Tekjuskattur og eignarskattur

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 21:28:03 (7526)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Það er að sönnu skaði að þingflokksfundir standi yfir hjá stjórnarflokkum meðan mikilvæg mál eru rædd, en engu að síður tel ég rétt að nýta tækifærið sem gefið er til þess að mæla fyrir málinu og vænti þess að það þýði ekki minni stuðning við málið þótt þingmenn séu uppteknir við önnur störf.
    Það frv. sem ég mæli hér fyrir og flyt ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á þskj. 832 er svohljóðandi með leyfi forseta:
    ,,1. gr. Síðasti málsl. 1. tölul. 3. mgr. C-liðar laganna orðast svo:
    Vaxtagjöld af lánum annarra íbúða, sem framteljandi kann að eiga, mynda ekki stofn til vaxtabóta.``
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1994 á tekjur ársins 1993 og eignir í lok þess árs.``
    Með þessu frv. fylgir stutt greinargerð til þess að gefa yfirlit yfir efnisinnihald nánar en fram kemur í
lagatextanum sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Með frv. þessu er lagt til að íbúðareigendur geti fengið vaxtabætur þótt þeir búi ekki í þeirri íbúð um einhvern tíma sem keypt var til eigin nota og jafnframt kveðið skýrt á um að vaxtabætur eru aðeins greiddar með einni íbúð, þeirri sem ætluð er til eigin nota.
    Í ákvæðum núgildandi laga um vaxtabætur er íbúðarhúsnæði til eigin nota skilgreint þannig að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda sjálfum. Það hefur í för með sér að íbúðareigandi missir vaxtabætur þann tíma sem hann af einhverjum ástæðum dvelst ekki í íbúðinni og á ekki heimili þar og jafnvel leigir hana út.
    Margvíslegar ástæður geta valdið því að íbúðareigandi dvelst ekki í eigin íbúð. Hann getur ákveðið að sækja atvinnu í önnur byggðarlög, verið í námi eða þurft vegna veikinda að flytja heimili sitt þangað sem nauðsynlega læknisþjónustu er að fá, svo fátt eitt sé nefnt.
    Flutningsmönnum þykir ekki rétt að íbúðareigandi missi rétt til vaxtabóta við það eitt að búa ekki sjálfur í íbúðinni hvort heldur það er um lengri eða skemmri tíma og er því lagt til að brott falli ákvæði síðasta málsliðar 1. tölul. 3. mgr. C-liðar 69. gr. sem skilgreinir íbúðarhúsnæði til eigin nota þannig ,,að átt er við að húsnæðið sé nýtt af eiganda þess sjálfum``.
    Við þessa breytingu verða vaxtagjöld, sem vaxtabætur miðast við, ákvörðuð á sama hátt og frádráttarbær vaxtagjöld voru í gildistíð vaxtafrádráttar hjá einstaklingum þar sem skilgreiningunni á íbúðarhúsnæði til eigin nota er breytt til samræmis við það sem gilti fyrir gildistöku laga, nr. 79/1989, um vaxtabætur.
    Vegna þeirrar breytingar, sem að framan er rakin á hugtakinu íbúðarhúsnæði til eigin nota, er nauðsynlegt að setja ákvæði sem tekur af öll tvímæli um það að íbúðareigandi getur ekki fengið vaxtabætur með fleiri en einni íbúð og er því lagt til að málsliðurinn orðist svo sem fram kemur í 1. gr. frumvarpsins.``
    Það er rétt að rekja stuttlega forsögu málsins. Hún er á þann veg að árið 1989 var ákveðið að leggja af þau endurgreiðslukerfi sem þá höfðu verið til um tíma í gegnum skattakerfið til aðstoðar fólki til að afla sér húsnæðis, kaupa sér húsnæði, það voru húsnæðisbætur og svokallaður vaxtafrádráttur. Þessi bótakerfi voru sameinuð í eitt, sem heitir vaxtabætur, með sérstökum lögum nr. 79/1989. Þegar maður skoðar það frv. sem var undanfari þeirra laga þá kemur glögglega í ljós að tilgangur frv. var að koma opinberri aðstoð í einn farveg vegna endurgreiðslukerfis á vaxtagjöldum. Tilgangurinn var ekki að breyta um forsendur fyrir því að menn gætu fengið þessar bætur. Það kemur berlega í ljós í athugasemdum sem eru með þessu frv. en þar segir í athugasemd við 1. gr. þess frv., með leyfi forseta: ,,Í 3. mgr. eru vaxtagjöld þau sem vaxtabæturnar miðast við skilgreind. Eru vaxtagjöldin ákvörðuð á sama hátt og frádráttarbær vaxtagjöld í gildistíð vaxtafrádráttar hjá einstaklingum.``
    Eða með öðrum orðum er skýrt tekið fram að það er ekki verið að breyta skilgreiningunni á rétti manna til bótanna, það er hugsunin í frv. eins og hún er kynnt í því. Engu að síður kom inn sú breyting sem er tilefni þess frv. sem ég mæli fyrir en það er skilgreining á orðunum ,,húsnæði til eigin nota`` þannig að það sé húsnæði nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Eða með öðrum orðum að menn fá aðeins vaxtafrádrátt eða vaxtabætur af íbúðarhúsnæði sem þeir hafa keypt og eiga ef þeir búa í húsnæðinu. Það þýðir að um leið og þeir flytja úr því um einhvern tíma, t.d. eitt ár, þá missa þeir vaxtabæturnar þann tíma. Þannig var kerfið ekki áður og orðalag í lagatextanum í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt fyrir þessa breytingu var þannig að skilyrði var að vaxtagjöldin væru gjöld af skuldum sem sannanlega eru notaðar til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða endurbóta á því. Eða með öðrum orðum að menn væru að borga vexti af lánum vegna kaupa á húsnæði en það væri ekki skilyrði að menn byggju í því til að halda bótaréttinum.
    Ég hef, virðulegi forseti, rakið hvernig hugsunin á bak við núgildandi lagaákvæði um vaxtabætur var sú að breyta ekki forsendum bótaréttarins en engu að síður slæddist inn setning sem gerði það. Tilefni frv. er að breyta þeirri setningu og lögunum til sama horfs og var áður en menn tóku upp vaxtabótakerfið. Ég tel að það sé allnokkurt réttlætismál að þessi réttur til vaxtabóta verði færður til sama horfs og var áður meðan vaxtafrádráttur og húsnæðisbætur voru við lýði einkum og sér í lagi fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum dvelur ekki í sinni íbúð um einhvern tíma. Þekki ég nokkur dæmi þess að fólk stundar atvinnu í öðru byggðarlagi en það á íbúð í, leigir þá sína íbúð og þar á móti leigir aðra í því byggðarlagi sem það dvelur og sækir atvinnu. Lögin eins og þau eru í dag hafa það í för með sér að það fólk missir vaxtabæturnar þann tíma sem þetta ástand varir sem er bersýnilega ósanngjarnt því fólk er eftir sem áður aðeins eigandi að einni íbúð, er að reyna að borga af lánum vegna þeirrar íbúðar og standa í skilum við þau og þannig komast yfir húsnæði þannig að tilgangurinn með því að eiga húsnæði er hinn sami og ætlast er til í lögunum.
    Til þess að taka af öll tvímæli um að þessi réttur sé bara um eina íbúð þá þótti okkur flm. rétt að taka það skýrt fram eins og kom fram í 1. gr. frv. þannig að við teljum að með þeirri breytingu á lagatextanum sé loku skotið fyrir alla möguleika á að misnota vaxtabótakerfið í þessu skyni.
    Ég vil, virðulegur forseti, ekki dvelja lengur við framsögu með þessu máli. Ég hygg að ég hafi rakið öll efnisatriði þess og vænti þess að menn hafi náð merkingu frv. og ástæðum fyrir því að það er flutt og vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.