Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:43:42 (7539)


     Flm. (Árni Johnsen) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það virðist koma hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni á óvart að byltingarmennirnir skuli koma úr röðum sjálfstæðismanna. Það verður að vera hans mál.
    Tvö efnisatriði úr ræðu hans. Hvort það sé fagnaðarefni að kínverska þjóðin sigli til óheftrar iðnaðarþróunar, það er ekki til umræðu hér að mínu mati. Menn geta hins vegar ekki lokað augunum fyrir því að það á sér stað umbylting og þróun í átt til nútímatækni á vestræna vísu í Kína. Í Kína er fjórðungur mannkyns. Við verðum og eigum að efla okkar markaði. Við getum lært af frændum okkar Dönum, sem sigla hvarvetna í heiminum inn á markaði þar sem möguleiki er, ekki eingöngu til að taka þátt í uppbyggingu og þar með hlutdeild í kostnaði og stofnun fyrirtækja heldur fyrst og fremst til að skapa farveg fyrir sölu á danskri framleiðslu. Þetta hafa þeir gert manna mest erlendra þjóða í Kína á undanförnum missirum. Um það snýst þetta mál að opna þær dyr og reyna að vinna úr því.
    Í öðru lagi vil ég leiðrétta það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði um mína för til Kína fyrir nokkrum vikum. Ég fór ekki þangað sem sendimaður landbrn., né samgrh., né á vegum íslenskra stjórnvalda á neinn hátt. Mér var boðið þangað persónulega af íslenskum aðilum sem eru þátttakendur í rekstri í Suður-Kína og af kínverskum stjórnvöldum sem eru þátttakendur í þeim sama rekstri. En á engan hátt á vegum íslenskra ráðherra eða stjórnvalda.