Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:08:38 (7531)

     Flm. (Árni Johnsen) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heldur birtir yfir hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni eftir því sem líður á umræðuna. Aðeins eitt atriði til ábendingar um raunveruleikann í breytingum á stjórnkerfi innan Kína þó þar sé auðvitað margt óljóst enn og getur brugðið til beggja vona, það er það átak sem á sér stað í fjárfestingum í sameign og samvinnu við erlenda aðila. Það hefði ekki komið til greina í Kína fyrir fáum missirum en siglir nú hraðbyri og til að mynda þær lögfræðiskrifstofur sem ég nefndi fyrr í ræðu minni og hafa verið lykillinn að slíkum hlutum og þáttum, það er allt sem bendir til að þær muni losna upp að hluta og menn geti þar farið á einkaframtaksnótum í ákveðnum þætti í nafni stjórnvalda. En í stuttu máli er kannski ekki gott að fara inn á þessa þróun en þetta eru grunnlínur sem eru svo auðsæjar og skiljanlegar mönnum sem skoða grannt hvaða hlutir eru að gerast í Kína. Það er að vísu svolítið misjafnt eftir landsvæðum í Kína, en þar sem aðalumrótið er og umbyltingin, þar sem þróun er hröðust, það er í Suður-Kína, það er tvímælalaust.