Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 16:58:53 (7497)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér hefur verið það nokkur raun á undanförnum árum að það hefur verið mikil samkeppni að sækjast eftir því að verða forsetar en lítil löngun að lesa þingsköpin. Þetta ósamræmi hefur valdið því að það hefur verið stjórnað á dálítið frjálslegan og stundum heimilislegan hátt. Nú er það svo að þessi þingsköp eru ákaflega einföld. Það tekur augnablik að gera þetta. Ég óska eftir að það verði gert, svo einfalt er það. Að farið sé eftir þingsköpum, þetta samkomulag borið undir atkvæði, og ég efa ekki að það verður samþykkt. ( Utanrrh: Það er bara enginn í þingsalnum.) Oft hefur nú hógværð hæstv. utanrrh. verið mikil en aldrei sem nú. Hann telur sig minna en ekkert og þar með að enginn sé í þingsalnum því hina metur hann nú ekki mikils sem hér eru inni. ( Gripið fram í: Það hefur enginn áhuga á þessu.) Og nú stendur það þannig, hæstv. forseti, að það hefur borist ósk um að þetta verði borið undir atkvæði og ég vænti þess nú að forseti hringi bjöllunni láti greiða atkvæði um þetta samkomulag og fari þannig eftir þingsköpunum og sýni með því og sanni að sá forseti sem nú gegnir störfum í forsetastól viti deili á þingsköpunum og sé alveg ljóst að þetta er það sem hægt er að gera undir þessum kringumstæðum og þá er löglega að ákvörðunartökunni staðið.