér í andsvari. Vandinn í framhaldi af þeim umræðum og í þessu máli og í umræðum sem við munum koma að hér síðar í dag er spurningin um það hvort þeir sem eru í forustu fyrir ríkisstjórnarflokkunum eru tilbúnir til þess að setjast niður með okkur hinum með opnum huga, og ræða ,,objektivt`` hvað hefur breyst í heiminum og reyna að draga ályktanir af því. Við vitum það báðir ég og hv. þm. að ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta mál hér í dag er að Evrópubandalagið ákvað í Maastricht að koma sér upp hernaðararmi sinnar sameinuðu utaríkisstefnu. Ef Evrópubandalagið hefði ekki ákveðið það í Maastricht þá færi þessi umræða ekki fram hér í dag. Það vitum við báðir. Það er tilefni þess að þessi umræða fer fram. Það má vel vera að hv. þm. hafi talið það lengi að Ísland ætti að gerast aðili að Vestur-Evrópusambandinu en það var bara ekkert opnað á þann möguleika fyrr en Evrópubandalagið samþykkti í Maastricht að breyta þessari þyrnirós sem sofið hafði nærri í hálfa öld í hinn nýja hernaðararm sameiginlegrar utanríkisstefnu Evrópubandalagsins. Við eigum ekki að láta Evrópubandalagið taka ákvarðanir um það hvað Ísland gerir í utanríkismálum.