Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 19:23:53 (7516)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Eftir þessa seinni ræðu hæstv. utanrrh. þá verð ég enn að ítreka það að það er framkoma sem ekki er við hæfi að ráðherrar þess málaflokks sem til umræðu er taki svo seint þátt í umræðunum að a.m.k. fulltrúar tveggja flokka, í þessu tilviki Alþb. og Sjálfstfl., eru búnir með allan sinn tíma og fulltrúar tveggja annarra flokka eiga mjög lítinn tíma eftir og núna eftir þessa seinni ræðu líklegast engan.
    Þetta er auðvitað ekki eðlileg framganga í umræðunni, hæstv. utanrrh., ef ætlunin var að umræðan væri einhver eðlileg umræða um skoðanir og stöðu. Pólitík kalda stríðsins fólst auðvitað ekki bara í afstöðu, hún fólst líka í ákveðnum stíl. Mér fannst hæstv. utanrrh. vera mjög í þeim stíl hér í dag. Það er auðvitað mjög athyglisvert fyrir okkur sem hlustum á þessar umræður að hæstv. ráðherra vék í engu að því sem var þó upphaf þessarar umræðu eins og ég greindi frá í upphafi minnar ræðu, hvort það væri vilji ríkisstjórnarflokkanna að stofna grundvöll til þess að fulltrúar allra flokka gætu haldið áfram að ræða þessi mál á eðlilegan og málefnalegan hátt. Það er auðvitað mjög athyglisvert að utanrrh. Íslands svarar því engu. Ég dreg ekki aðra ályktun af framgöngu hans í þessum umræðum en þá að hann vilji ekki slíka umræðu. Ég tel hins vegar að hv. þm. Björn Bjarnason vilji þá umræðu og það er auðvitað orðin nokkuð sérkennileg staða í umræðunni þegar aðaltalsmaður Sjálfstfl. vill greinilega slíka umræðu en formaður Alþfl. vill hana ekki. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli . . .  ) Ég er svo, virðulegi forseti, í þeirri stöðu að ég get ekki undir þessum dagskrárlið vikið að ýmsum efnisþáttum í þessari seinni ræðu hæstv. utanrrh. Það má vel vera að ég geri það í umræðunni um Vestur-Evrópusambandið sem verður á eftir því auðvitað er það mjög sérkennilegt fyrir okkur sem fylgdust með hæstv. utanrrh. á blómaárum hans sem ungs marxista, því það er auðvitað munurinn á formanni Alþfl. og formanni Alþb. að formaður Alþb. . . .  ( Forseti: Alþb. var búið með sinn tíma í þessari umræðu.) Já, ég er að ljúka þessu, virðulegi forseti, að formaður Alþfl. var um langt tímabil mjög öflugur marxisti og líka fyrir mig sem var í framboði með hæstv. utanrrh. 1974 fyrir flokk sem ekki hefur verið nefndur hér enn, þann sem hafði það á stefnuskrá sinni að herinn ætti að fara og Ísland ætti að vera utan hernaðarbandalaga og var þá utanrrh. sjö árum áður farinn úr Alþb. en var enn með þessa skoðun. Það væri auðvitað mjög gaman að fara í gegnum alla þessa umræðu og þær ályktanir sem

hæstv. utanrrh. dró af henni og þessa stöðu sem hann setti sig í að vera hinn syndlausi maður sem gæti talað eins og skólameistari við aðra. (Forseti hringir.) En eins og forseti er að benda mér á þá hef ég ekki rétt til þess að ræða það undir þingsköpum en við munum skoða það hvort það verður gert undir öðrum dagskrárlið síðar. En ég harma það að hæstv. utanrrh. skyldi ganga fram með þessum hætti í umræðunni. --- [Fundarhlé.]