Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 18:43:51 (7511)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ef ég hefði ekki vitað betur þá hefði ég ályktað eftir ræður þeirra hv. þm. Páls Péturssonar, utanrrh. skuggaráðuneytis Framsóknar, og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns Alþb., að hér hefðu orðið merkileg hlutverkaskipti. Að hv. þm. Páll Pétursson væri í reynd formaður Alþb. og talaði máli þess en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson væri hins vegar nýkjörinn formaður Framsfl. en hefði náð kjöri með stuðningi þess arms Framsfl. sem venjulega var kenndur við vestræna samvinnu og væri þess vegna eiginlega andlegur leiðtogi þessa unga manns sem var hér mikið á dagskrá og er í stjórn samtaka um vestræna samvinnu. ( BBj: Varðbergs.) Varðbergs já. Ég er ekki alveg klár á hvað þessi samtök heita. ( Gripið fram í: Þetta er misskilningur.) Það er merkilegt ef þetta er misskilningur. En af máli mannanna mátti ekki álykta annað. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fór viðurkenningarorðum um þessa skýrslu og varði meginhluta ræðutíma síns til að lesa með mikilli velþóknun valda kafla úr skýrslunni. En til þess nú að menn ályktuðu ekki sem svo að hann væri í einu og öllu ásáttur við skýrsluna þá tíndi hann til eitt og annað fremur lítilvægt sem mætti finna að eins og t.d. það að ekki hafi verið talað við nógu marga, t.d. ekkert verið talað við hann og ekkert verið talað við Bill Clinton og hefði verið betur ef það hefði verið gert fyrr.
    Hann væri í stórum dráttum, mátti ráða af þessu, sammála forsendunum en það væri kannski einhver áherslumunur að því er varðaði ályktanirnar. En hann lét í ljós að á grundvelli svo góðrar skýrslu þá þyrftum við endilega að halda áfram þessum umræðum. Þarna kvað við nýjan tón hjá formanni Alþb. Það er að vísu alveg nýtt að við ræðum utanríkis- og öryggismál hér dögum saman nærri því fyrir tómum sal, það eru varla fleiri í salnum en þeir sem taka þátt í umræðunum, hefur aðeins bæst við núna eftir að ég byrjaði að tala, og hefði nú ekki gerst hér áður fyrr á meðan andlegir leiðtogar Alþb. og þeir sem lýsa svipuðum skoðunum og hv. þm. Páll Pétursson voru að móta utanríkisstefnu Alþb. hér á gullaldardögum þess. Þarna er mikill munur á. Hv. þm. Páll Pétursson hafði allt á hornum sér, talaði að vísu ekkert um umræðuefnið, talaði mikið um að ríkisstjórnin væri vond og vitlaus og skipaði vitlausa menn í nefndir o.s.frv. en hefði átt að endurtaka framlag sitt úr umræðunum um aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu því þar vann hv. þm., talmaður Framsfl., utanríkisráðherrann í skuggaráðuneytinu, það afrek að segja það vitlausasta sem sagt hefur verið í umræðunum undanfarna sólarhringa og verður að halda til haga. Hann sagði í þeim umræðum að núv. ríkisstjórn á Íslandi skæri sig úr í samanburði við ríkisstjórnir aðrar á Norðurlöndum í Evrópudekri sínu, að hún sæi orðið ekkert nema Evrópu og væri í þann veginn að snúa baki við Bandaríkjunum sem honum þótti ákaflega mikið miður og mátti ekki annað heyra á honum þegar hann var að segja þetta en að þarna væri utanrrh. Framsóknar orðinn eiginlega nokkuð öflugur talsmaður þess að viðhalda nú þétt tengslunum við Bandaríkin en honum var svo mikið í mun að koma höggi á ríkisstjórnina út af Evrópudekri að þetta datt nú út úr honum. Og þetta segir hv. þm. um ríkisstjórn sem er sú eina á Norðurlöndum sem ekki hefur sótt um aðild að Evrópubandalaginu og hefur lýst því yfir að það mál sé ekki á dagskrá, og um þá einu ríkisstjórn á Norðurlöndum sem hefur lýst því yfir að hún vilji sérstaklega leita eftir samningum um aðild Íslands að fríverslunarbandalagi við Bandaríkin og Kanada og ríkisstjórn sem hefur, í þessari skýrslu t.d., lagt höfuðáherslu á það að hornsteinn öryggis- og varnarstefnu Íslands sé þrátt fyrir umrót tímans að viðhalda varnarsamningnum við Bandaríkin, eina ríkisstjórnin á Norðurlöndum sem það gerir og að aðildin að Atlantshafsbandalaginu sé eftir sem áður forsenda okkar öryggismála. Þessi málsgrein í ræðu hv. þm., utanrrh. Framsóknar, var með öðrum orðum það vitlausasta sem ég hef heyrt í þessum umræðum og ég held því hér með til haga.
    En þegar kemur að málflutningi formanns Alþb. þá er það eins og fyrri daginn að við talsmenn ríkisstjórnarinnar verðum að segja: Þetta sætir allt nokkrum tíðindum, að formaður Alþb. lýsir á fordómalausan hátt vilja sínum til að ræða utanríkis- og öryggismál á þeim forsendum sem hér eru lagðar. Þetta kallar á það að menn fái svar við einni spurningu: Talar formaður Alþb. í nafni þess flokks sem hann er formaður fyrir? Eða er það kannski hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem mér heyrðist tala á svipuðum nótum og Páll Pétursson, svona ,,hafandi-allt-á-hornum-sér``-ræðu. Eru þeir raunverulegir talsmenn Alþb., þeirrar stefnu sem Alþb. raunverulega fylgir?
    Það sætir ekkert voðamiklum tíðindum þótt prófessor doktor Ólafur Ragnar Grímsson lýsi þessum skoðunum ef þær eru bara persónulegar skoðanir hans sjálfs, en ef þetta væru skoðanir Alþb. sem hann var að lýsa þá eru það merkileg tíðindi í stjórnmálum og ástæða til þess að reyna að fá það nú fram og þessi umræða ekki til einskis ef það tækist að fá þetta upplýst.
    Það fer ekkert á milli mála að Alþb. og forverar þess höfðu tiltekna hugmyndafræði að hornsteini í utanríkispólitískri afstöðu sinni. Alþb. og forverar þess byggðu þetta á þeirri hugmyndafræði sem þeir töldu sig eiga sameiginlega með Sovétríkjunum gömlu og sálugu. Þau töldu Sovétríkin vera framfarasinnað afl. Þau töldu þess vegna aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og veru bandarísks hers hér vera forkastanlega á hugmyndafræðilegum forsendum. Nú þarf ekki að orðlengja það að þessi hugmyndafræði reyndist vera hin mesta fólska og reyndar glæpamennska, þ.e. Sovétríkin voru aðallega glæpahringur, og menn vilja ekki eyða miklum orðum í þá sögu. En þá er spurningin: Úr því að það er svo að þetta var allt saman á misskilningi byggt hvernig stendur á því að þeir forustumenn Alþb. sem nú vilja ekkert kannast við sögu sína eða fortíð hafa engar ályktanir af þessu dregið? Úr því að það var svo, hafa þeir þá ekki jákvæðari afstöðu gagnvart Atlantshafsbandalaginu sem varnarsamtökum lýðræðisríkjanna með t.d. sama hætti og þeir forustumenn lýðræðisaflanna í Austur-Evrópu sem loksins hafa hrist af sér klafa hinnar kommúnísku kúgunar og hafa ályktað að Atlantshafabandalagið hafi verið raunveruleg varnarsamtök lýðræðis og verið þeim sverð og skjöldur í raun og veru og jafnframt fylgt því eftir með því að segja: Það er meginmarkmið okkar á þessum óvissutímum --- ég er að tala um forustumenn þjóða eins og Ungverja, Pólverja og Tékka --- að ná aðild að þessu bandalagi.
    Það má álykta af orðum hv. þm., formanns Alþb., að hann hugsi á þessum nótum. Það getur enginn dregið þær ályktanir af orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar ef hann er nú í skuggaráðuneytinu í utanríkismálum í Alþb., eða orðum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Þeir hafa ekkert breyst þó heimurinn hafi breyst. Þeir hafa ekkert breyst þótt Sovétríkin séu fallin. Þeir hafa ekkert breyst þótt kommúnisminn sé fyrir bí. Þeir eru enn að tuða með sama versið sitt: Ísland úr NATO, herinn burt. Og hafa að öðru leyti allt á hornum sér, það er þeirra stefna. ( SJS: Þú hefur nú ekki breyst mikið heldur.) Nei, ekki eftir að ég ungur að árum gerði mér grein fyrir því hvers konar fordæðisskapur þetta allt saman var þá hefur það ekki mikið breyst, það er rétt. En ekki tilefni líka til mikilla breytinga.
    En nú spyr ég og vil fá það upplýst, er formaður Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, að tala í umboði síns flokks eða er hann hér með eitthvert sólóspil svona rétt áður en hann kveður landið og fer til Indlands? Er það svo að þær skoðanir sem hv. þm., formaður Alþb., hefur lýst hér hafi stuðning í þingflokki Alþb.? Er það svo að miðstjórnin standi að baki þessu eða er hér um að ræða sjónarspil þar sem það er þannig í reynd að formaðurinn er að setja á svið pólitískt leikrit en það er enginn stuðningur við þetta leikrit innan flokksins? Ef það væri hins vegar svo þá sætti það einhverjum tíðindum, en í raun og veru koma hér fram talsmenn gömlu sjónarmiðanna, þ.e. hv. þm. Páll Pétursson og Steingrímur J. Sigfússon, þeir eru í sama flokki. Þeir hafa sömu hugmyndafræðina og þeir eru í sömu fortíðinni. Hjá þeim hefur ekkert breyst. Þess vegna er óþarfi út af fyrir sig að vera að efna til eða hafa einhver hátíðleg orð um að það sé æskilegt í ljósi breyttra aðstæðna og breyttra hugmynda og breyttra tíðinda að fara að finna sér sameiginlegan vettvang fyrir umræður um utanríkismál. Þeir eru enn í gömlu skotgröfunum.
    Nú er það svo að þessi skýrsla hér sem er skýrsla þessarar nefndar, knapporð, vel fram sett, ekki mjög flókið plagg og segir út af fyrir sig ekki margt en þó þetta: Þær breytingar sem riðið hafa yfir eru auðvitað sögulegar og fáir hefðu séð þær fyrir eða spáð fyrir um þær fyrir ekki mjög mörgum árum. Það eru auðvitað stórmerkileg tíðindi að Sovétríkin eru fallin, að nýlenduveldi Sovétríkjanna eru liðin undir lok,

að kommúnisminn sem hugmyndafræði er svo gjörsamlega afskrifaður um gjörvalla heimsbyggðina að það finnst varla nokkur maður með fullu viti sem mælir honum bót og var þetta þó hvorki meira né minna en ráðandi stefna í þriðja parti veraldarinnar. Og ekki bara það, heldur voru hér fjölmennar stjórnmálahreyfingar á Vesturlöndum, þar með talið Alþb. og forverar þess sem í einu og öllu höfðu sömu skoðanir í utanríkis- og alþjóðamálum og þetta fólskulega fordæðuafl. Nú væri ástæða til þess að fá svör við því. Hér er verið að draga ályktanir að breyttum forsendum en forustumenn Alþb., aðrir en formaðurinn, hafa engar ályktanir að því er virðist dregið af þessum breyttu forsendum. Það kemur ekki fram í máli þeirra, þeir vilja bara þögnina. Þeir vilja bara að þögnin geymi fortíðina. Það er það sem þeir vilja og það er ekki mikið hægt að tala við menn sem vilja bara þögn. ( SJS: Skipaðu okkur í nefndina. Þá skulum við tala við þig.) Ég er einmitt að segja það, ágæti þingmaður, að það hefði verið til lítils að skipa þessa þagnarbindindismenn í einhverja nefnd. Til hvers? ( Gripið fram í: Það má reyna.) Ég hefði talið í flestum tilvikum að endurhæfingunni væri lokið, endurhæfingunni á að vera lokið og ég er að lýsa eiginlega vonbrigðum mínum yfir því að tregðan skuli vera svona ofboðsleg. Það er bara einn maður í Alþb. sem orðar einhverja nýja hugsun, allt svo ekki nýja hugsun fyrir aðra en nýja hugsun fyrir þá alþýðubandalagsmenn, hinir eru enn í gamla tossabekknum, allir. ( Gripið fram í: Framsókn?) ( Gripið fram í: Og Páll Pétursson.) Og Páll Pétursson, já, utanríkisráðherraefni Framsfl. Það kemur hins vegar ekkert á óvart því hann hefur sýnt það bæði í utanríkismálum sem innanlandsmálum að hann er nokkuð traustur, ,,sólíd`` og sjálfum sér samkvæmum sem talsmaður íhaldssemi og afturhalds á öllum sviðum. Það er nokkuð pottþétt grundvallarafstaða og breytir ekki mikið út af því. ( Gripið fram í: Hvaða leikrit er þetta?)
    Það er ástæðulaust að lengja þessa ræðu mikið enda er klukkan að verða sjö og fréttatími bráðum.
    Virðulegi forseti, þrátt fyrir allt talið um breytingarnar þá er það svo að í staðinn fyrir hinar föstu skorður kalda stríðsins þá eru núna mikil óvissutímabil sem við lifum og sem fyrirsjáanleg eru fram undan. Eins og ég hef vikið að áður nýlega úr þessum ræðustól, þá skilja það fáir betur heldur en þeir sem nýlega eru lausir undan áþján kommúnismans. Þar er verið að framkvæma tilraun sem er geysilega áhættusöm og hvílir á veikum stoðum, tilraun til þess að koma á lýðræðislegum þjóðfélagsháttum og fjölflokka lýðræði, réttaríki og svo framvegis. Meðan sú tilraun er í óvissu er auðvitað ekkert tilefni til þess fyrir lýðræðisöflin að leysa upp varnarsamtök sín sem skilað hafa þeim svo ótrúlegum og óviðjafnanlegum árangri sem raun ber vitni. Og allra síst þegar forustumenn lýðræðisaflanna í Mið- og Austur-Evrópu mega síst af öllu til þess hugsa og vilja gjarnan að öryggi og vernd þessara samtaka nái til þeirra líka. Þetta er kjarninn í þeirri hugsun sem er verið að setja fram í þessari skýrslu, ásamt með því að meginforsendan fyrir öryggi Íslands á þessum óvissutímum er að viðhalda samstarfi lýðræðisaflanna beggja vegna Atlantshafsins. Fari svo að hernaðarlegri nærveru hersveita Bandaríkjamanna á meginlandi Evrópu ljúki þá er samt sem áður nauðsynlegt að öryggi siglingaleiða þvert yfir Atlantshafið sé tryggt. Þetta eru svona grundvallarforsendurnar. Þetta þarf ekki að þýða, alls ekki, að ekki geti orðið breytingar á starfsemi varnarliðsins hér, þvert á móti. Við skulum búa okkur undir það að þær geti orðið mjög verulegar í framhaldi af því sem þegar hefur orðið. Það ætti ekkert að koma okkur á óvart. En samt sem áður eru það sameiginlegir hagsmunir okkar og bandalagsþjóða okkar að viðhalda árvekni okkar og viðhalda afli þessara samtaka vegna þess að hvað svo sem við viljum segja um jákvæða þróun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, vonin um það að Sameinuðu þjóðirnar geti aftur orðið veigameira afl í samræmi við upphaflegan sáttmála sinn eða að samtök eins og RÖSE geti í framtíðinni gegnt einhverju hlutverki, þá er staðreyndin sú að einu samtökin sem geta raunverulega, ef þörf krefur, gegnt hlutverki friðaraflsins, gegnt hlutverki þeirra samtaka að koma á friði og varðveita frið í okkar heimshluta, er Atlantshafsbandalagið. Þeir sem hafa verið þessarar skoðunar lengi þurfa náttúrlega ekki að vitna mikið um það. Þetta er forsendan fyrir því að íslensk utanríkisstefna eins og hún var mótuð eftir stríð hefur reynst farsæl svo með ólíkindum má telja. En þau stjórnmálaöfl á Íslandi, sem alla tíð hafa gagnrýnt þetta hatrammlega, hafa haft rangt fyrir sér, þurfa nú að endurmeta það eins og þau þurfa yfirleitt að taka allar sínar pólitísku forsendur til endurmats. Þess vegna er ákaflega jákvætt að heyra formann Alþb. tala með þeim hætti að það örlar á slíkri hugsun, þarf hann þó síður á því að halda en þeir sem að baki honum standa, þ.e. hinir raunverulegu arftakar hinnar kommúnísku arfleifðar.