Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:21:02 (7491)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég mínum sjónarmiðum í sambandi við þá tillögu sem hér liggur fyrir og andstöðu minni við að þetta skref sé stigið sem hér er gert ráð fyrir. Ég tel að ekkert hafi komið fram síðan og ekki við þessar umræður heldur sem rökstyður það með neinum viðhlítandi hætti að hér sé skynsamlega ráðið að tengja Ísland með aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. Ég tel í raun að þögnin um þau rök eða hversu veikburða þau eru sem fram eru borin af tillögumönnum tali sínu máli. Ekki hefur heldur verið upplýst í þessari umræðu og eftir umfjöllun í utanrmn. hvaða kostnaður er samfara þessu fyrir Íslands hönd. Eitt af þeim atriðum sem rætt var hér í nóvembermánuði sl., þegar hæstv. utanrrh. stiklaði á upphæðum allt frá 0 og upp í 280 millj. kr. og vissi ekkert hvað upp sneri. Það er svo að sjá sem utanrmn. hafi ekki heldur tekist að varpa ljósi á þennan þátt málsins þó að hann sé auðvitað ekki meginmál í þessu samhengi á meðan ekki er um fjallháar upphæðir að ræða sem ég geri ekki ráð fyrir að séu þarna eins og málið er vaxið nú. En um þetta vitum við raunar sáralítið. Bakgrunnur þessa máls er auðvitað sá að Evrópubandalagið er að þróast í átt að ríkisheild með öllu því sem tilheyrir. Er að móta sér sína öryggismálastefnu, er að koma upp sínu hernaðarbandalagi sem stórveldi og það er þessu bandalagi sem okkur er ætlað að tengjast með aukaaðild. Ég tel það afar hættulegt fyrir íslenska hagsmuni að ganga inn í þetta samstarf sem þarna er um að ræða m.a. vegna þess að það mun styrkja þá aðila sem sækja í það leynt og ljóst að Ísland verði hluti af Evrópubandalaginu í framtíðinni. Þeir þræðir sem spunnir verða í gegnum aðild að Vestur-Evrópusambandinu kunna að reynast drjúgir þeim öflum hér á landi sem erlendis sem vilja sjá Ísland inni í þessu samhengi. Og það fer auðvitað ekkert milli mála að aðilar sem eru að skoða málin út frá stórveldishagsmunum Evrópubandalagsins, hagsmunum þess sem verðandi Evrópustórveldis og ríkisheild, horfa til Íslands ekkert síður en Bandaríkin sem útvarðsstöðvar í sambandi við sína öryggis- og hernaðarhagsmuni. Það er gegn slíku sem við eigum að verjast, gegn slíkum sjónarmiðum, og halda okkur utan hernaðarbandalaga um leið og við eigum að hverfa úr NATO við fyrstu hentugleika þá eigum við síst af öllu að fara að tengjast öðru hernaðarbandalagi eins og hér er gert ráð fyrir.
    Í skýrslu hæstv. utanrrh. á síðasta ári var varpað nokkru ljósi á það hvaða augum hann liti aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu á þeim tíma. Hæstv. ráðherra sagði þá, með leyfi forseta, eftir að rakið hafði verið hvað væri að gerast innan Evrópubandalagsins og það er í rauninni samhljóða því sem ég er hér að tala um, þróun þess í áttina að ríkisheild í framhaldi af Maastricht-samningnum, en þá segir hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni til Alþingis 1992:
    ,,Það mál leiða líkur að því að eftir því sem ákvæðum Maastricht-samkomulagsins verður hrint í framkvæmd muni Evrópubandalagið í auknum mæli koma fram með samræmda afstöðu til mála á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Í því felst í reynd að það verður nánast ókleift að reka Atlantshafsbandalagið sem stofnun sextán jafnrétthárra ríkja. Þungavigt þess samráðs og samstarfs sem fram fer á vettvangi bandalagsins færist yfir á Evrópubandalagið annars vegar og Bandaríkin hins vegar.``
    Hér er í raun verið að viðurkenna að það séu stórveldin beggja vegna Atlantshafsins sem verði átakapunktarnir eða pólarnir í þessu samstarfi. Hvernig það samstarf síðan þróast og hvort það heldur um það er auðvitað mikil óvissa og margt sem bendir til þess að þessir þræðir kunni að rofna og NATO í þeirri mynd sem verið hefur verði þar með úr sögunni.
    Hæstv. utanrrh. virðist vera búinn að gera það upp við sig hvert beri að halda ef svo fer. Hann segir í skýrslu sinni 1992, með leyfi forseta:
    ,,Aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu mundi ekki einungis vega upp á móti breytingum á stöðu landsins vegna breyttra starfshátta Atlantshafsbandalagsins heldur einnig tengja Ísland Evrópusamstarfinu á sviði öryggis- og varnarmála með hliðstæðum hætti og EES gerir á sviði utanríkisviðskiptamála.``
    Er ekki auðvelt að leggja hér saman tvo og tvo úr þessum málflutningi? Hann er ekkert annar en sá að með breytingum sem eru að verða á innviðum Atlantshafsbandalagsins og hugsanlegri upplausn þess bandalags telur hæstv. ráðherra að okkur beri að leggja spilin saman með Evrópustórveldinu í samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála með hliðstæðum hætti og gert er á sviði utanríkisviðskiptamála innan EES.
    Á þessu vildi ég vekja athygli. Ég tel að þetta sé í rauninni meginmál í sambandi við þá tillögu sem hér liggur fyrir að hér er verið að taka stefnu á hernaðarbandalag sem kann að taka við af Atlantshafsbandalaginu áður en langur tími líður og margt sem bendir til þess og þar eigi andstæður eftir að þróast þannig á viðskiptasviði að það muni einnig kalla fram andstæður á sviði öryggis- og hernaðarmála með auðvitað miklum breytingum sem af því hljótast. Ég tek undir það sem fram kemur í nál. minni hluta utanrmn. í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég vek athygli á því að það er sérstaklega tilfært að það þjóni ekki hagsmunum Íslendinga að gerast aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu. Þetta verður, segir í álitinu með leyfi forseta: ,,Þetta verður enn augljósara þegar haft er í huga að Vestur-Evrópusambandið hefur þá afstöðu til kjarnavopna að þau séu óhjákvæmileg til að tryggja öryggi og frið í Evrópu.``
    Það er rétt, þetta er sjónarmið innan Vestur-Evrópusambandsins en hvernig liggja málin hjá Atlantshafsbandalaginu? Liggja þau eitthvað öðruvísi hjá Atlantshafsbandalaginu að því er varðar kjarnorkuvopnin? Ónei. Í stofnskrá Atlantshafsbandalagsins og í stefnu þess sem ítrekuð hefur verið nú á undanförnum missirum kemur það alveg skýrt fram að Atlantshafsbandalagið heldur í þann rétt og þá stefnu að geta beitt kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Nákvæmlega sama atriði og hér er verið að gagnrýna með réttu af minni hluta utanrmn. Þetta held ég að menn ættu að hafa í huga einnig í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið að undanförnu að því er varðar eðli Atlantshafsbandalagsins sem er enn þá hernaðarbandalag stórvelda þó að mótsagnirnar innbyrðis milli þeirra stórvelda sem eru burðarásinn í þessu bandalagi kunni að leiða til þess að það lognist úr af og það væri vel ef svo yrði. En áður en það gerðist ættu Íslendingar að vera búnir að kveðja þann vettvang þar er ekki eftir neinu að bíða. En þá eigum við heldur ekki að flækja okkur inn í nýju hernaðarbandalagi af þeim toga sem hér er lagt til.