Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 18:27:30 (7508)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu skýrsla um öryggis- og varnarmál Íslands sem hv. síðasti ræðumaður lýsti sem mjög ómerkilegu plaggi. Ég er honum ekki sammála. Ég held að þetta sé allmerkileg skýrsla, mjög merkileg raunar miðað við það á hvern hátt er hér tekið á nýjum viðhorfum og nýjum aðstæðum í öryggismálum.
    Hér hefur verið fjallað nokkuð ítarlega um ástæður sem liggja til þess að það sé sérstakt tilefni til þess nú að leita víðtækrar samstöðu í umræðunni um öryggis- og varnarmál. Ég hygg að það sé hægt að taka undir þessi orð og fagna þeirri viðleitni sem fram hefur komið hjá þeim flokkum sem hingað til hafa verið einna harðastir í andstöðu sinni við þátttöku Íslendinga í varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Ég held að það séu sérstakar ástæður til þess að það eigi nú að leita víðtækrar samstöðu um öryggis- og varnarmál. Og þessar sérstöku ástæður eru eftirfarndi:
    Það ríkir nú mikið ójafnvægi í stjórnmálum og efnahagsmálum Austur-Evrópu og þetta ójafnvægi hefur aukið óvissu, m.a. í umfjöllun um öryggismál og veikt grundvöll allra áætlana í öryggismálum. Þetta er ein af ástæðunum. Það ber einnig að geta þess að aukið vægi alþjóðlegra viðskipta og öryggishagsmunir sem tengdir eru viðskiptum og efnahagsmálum leiða Íslendinga nú í æ ríkara mæli út á vandrataðar brautir þar sem mikils sveigjanleika er þörf. Við þessar aðstæður er í sjálfu sér mjög brýnt að leita sem víðtækastrar samstöðu í öryggis- og varnarmálum, bæði í varnarmálum og einnig að því er varðar önnur atriði í öryggismálaumræðunni.
    Að lokum er svo að nú blasir það við að hlutverk Íslands í varnarsamstarfi vestrænna ríkja hefur breyst allverulega við hrun Sovétríkjanna og það er hugsanlegt eins og getið er hér réttilega í þessari skýrslu að þjóðin verði að horfa fram á það að axla auknar byrðar í varnarmálum. Við þessar aðstæður er líka nauðsynlegt að leita eins víðtækrar samstöðu í þessum málaflokki og hægt er. Það verður æ flóknara

fyrir okkur í þessari stöðu að gæta öryggishagsmuna þjóðarinnar. Þeir tengjast viðskiptaöryggi, þeir tengjast efnahagslegu sjálfstæði og efnahagsmálum, þeir tengjast einnig umhverfisöryggi. En það má ekki líta svo á að öryggismál fjalli ekki lengur um hernaðarmál eða varnarmál í þrengstu merkingu. Það er talað hér um í þessari skýrslu í II. kafla að þverrandi hernaðarógn hafi orðið til þess að tekið sé aukið tilliti til almennra utanríkishagsmuna, ekki síst efnahags- og viðskiptamála. Í raun og veru má segja að hernaðarógnin hafi breytt um eðli. Í stað ógnarjafnvægis sem byggðist á gífurlegri uppbyggingu hergagna og eyðingarmáttar tveggja hernaðarbandalaga er komið óvissuástand þar sem erfitt er að tryggja að sterk eða meðalsterk kjarnorkuveldi með til þess að gera veikt stjórnmálalíf og veikt lýðræði sem ýmist er í burðarliðnum eða vaklandi á brauðfótum beiti ekki hernaðarmætti sínum til lausnar á flóknum og rótgrónum deilumálum innan sinna vébanda og í tengslum þeirra við nágrannaríki. Þessi þáttur er mjög vandmeðfarinn þannig að það er ekki hægt að segja að hernaðarógnin hafi vikið heldur hefur hún breytt um eðli. Á meðan þetta ástand varir þurfa Íslendingar að temja sér mikinn sveigjanleika í umfjölluninni um öryggismál og þeim ber að sjálfsögðu að standa mjög fast við þá stefnu sem hefur verið kjölfestan í íslenskum öryggis- og varnarmálum og tryggja varnir landsins í hefðbundnum skilningi áfram, þ.e. landvarnir í orðsins fyllstu merkingu.
    Ég vildi að þetta sjónarmið kæmi hér fram og ég tel að í umfjöllun um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu hafi komið fram nokkuð takmarkaður skilningur á þessari nauðsyn og það komi fram hér óþarflega mikil viðkvæmni gagnvart mikilvægi NATO í lýðræðisþróuninni í Austur-Evrópu sem er almennt viðurkennt, það er almennt viðurkennt að NATO gegndi mjög mikilvægu hlutverki í þeirri þróun. Einnig tel ég að í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hafi komið fram þegar hún var að ræða um einföldun á alþjóðlegum stjórnmálum Evrópu að þar ættist við gott og illt og finnst mér hún hafa gengið nokkuð langt í að rugla saman afleiðingum hugmyndafræðilegs ágreinings annars vegar, þ.e. lýðræðisins annars vegar og alræðishyggju kommúnistaríkjanna hins vegar og svo afleiðingum þessa hugmyndafræðilega ágreinings sem var kalda stríðið og ógnarjafnvægið. Það er ekki hægt að fría sig við að taka siðferðilega afstöðu til þessa hugmyndafræðilega ágreinings sem þarna var uppruni kalda stríðsins og ógnarjafnvægisins.