Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 18:16:55 (7507)

     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Mig langar til að fara hér nokkrum orðum um þessa skýrslu úr því að hún er orðin að umtalsefni. Í fyrsta lagi vil ég eins og fleiri hafa reyndar gert átelja skipan þessarar nefndar sem er einhver sérkennileg samblanda fulltrúa stjórnarflokkanna og embættismanna. Og það er auðvitað dálítið merkilegt að hæstv. ríkisstjórn hefur valið sér það verklag nánast í öllum tilvikum, jafnvel þegar hin umdeildustu eða viðkvæmustu mál eru til umfjöllunar að skipa eða manna nefndir og ráð eingöngu með þröngt skilgreint flokksfulltrúum sínum. Þetta er auðvitað afar athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að Sjálfstfl. gerði um það kröfu hér stanslaust allt sl. kjörtímabil þegar skipað var í nefndir og stjórnir þar sem allir stjórnmálaflokkar áttu fulltrúa. En sú ríkisstjórn sem þá sat eða ríkisstjórnir mönnuðu gjarnan starfsnefndir með fulltrúum allra flokka og óskuðu eftir fulltrúum stjórnarandstöðuflokka í nefndir og ráð, þá var það nú enginn annar en Sjálfstfl. sem gerði um það kröfu að fá ekki bara einn fulltrúa í slíkar nefndir heldur tvo og það var látið eftir Sjálfstfl. hvað eftir annað á síðasta kjörtímabili að hann fengi tvo fulltrúa í nefndaskipun af þessu tagi. Nú er öldin önnur og það heyrir til hreinna undantekninga ef það yfirleitt þekkist að ríkisstjórnin beri það við að leita eftir einhverri pólitískri samstöðu eða pólitískri breidd í nefndarstarf af einu eða öðru tagi.
    Strax þessi skipan nefndarinnar gerir það að verkum að frá upphafi var borin von að þetta plagg gæti orðið heilbrigður grundvöllur skoðanaskipta eða stefnumótunar í utanríkismálum. Það kann að verða einhvers virði í augum einhverra á meðan þessi ríkisstjórn og þetta stjórnarsamstarf lafir, sem guð láti nú gott á vita að verði ekki lengi, en eftir það er það marklaust og ónýtt plagg, það liggur í hlutarins eðli. Ætli menn að ná einhverri samstöðu um hlutina eða vilji menn vinna verk sem hafi eitthvert gildi til frambúðar og einhverja vísun til framtíðar umfram það kjörtímabil sem yfir stendur, þá gera þeir það auðvitað með því að hafa í slíku starfi fulltrúa allra helstu stjórnmálahreyfinga í landinu.
    Í öðru lagi vil ég koma að því, hæstv. forseti, sem sagt er hér á bls. 26 og 27 um Atlantshafsbandalagið og ég reyndar get nú stytt mál mitt hvað það snertir vegna þess sem hv. síðasti ræðumaður, 10. þm. Reykv., sagði. Ég ætlaði einmitt að koma inn á nákvæmlega sama hlut, þ.e. þennan kostulega sjálfbirgingslega texta hér sem í raun og veru slær því fram að það hafi eingöngu verið vegna aðildar að Atlantshafsbandalaginu sem Íslendingar hafi yfirleitt getað varðveitt sjálfstæði og fullveldi. Maður hlýtur auðvitað að spyrja: Hvernig í ósköpunum gátum við öðlast sjálfstæði og fullveldi hér fyrr á öldinni úr því að Atlantshafsbandalagið var ekki til, var ekki komið til sögunnar til að færa okkur það? Sú vanmetakennd sem hér endurspeglast af síðum skýrslunnar auðvitað ber það fyrst og fremst með sér að þar tali menn sem hafi enga trú á því að Íslendingar geti verið sjálfstæð þjóð á eigin forsendum. Við þurfum einhverja erlenda aðila, helst þetta hernaðarbandalag til að passa upp á þá hluti fyrir okkur. Þetta er auðvitað svo sjálfbirginslegur og kostulegur texti að það er leitun að öðru eins.
    Það er í fyrsta lagi sagt að í krafti aðildarinnar hafi það tekist að varðveita sjálfstæði landsins og fullveldi í meira en 40 ár, sem sagt væntanlega frá því að Atlantshafsbandalagið kom til sögunnar og maður fer að spyrja sig að því, var Ísland þá ekki sjálfstætt og fullvalda frá 1944--1949 eða hvað? Sennilega ekki. Sennilega á þessi texti að túlkast þannig, það hafi verið svona hálfgert ómark af því að NATO var ekki komið á koppinn. Svo er því að sjálfsögðu haldið fram að það hafi verið einhver happadrýgsta ákvörðun allra tíma að ganga í NATO. Svo er enn fremur fullyrt og það er auðvitað dálítið merkileg söguskýring að NATO hafi átt ríkan þátt í að koma af stað og örva þá friðsamlegu lýðræðisbyltingu sem átti sér stað í austurhluta álfunnar og var undirrót þess að pólitísk skipting Evrópu heyrir nú sögunni til. ( Utanrrh: Það segir Havel.) Það er nú aldeilis ekkert annað sem þarna er fullyrt. Ja, miklir menn erum við. Það er víst ábyggilegt að þá hrjáir ekki minnimáttarkenndin, höfundana að þessum texta, svo mikið er víst.
    Í þriðja lagi er í kaflanum um hernaðarlega stöðu Íslands og Keflavíkurstöðina margt kostulega sagt. Þar nefni ég til að mynda það sem reyndar hefur þegar hér verið gert að umtalsefni og er á bls. 45. Þær eru auðvitað mjög merkilegar þessar tilraunir til að réttlæta veru erlends hers og reyna eins og nokkur kostur er að telja mönnum trú um það að hernaðarlegt mikilvægi Íslands sé a.m.k. óbreytt og helst ef eitthvað er vaxandi eftir því sem friðvænlegar horfir í heiminum. Og hvað er það nú sem þar er sérstaklega nefnt? Það er í fyrsta lagi sameiginlegur skilningur manna á viðræðum í Brussel og Washington, það grundvallarálit að hernaðarleg staða Íslands hafi ekkert breyst. Það er mjög mikilvægt að vita það að menn hafa orðið sammála um það á þessum fundum í Washington og Brussel.
    Í öðru lagi er sagt að Keflavíkurstöðin sé einnig mikilvæg fyrir millilendingar vegna loftflutninga frá Norður-Ameríku. Hvað nota menn til að lenda flugvélum? Menn nota flugvelli og þeir fara ekki í burtu þó að hér sé ekki her. Og það er hægt að starfrækja flugvelli og hægt að lenda flugvélum þó að menn séu ekki í hernaðarbandalögum eða haldi heri. Auðvitað er þetta kostulegur brandari. Það sem hér er verið að segja er: Það er gott að hafa flugvöll á Íslandi til að geta millilent á leiðinni yfir Atlantshafið. Það er nokkuð til í því þó að það sé nú reyndar þannig að af tæknilegum ástæðum fari mikilvægi slíks millilendingarflugvallar minnkandi vegna þess að langdrægni flugvélanna sem hér eiga yfirleitt í hlut fer vaxandi. En það getur út af fyrir sig verið nokkur rök fyrir því að það sé ágætt að hafa hér flugvöll og hann er hér þegar. Það kemur bara bókstaflega herstöðin eða hernum ekkert við og er auðvitað eins og hver annar útúrsnúningur. Og í þriðja lagi er það svo fullyrt án rökstuðnings að Ísland sé því mikilvægt burt séð frá hernaðargetu og umsvifum norðurflota Rússa eða hernaðarógninni sem að okkur steðjar á hverjum tíma, burt séð frá því. Það er gaman að bera þennan málflutning saman við það sem sagt var fyrir svo sem 10 árum

síðan og væri nú gaman að taka hér fram blaðagreinar eftir Björn Bjarnason eða ræður eftir ýmsa menn svona frá því fyrir 10 árum og bera það saman við þessar fullyrðingar. Þá er ég hræddur um að það kæmi ýmislegt kostulegt í ljós. Þá var það Rússagrýlan sem réttlæta átti hér veru hersins og var fyrst og fremst notuð í þessu sambandi.
    Af sama tagi er auðvitað orðalagið á bls. 51, þar sem fullyrt er að breyttar aðstæður og nýjar áherslur hafi aukið mikilvægi landsins fyrir frið og stöðugleika í Evrópu og svo er sagt að Keflavíkurstöðin tengist náið þeim möguleika NATO að beita sér utan bandalagssvæðisins og þá er það auðvitað álitamál ef menn taka mark á þessari fullyrðingu, vilja menn það? Hefur verið tekin um það einhver pólitísk ákvörðun að Ísland vilji auðvelda NATO að standa í hernaðaríhlutunum út um allar koppa grundir? Og hvenær var hún tekin? Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að Ísland sé meðmælt því? Ég hefði gaman af að fá svör við því. ( Utanrrh: Þetta er friðargæsla.)
    Sömuleiðis er það merkilegt sem sagt er á bls. 51 og eru það kannski mestu tíðindin í þessari skýrslu ef maður tekur það alvarlega og það held ég að maður verði að gera eftir ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar hér áðan. Það er þar sem segir: ,,Nauðsynlegt er að trúverðugar varnir verði áfram á landinu til að verja fullveldi og lögsögu þjóðarinnar.`` Ég skil þennan texta þannig, sérstaklega í ljósi ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar, að það sé verið að boða hér þau tíðindi að það eigi að vera erlendur her á Íslandi um aldur og ævi, óháð þróun mála í heiminum, hversu friðvænlegt megi teljast. Hér skuli vera erlendur her og halda uppi svokölluðum hervörnum óháð öllu öðru. Sem sagt, allt tal um að erlendur her eigi ekki að vera hér á friðartímum sé lagt til hliðar og er það þá þannig að það sé orðin stefna Sjálfstfl. og stefna Alþfl. að það eigi að hafa hér erlendan her um aldur og ævi á Íslandi? Ad infinitum. Er það stefnan, hæstv. utanrrh.? Er Alþfl. sem slíkur búinn að taka upp þá stefnu og hvenær var stefnan um að hér ætti ekki að vera her á friðartímum lögð af? Hvenær var hún slegin af í Alþfl.? Er fyrir því flokksstjórnarsamþykkt í Alþfl. að hér skuli vera her um aldur og ævi hversu friðvænlegt sem teljast megi í heiminum? Eða hvernig á að lesa þennan texta? Og er það hv. þm. Björn Bjarnason sem talar þar fyrir hönd Alþfl. eins og væntanlega Sjálfstfl.?
    Auðvitað er það svo, hæstv. forseti, að þessi skýrsla er afar ómerkilegt plagg. Hún fullyrðir í annarri setningunni sem er rétt og allir eru sammála um að mjög margt hafi breyst, en í hinu orðinu reynir hún jafnan að sanna að samt sem áður hafi ekkert breyst, hér eigi auðvitað að vera bandarískur her og við eigum að vera í NATO um aldur og ævi. Þetta er auðvitað kostulegur framsetningur manna sem eru að rembast við að réttlæta hér kaldastríðshugsunarháttinn, vígbúnaðarkapphlaupið og allt það þó seint sé að þeirra mati vonandi og flestra allra annarra.
    Það er auðvitað þarft verk að opna upp og víkka út umræðu um breytta stöðu í alþjóðamálum og utanríkisstefnu okkar Íslendinga. En þetta tregablandna dekur við vígbúnaðarkapphlaupið og kaldastríðstímann er ónýtt plagg til þess að leggja grunninn að slíkri umræðu. Ef hana á að hefja, þá á auðvitað að byrja á því að skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem afli gagna og kynni sér það sem markvert er í þessum efnum áður en farið yrði svo síðan út í það að ræða frekari áherslur eða stefnumótun af þessu tagi. Og það verður fróðlegt að heyra hvort hæstv. utanrrh. er tilbúinn til þess að henda þessu plaggi og beita sér fyrir því að skipuð verði einhvers konar starfsnefnd allra stjórnmálaflokka sem leggi þá grunninn að slíkum umræðum.