Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:27:52 (7535)

     Flm. (Árni Johnsen) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að hæstv. utanrrh. lagði í engu rök gegn því að það kynni að vera mikilvægt að fara inn á þá braut að opna viðskiptaleiðir við Kína heldur vék hann athygli að því að það kynni að vera tæknilega erfitt fjárhagslega vegna þröngs kosts í fjármálum íslenska ríkisins. Hann nefndi það sem vikið er að í tillögunni um sameiningu eða breytingu á rekstri sendiráða í Skandinavíu og ef íslensku sendiráðin með ótöldum tugum starfsmanna í Skandinavíu, kannski 20--30 starfsmönnum alls. Nú kann það að vera of í lagt en ef íslensku sendiráðin eru fyrst og fremst sýsluskrifstofur fyrir Íslendinga búsetta í Skandinavíu, þá kynnu nú að vera full rök fyrir því að kanna hvort ekki væri hægt að gera þar haganlegri þjónustu en nú er og leggja eitthvað af mörkum á markaðssvæðum sem varða fjórðung mannkyns og kynnu að vera ýmsir framtíðarmöguleikar fyrir Íslendinga þannig að mér finnst ástæða til að skoða þetta á þeim nótum. Það þarf að vera samstaða um forsendur, það verður að vera samstaða um stefnu en það er tvímælalaust mitt sjónarmið að það eigi að færa þessa starfsemi út, það eigi að breyta henni, það eigi að gera hana markvissari varðandi markaðssetningu heldur en almenna opinbera þjónustu. Það kunna að vera ágreiningsatriði í þeim efnum en það hlýtur að vera á sama tíma og Íslendingar þurfa að fá meira verð fyrir hvert kíló á sinni framleiðslu hvar sem er í heiminum, þá eigi að leggja höfuðáherslu á markaðssetninguna og vinna þar farvegi fyrir íslenska framleiðslu og reyna þá að draga saman seglin að sinni í hinni opinberu þjónustu sem hefur verið lengi í föstum farvegi.