Tekjuskattur og eignarskattur

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:46:19 (7540)

     Flm. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin varðar 1. mgr. C-liðar 69. gr. laganna en óbreytt hljóðar greinin svo, með leyfi forseta:
    ,,    Maður, sem skattskyldur er skv. 1. gr. og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, á rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum.``
    Fram til þessa hafa tvímæli verið á því hvort handhafar búseturéttar sem eiga eignarhluta í íbúð sinni njóti vaxtabóta til jafns við aðra sem kaupa íbúðir eða eignarhluta í íbúð innan félagslega húsnæðiskerfisins. Hið opinbera hefur tregðast til að viðurkenna nema í örfáum tilvikum að þeir hafi rétt til vaxtabóta þrátt fyrir að engum blöðum sé að fletta um að slíkir einstaklingar greiða öll vaxtagjöld vegna lána sem tekin eru vegna stofnkostnaðar húsnæðisins. Þetta hefur leitt til mikils ósamræmis milli þeirra kjara sem einstaklingar á mismunandi stigum félagslega húsnæðiskerfisins njóta enda er það svo, virðulegi forseti, að greiðslubyrði fjölskyldna í kaupleiguíbúðum innan búsetukerfisins er um 10--15 þús. kr. hærri á mánuði en annarra samsvarandi fjölskyldna innan kaupleigukerfisins þrátt fyrir jafnháar vaxtagreiðslur.
    Ég hef því, virðulegur forseti, lagt til með þessu frv. að umræddri lagagrein verði breytt með þeim hætti að inn í hana verði bætt að ákvæðin um vaxtabætur nái einnig til þeirra sem kaupa eignarhluta í íbúð samkvæmt 92. gr. laga nr. 86/1988. Sú grein fjallar um búseturétt í félagslegum kaupleiguíbúðum þar sem viðkomandi kaupir jafnframt eignarhlut í íbúðinni þegar búseturéttarsamningur er gerður.
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að það er mitt álit og raunar annarra sem eru miklu fremri mér að lögspeki að þrátt fyrir afstöðu hins opinbera, þá sé erfitt að vefengja rétt búseturéttarhafa til vaxtabóta enda er ljóst að þeir uppfylla skilyrði laganna um að bera vaxtagjöld af lánum sem tekin hafa verið vegna

íbúða sem sannarlega eru einungis til þeirra eigin nota. Hér er um mikið sanngirnis- og réttlætismál að ræða og fremur en leita eftir úrskurði dómstóla tel ég miklu eðlilegra að hið háa Alþingi taki af allan vafa í málinu og breyti lögunum þannig að ótvírætt sé að þau nái einnig yfir búseturéttarhafa sem eiga hlut í húsnæði sínu.
    Sú staðreynd að ekki er tekið með ótvíræðum hætti í lögunum á rétti handahafa búseturéttar til vaxtabóta á sér næsta eðlilega skýringu. Lögin um vaxtabæturnar voru settar áður en búseturéttarkerfið, sem eins og menn vita er vinsæll kostur í húsnæðismálum hinna Norðurlandanna, kom til sögunnar sem valkostur í húsnæðiskerfi Íslendinga. Það er miklu fremur skýringin á því hvers vegna ekki er tekið skýrt á rétti þeirra sem kaupa sér búseturétt fremur en að hið opinbera hafi með einhverjum hætti amast við þessu húsnæðisformi. Enda er það svo að einstakir skattstjórar hafa heimilað nokkrum handhöfum búseturéttar að fá vaxtabætur þó nú liggi hins vegar fyrir úrskurðir þar sem vaxtabótum er hafnað og raunar í þeim talin þörf á lagabreytingum til að taka af allan vafa í þessu efni. Það út af fyrir sig, virðulegi forseti, undirstrikar að mínum dómi nauðsyn þess að skýra málið rækilega.
    Ég sagði áðan að það væri sjálfsagt af sjónarhóli réttlætis og sanngirni að búseturéttarhafar nytu vaxtabóta. Þessi staðhæfing byggist fyrst og fremst á tvennu. Í fyrsta lagi er ljóst að ákvæði um vaxtabætur ná yfir þá sem kaupa íbúðir í félagslega íbúðakerfinu hvort sem þær falla undir félagslegar eignaríbúðir, félagslegar kaupleiguíbúðir eða almennar kaupleiguíbúðir. Í þessum formum er að finna fjölskyldur sem eru mjög sambærilegar við þá sem hafa kosið búseturéttarformið en njóta hins vegar ekki bótanna. Þá liggur fyrir að t.d. félmrn. telur búseturéttarformið sambærilegt við húsnæðisform innan kerfisins sem njóta bóta samkvæmt lögunum. Þetta kom fram, virðulegi forseti, í svari félmrn. til Búseta frá 11. október 1988 þar sem ráðuneytið telur að búseturéttur svari fyllilega til þess fyrirkomulags innan almenna kaupleigukerfisins sem, með leyfi forseta, ,,felur í sér leigu eða kaup á eignarhluta í íbúð, sbr. g-lið 4. gr. laga nr. 56/1988.``
    Í öðru lagi er ljóst að handhafar búseturéttar uppfylla þau skilyrði sem lögin setja þeim sem njóta vaxtabóta og komu fram í 69. gr. laganna sem ég vitnaði til hér áðan, þ.e. það er óvefengjanlegt að þeir bera vaxtagjöld af lánum vegna kaupa eða byggingar íbúðarhúsnæðis sem er til þeirra eigin nota. Það leikur enginn vafi á því að þótt búseturétthafar eigi ekki nema 10 eða 30% í íbúðinni sem þeir öðlast ótímabundinn afnotarétt af þá greiða þeir vaxtagjöld af öllum lánum sem húsnæðissamvinnufélagið, í þessu tilviki Búseti, tekur til að standa straum af sínum hluta. Þetta er meira að segja neglt tryggilega niður af löggjafanum sjálfum. Þannig kemur það skýrt fram í lögum nr. 24/1991, um húsnæðissamvinnufélög, að þeir sem fjárfesta í almennum eða félagslegum búseturétti bera sjálfir allan vaxtakostnað af lánum vegna húsnæðiskaupa samvinnufélagsins. Þetta er áréttað í búsetusamningi sem félmrn. gaf út árið 1991 og er notaður við samningsgjörð milli íbúa og samvinnufélagsins. Þann þátt búsetusamnings ráðuneytisins er raunar að finna í fylgiskjali sem merkt er III með frv. En í lið 4.1., c-lið í samningnum sem þar er birtur kemur skýrt fram að í mánaðarlegu búsetugjaldi felist, með leyfi forseta, ,,Fjármagnskostnaður, þ.e. afborganir og vextir af lánum.`` Skýrar getur þetta varla verið. Það er vert að undirstrika að hér er um samning að ræða sem er saminn af félmrn. Með hliðsjón af þessu, virðulegi forseti þá finnst mér ekki stætt á því að synja búseturéttarhöfum vaxtabóta. Það er alveg klárt í mínum huga a.m.k. að handhafar búseturéttar uppfylla skilyrði laganna. Þess vegna finnst mér öldungis óréttmætt að slíkir skattgreiðendur njóti ekki vaxtabóta til jafns við aðra húsnæðiskaupendur. Það er af þessum orsökum sem ég held því fram að það sé í rauninni einföld spurning um jafnrétti og sanngirni að lögunum verði breytt til að þessi réttur verði ljós.
    Svo virðist vera af þeim úrskurðum sem kveðnir hafa verið upp þar sem vaxtabótum til búseturéttarhafa er hafnað að ein helsta forsendan fyrir því að hið opinbera tregðast við að leyfa búsetum að njóta vaxtabóta sé sú skoðun þess að það leiki vafi á því að í búseturéttinum felist beinn eignarréttur og af þeim sökum sé ekki hægt að fella handhafa hans undir vaxtabótakerfið. Lögfróðir menn, virðulegi forseti, eru hins vegar allt annarar skoðunar, að minnsta kosti sumir þeirra. Samningur um búseturétt veitir félagsmanni í húsnæðissamvinnufélaginu ótímabundinn umráðarétt yfir húsnæðinu, þó með þeim takmörkunum að samvinnufélagið hefur forkaupsrétt að búseturéttinum. Það er gert til að tryggja að aðrir en félagsmenn geti ekki notað húsnæðið. Ef félagsmaður vill láta réttinn af hendi, þá hefur samvinnufélagið milligöngu um það að láta öðrum félagsmanni réttinn í té og hinn nýi handhafi greiðir þá hinum fyrri eiganda uppreiknað verð eignarhluta hans í íbúðinni, þ.e. upphaflegt verð framreiknað með byggingarvísitölu. Búseturétturinn gengur í arf, en samvinnufélagið á þó forkaupsrétt ef erfingjar eru aðrir en maki eða börn. Það breytir hins vegar engu um það að hér er um hrein eignarréttindi að ræða. Engum dytti í hug að halda því fram, virðulegi forseti, að íbúð sem A seldi B með forkaupsréttarákvæði væri ekki fortakslaus eign B þrátt fyrir forkaupsréttarákvæðið.
    Það er fróðlegt í þessu samhengi að skoða viðhorf virts lögmanns, Ragnars Aðalsteinssonar, sem raunar er formaður Lögmannafélags Íslands, til þessa atriðis. Skilgreining hans á því hvað felst í búseturétti fylgir með frv. sem fskj. I. Hann kveður þar vera um rétt að ræða, með leyfi forseta: ,,sem félagi í húsnæðissamvinnufélagi getur keypt með því að greiða tiltekið hlutfall af verðmæti íbúðar og eignast þar með umráðarétt yfir íbúðinni, sem takmarkast þó við afnot af íbúðinni sem íbúðarhúsnæði fyrir hann og fjölskyldu hans. Í búseturéttinum felst beinn eignarréttur sem gengur að erfðum og vilji eigandinn selja réttinn er rétturinn háður forkaupsrétti innan húsnæðissamvinnufélags.  . . .  Af öllu framangreindu er augljóst að

eigi er unnt að leiða að því rök að búseturétturinn sé annað en beinn eignarréttur, enda hefur hann öll einkenni hans þótt með nokkrum takmörkunum sé.``
    Því er svo við að bæta, virðulegi forseti, að fjmrn. hefur í bréfi til Búseta sem dags. er 3. mars 1989 fallist á að kaup á eignarhlut í íbúð innan búsetukerfisins veitir sambærilegan rétt og önnur eignarform til skattafsláttar vegna húsnæðissparnaðarreikninga. Þetta kemur fram í fskj. IV með frv. Ég hlýt að telja rökrétt, virðulegi forseti, að árétta sem svo að hið sama hljóti að eiga að gilda líka um vaxtabætur.
    Virðulegi forseti. Ég hef í þessari framsögu reynt að leiða fram rök sem sýna eftirfarandi:
    1. Handhafar búseturéttar greiði vaxtagjöld af þeim lánum sem tekin eru til að koma upp húsnæði til afnota þeirra eigna. Þar með er uppfyllt eitt mikilvægasta skilyrði gildandi laga fyrir vaxtabótum.
    2. Í búseturétti felist beinn eignarréttur þó hann sé nokkrum takmörkunum háður.
    Með hliðsjón af þessu finnst mér það sanngirni og réttlátt að lögunum sé breytt til að taka af allan vafa um að handhafa búseturéttar njóti vaxtabóta til jafns við aðra sambærilga aðila í húshæðiskerfinu.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði að umræðunni lokinni vísað til hv. efh.- og viðskn.