Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 17:43:32 (7505)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er svo með þessa skýrslu að ég veit ekki hvað við eigum að taka hana hátíðlega. Hæstv. utanrrh. skipaði nefnd, þrjá embættismenn, og síðan fulltrúa frá stjórnarflokkunum til þess að setja skýrsluna saman. Eins og mér hefur skilist er hún þeirra verk og verður væntanlega undirstaða undir stefnumótun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í utanríkis- og varnarmálum. Ekki var leitað eftir breiðri samstöðu við aðra stjórnmálaflokka. Í dreissugheitum sínum þóttust þeir einfærir um þessa stefnumótun. Gott og vel. En með þessum vinnubrögðum verða náttúrlega aðrar ríkisstjórnir að sjálfsögðu óbundnar af skýrslunni og þeirri stefnu sem mótuð verður á grundvelli hennar. Næsta ríkisstjórn, svo framarlega sem guð gefi að hún verði ekki skipuð sömu flokkum, er gersamlega óbundin af þeirri stefnu sem fram kemur í skýrslunni. En náttúrlega er árátta hjá þessari ríkisstjórn að hunsa stjórnarandstöðuna og leita ekki eftir neinu samráði við hana.
    Ég nefni öryggismál, annað atriði í öryggismálum sem bar á góma fyrir klukkustundu, síðan þegar núv. ríkisstjórn leysti öryggismálanefnd frá störfum, lagði hana niður og skipaði síðan sérstakan hermálafulltrúa.
    Ég nefni skólastefnu þar sem hæstv. menntmrh. skipaði 18 manna nefnd til þess að móta skólastefnu. Nær allir þessir menn voru flokksbundnir eða nafnkenndir sjálfstæðismenn Ég sá í fljótu bragði einn krata í nefndinni.
    Ég nefni málefni Ríkisútvarpsins undir forustu hv. þm. Tómasar Inga Olrich. Hún er ríkisstjórnarnefnd og á álitsgerðum sem svona eru samdar verður ekki tekið mark lengur en þann valdatíma sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekst að vera við völd.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur reyndar gefið fordæmi fyrir því að gera ekkert með það sem fyrri ríkisstjórnir hafa gert, tekur ekki einu sinni mark á formlega gerðum samningum sem fyrrv. ríkisstjórn gerði. Ég nefndi t.d. búvörusamninginn. Það væri líka ómaksins vert að nefna langtímastefnumótun í vegagerð þar sem núv. hæstv. samgrh., Halldór Blöndal, breytir gegn ákvörðunum sem þar voru teknar og stendur ekki við þau fyrirheit sem gefin voru og segir svo í þótta sínum: ,,Ég var alltaf á móti þessum ákvörðunum.``
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur sem betur fer ekki stofnað neitt þúsund ára ríki hér. Hún situr að vísu til næstu kosninga sem verða kannski ekki fyrr en vorið 1995 eða í síðasta lagi vorið 1995 og nóg um það.
    Ég verð að játa að mér finnst skýrslan ekki sæta neinum stórtíðindum. Þarna er tíndur saman sögulegur fróðleikur. Sums staðar í skýrslunni kemur fram mjög sérkennileg söguskoðun. T.d. er ekki minnst á atburð sem mér þykir nokkuð sögulegur og ég tel að hafi verið áhrifaríkur í íslenskri utanríkispólitík og haft verulega þýðingu á þróun sögu okkar, en það var sá atburður þegar Hermann Jónasson, þáv. forsrh., neitaði Lufthansa um aðstöðu hér á landi. Ekkert er minnst á þetta í söguskoðun skýrsluhöfunda. Reyndar er fjöldamargt í skýrslunni sem ástæða væri til að gera athugasemdir við og þar sem komist er kúnstuglega að orði og ég ætla, frú forseti, að nefna örfá atriði. Á bls. 11 segir t.d.:
    ,,Nábýli við varnarliðið hefur eflt sjálfstraust þjóðarinnar í menningarlegu tilliti og aukið styrk hennar til að bregðast við nýjum aðstæðum og alþjóðlegri upplýsingaöld.`` Þetta leyfi ég mér að draga í efa, frú forseti. Síðan segir: ,,Þátttaka Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu mun stuðla að auknu aðhaldi og bættri

hagstjórn.``
    Þetta þykir mér vera langt seilst um hurð til lokunnar. Þeir hafa ekki mikið traust á sjálfum sér þessir menn ef þeir eiga von á að kontóristarnir í Brussel hafi vit fyrir þeim við að stjórna landinu. Það vil ég segja og endurtaka sem ég hef reyndar oft sagt þó ég gagnrýni ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og telji að hún sé afar óheppileg fyrir íslenskt þjóðfélag þá var ég þó sannfærður um að það er hundrað sinnum skárra að hafa hana yfir sér heldur en þurfa að lúta valdinu frá Brussel.
    Það eru fleiri hæpnar fullyrðingar, frú forseti. Á síðu 22 er verið að tala um Evrópubandalagið og þar segir t.d.: ,,Nægir að benda á að Evrópubandalagið hefur haft lykilhlutverki að gegna í samvinnu um aðstoð við ríkin í Mið- og Austur-Evrópu.`` Ég er ekki alveg viss um að ríkin í Mið- og Austur-Evrópu telji sig hafa fengið neina sérstaka hjálp eða mikla hjálp eða nægilega hjálp frá þessum sem hér eru taldir gegna lykilhlutverki. Við nokkrir þingmenn hlustuðum í fyrri viku á klögumál þingmanna Mið-Evrópuríkja nokkurra sem kvörtuðu sárlega undan þeim hindrunum sem Evrópubandalagið lagði á viðskipti þeirra við bandalagið. Ég veit ekki hvað ég á að vera að fara nákvæmlega í þennan sparðatíning.
    Hér segir frá því í kaflanum um Vestur-Evrópusambandið á bls. 31 og það hefði alveg eins getað átt erindi í síðasta dagskrármál eða það dagskrármál sem var á dagskrá á undan þessu til að sýna fram á hverslags glapræði það er að ganga í Vestur-Evrópusambandið. ,,Fulltrúi formennskuríkis í VES mundi í slíkum tilvikum vera málsvari VES-ríkjanna allra. Þar sem öll Evrópuríki NATO verða beint eða óbeint aðilar að VES gætu umræður í NATO smám saman tekið á sig mynd tvíhliða skoðanaskipta milli ríkja Norður-Ameríku annars vegar og Vestur-Evrópusambandsins hins vegar.`` Þarna taka nú nefndarmenn að sér að ákveða framtíð Dana sem seinast þegar ég vissi voru í NATO en láta sér ekki detta í hug að ganga í Vestur-Evrópusambandið.
    Þessi skýrsla er í stórum dráttum sett saman til að reyna að réttlæta þá óskynsamlegu ákvörðun sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók, að ganga í Vestur-Evrópusambandið og einn þátturinn enn í nálgun ríkisstjórnarinnar til Evrópu. Ég nenni ekki að tíunda hér fleiri gullkorn úr þessari skýrslu. Ég er sammála sumu í skýrslunni þar sem eru sæmilega hlutlausar frásagnir en allt er nú verra með ályktanirnar.
    Nú vitum við að kalda stríðið er búið en mér finnst eins og þessi nefnd hafi botnfrosið og sé ekki þiðnuð enn. Ég verð að draga í efa fullyrðingarnar um mikilvægi Keflavíkurstöðvarinnar sem fram koma í skýrslunni. Mér finnst það gefa auga leið að í breyttum heimi þá minnki mikilvægi þessarar herstöðvar og sú hernaðarógn sem að Íslendingum steðjar er náttúrlega fyrst og fremst af kjarnorkuslysi og kjarnorkuslys eru okkur síst fjær með stöðinni öflugri eða með stöðinni lítilli eða ef hún færi. Ég held að Keflavíkurherinn hafi aldrei minnkað áhættuna af kjarnorkuslysi.
    Ég tel sem sagt að þessi skýrsla sé e.t.v. innlegg í umræðuna innan ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og í stuðningsflokkum hennar en ég sé ekki að hún verði neinn grundvöllur eða undirstaða í framtíðinni svo framarlega sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar situr ekki
nema út þetta kjörtímabil. Ég tel að ríkisstjórnir á komandi tímum hafi sáralítið gagn af þessari skýrslu.
    Ég vil, frú forseti, ljúka máli mínu í bili með því að leggja áherslu á að ég tel að Íslendingar þurfi að halda uppi myndugri íslenskri utanríkisstefnu og Ísland hafi út af fyrir sig ýmislegt til að segja heiminum og ég legg til að við leggjum t.d. miklu meiri áherslu á starf okkar og þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna heldur en við höfum gert. Ég tel að ríkisstjórn Íslands sé á villigötum í utanríkismálum yfirleitt. Það er undarleg ógæfa sem yfir verkum hennar á því sviði er og þar af leiðir að ég held að þessi skýrsla sé ekki plagg sem við munum þurfa að fara eftir í framtíðinni svo framarlega sem auðnan ljær Íslendingum nýja ríkisstjórn áður en langt um líður.