Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 19:05:22 (7513)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég held að ég sé ekki alveg búin með minn tíma í þessari umræðu en það kom svo sem ekkert á óvart að hæstv. utanrrh. var í eina tíð borgarfulltrúi Alþb., það vita jú þeir sem hafa setið í borgarstjórn, enda kom það auðvitað vel fram í máli hæstv. utanrrh. áðan að hann er afskaplega vel að sér í svokölluðu ,,kommajargoni`` því hann talaði um að endurhæfingu væri lokið. Um daginn var hann að tala um alþýðudómstóla. Hann gerði kröfu um sjálfsgagnrýni eins og tími sjálfsgagnrýninnar væri upp runninn, en það þekkja menn úr þessum fræðum. Það er greinilega gerð hér einhvers konar krafa um það að fólk standi eins og vitnandi herkerlingar og játi á sig ýmist sannar eða uppdiktaðar syndir í þessum málum. Mér fannst það m.a. koma fram hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich í minn garð þar sem hann benti mér föðurlega á það að ég kæmist ekkert hjá því að taka siðferðilega afstöðu til hugmyndafræðilegs ágreinings milli lýðræðis annars vegar og miðstýrðs kerfis hins vegar og ég get alveg sagt honum það að það vefst ekkert fyrir mér að taka siðferðilega afstöðu í þeim efnum. Ég fagna endalokum Sovétkerfisins og ég get nefnt absalút gildi í þeim efnum. Ég tel að sum gildi séu absalút og þau séu ekkert umsemjanleg. Það er t.d. með lýðræðið, mannréttindin og ýmsa slíka hluti. Þegar við förum svo að færa okkur yfir í hernaðinn og varnarmálin svokölluðu sem byggjast þá á hernaði og hernaðarbandalögum, þá erum við ekki lengur að tala um absalútgæði eða gildi þá erum við að færa okkur yfir á hið afstæða. Þá geta menn komið upp með ýmsar skoðanir á því hvernig þar hafi verið staðið að málum.
    Söguskoðanir hafa komið líka til umræðu og það er í rauninni allt undir, heimurinn allur eins og eitt kálfskinn en hv. þm. Björn Bjarnason hélt því fram að það lægju fyrir staðfestar áætlanir um það hvernig Sovétkerfið, kommúnisminn, ætlaði að leggja undir sig Vestur-Evrópu. Í þeim efnum er auðvitað ekkert staðfest. Þetta eru söguskoðanir eins og svo margt annað. Um þetta deila sagnfræðingar og hafa deilt. ( BBj: Áætlunin liggur fyrir.) Já, en hvaða þýðingu sú áætlun hafði er allt önnur saga, hv. þm., og við getum rætt það kannski nánar síðar, tíminn er ekki mikill til þessara hluta. Söguskoðanir verða til með ýmsum hætti og ég vil benda á eina söguskoðun sem er að finna í skýrslunni sem hér liggur fyrir. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Hlutleysisstefnan sem tekin var upp 1918 byggðist ekki á trú á að hlutleysi dygði öryggi smáríkja. Með henni var í reynd viðurkennt að Ísland væri á áhrifasvæði Atlantshafsveldisins Bretlands.`` Hvaðan er þetta komið að þetta hafi ekki byggst á trú á að hlutleysi dygði öryggi smáríkja? Ég held að menn hafi ekki stafkrók fyrir sér í þessum efnum og ef menn hefðu litið svo á að Ísland væri á áhrifasvæði Atlantshafsveldisins er þá ekki nær lagi að menn hefðu sótt um hervernd í stað þess að Ísland væri hernumið í seinni heimsstyrjöldinni? Er þá einhver ástæða til þess að ætla að menn hefðu haft þá skoðun að hér ætti aldrei að vera her á friðartímum en nú virðist sem verið sé að hverfa frá þeirri skoðun, m.a. í þessari skýrslu hér. Svona verða nú söguskoðanirnar til og þetta er algjörlega órökstutt. Það væri gaman að vita hvað menn hefðu nákvæmlega fyrir sér í þessu, í hvað þeir geti vitnað þessu til sannindamerkis.