Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 21:20:20 (7519)

     Flm. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Þessi ræða hv. 2. þm. Vestf. var í raun endurtekning á því sem hann hefur nú áður flutt hér og ég andmælti þá og vil ítreka þau andmæli nú þannig að það fari ekki á milli mála að hér fer hv. þm. algerlega með rangt mál. Það vakir alls ekki fyrir flm. þessarar tillögu að stuðla að mannréttindabrotum, síður en svo. Þvert á móti fjallar tillagan um það að Eystrasaltsríkjunum séu ekki settir óeðlilegir kostir á alþjóðavettvangi við umsóknir þeirra í alþjóðasamtök. Þessi tillaga var flutt hér á sl. hausti að gefnu tilefni. Mál hafa þróast á þann veg, t.d. í Evrópuráðinu að nú blasir við að í maí nk. verði samþykkt bæði að Eistland og Litáen verði aðilar að þeim samtökum sem gera strangastar kröfur til mannréttinda af öllum alþjóðasamtökum í Evrópu þannig að það er alls ekki með nokkru móti unnt að segja að flm. þessarar tillögu, sem m.a. höfðu umsókn þessara ríkja um aðild að Evrópuráðinu í huga, séu með nokkrum hætti að stuðla að mannréttindabrotum. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm.
    Umræðan um þetta mál er nú að komast á lokastig og þar sem þróun mála á vettvangi Evrópuráðsins hefur verið með þeim hætti í vetur sem ég var nú að lýsa, þá býst ég nú ekki við því að þessi tillaga fari lengra en til nefndar. Málið er komið í höfn varðandi þessi ríki. Þess er beðið að kosningar fari fram í Lettlandi og eftir það er víst að Evrópuráðið mun taka vel í umsókn Letta um aðild þannig að ég held að megintilgangurinn sem um var fjallað í þessari tillögu sé að nást, en ég vona að hún komist til utanmrn. og þar verði unnt að skoða málið þegar frá afgreiðslu málsins hér í þinginu hefur verið gengið.