Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 13:48:28 (7553)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Við þær aðstæður að sjávarútvegur á Íslandi er að birta tölur um hrikalegt tap á síðasta ári upp á milljarða kr. og við þær aðstæður að spáð er á þessu ári verði tap í sjávarútvegi um 5 milljarðar kr., þá gerir ríkisstjórnin ekki neitt. Hún kemur sér ekki einu sinni saman um að fullnægja lagaskyldu um að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða, hvað þá að taka á afkomu sjávarútvegsins. Við alþýðubandalagsmenn höfum beitt okkur fyrir því að fram fari umræða um þessi mál hér á Alþingi til að reyna að knýja ríkisstjórnina til þess að ræða um sjávarútvegsmál, afkomu byggðarlaganna úti á landi og stjórn fiskveiða og víkja frá því að hugsa um einkavini ráðherranna og útvega þeim sporslur og góðar stöður. Það er það sem skiptir máli í þjóðfélaginu í dag að fá ríkisstjórnina til þess að snúa sér að þeim vanda sem steðjar að íslenskum þjóðarbúskap.
    Hvað varðar stjórn fiskveiða, þá er rétt að taka það skýrt fram að það er ekki rétt eins og ævinlega hefur verið sett fram af hálfu þeirra sem styðja núverandi kvótakerfi að kvótakerfið annars vegar og sóknartakmarkanir hins vegar séu andstæðir valkostir, að menn verði að velja milli þess að annaðhvort stjórna fiskveiðum með sóknartakmörkunum eða með kvótakerfi. Það er rangt. Kvótakerfið er ekki andstæða sóknartakmarkana. Kvótakerfið byggist í raun á sóknartakmörkunum. Stjórn fiskveiða er í dag að mestu leyti eins og henni er stýrt, stýrt með sóknartakmörkununum. Kvótakerfið sem slíkt er óþarfi nema til þess eins, ef menn vilja, að setja hámark á þann afla sem hver bátur eða bátaflokkur má veiða. Að öðru leyti er kvótakerfið óþarft hvað varðar stjórn fiskveiða.
    Ég vil minna á það að í núgildandi lögum og reglugerð um stjórn fiskveiða er meginþunginn sem stýrir sókninni fólginn í bönnum og takmörkunum á notkun tiltekinna veiðarfæra, búnaðar eða skipagerða. Ákvæði sem takmarka veiðar eru einnig í þessum lögum og reglugerðum tiltekinna veiðarfæra á vissum fisktegundum e.t.v. tíma- eða svæðabundið. Enn fremur er veiði skömmtuð eða úthaldstími einstakra skipa takmarkaður. Allt eru þetta sóknartakmarkanir. Það er rétt að menn leggi til hliðar hina gömlu þrætu um kvótakerfi sem andstæðu sóknartakmarkana. Það er nauðsynlegt að þjóðin átti sig á því að við erum að mestu leyti með stjórn fiskveiða í sóknartakmörkununum.
    Maður hlýtur þá að spyrja: Í hvaða tilgangi eru menn með þetta kvótakerfi sem byggist á því að menn megi versla með réttindi til að fara á sjó, búa til skömmtunarkerfi réttindanna? Hver er tilgangurinn með því? Hann er ekki að takmarka sjósókn eða getu einstakra báta til að fara á sjó. Hann er einhver annar. Og hafi menn ekki áttað sig á því nú þegar, þá ætti mönnum að verða það ljóst fljótlega að tilgangurinn er að breyta byggðinni í landinu. Tilgangurinn er að safna veiðiheimildunum á færri hendur, að flytja þær frá fámennari stöðum til hinna fjölmennari. Og það segir hæstv. sjútvrh. í blaðaviðtali að sé vænlegasti kosturinn. Að flytja réttindin frá sjávarútvegsplássum sem eru fámenn til annarra plássa sem eru fjölmenn. Þetta er eðli kvótakerfisins, það sem er lagt fram undir nafninu hagræðing.

    Eitt eru núverandi ríkisstjórnarflokkar sammála um og það er að þessi grundvöllur eigi að vera í framtíðinn hvað varðar stjórnun fiskveiða. Grundvöllur hagræðingarinnar þar sem menn byggja á þeirri trú að sveitarfélögin séu of mörg og fámenn og það verði að reka féð saman í réttina. Menn átta sig á þessu þegar þeir lesa drög að nýrri skýrslu um breyttar áherslur í byggðamálum sem unnin hefur verið á vegum forsrn. í Byggðastofnun. Menn átta sig á þessu líka þegar þeir lesa skýrslur sameiningarnefndar sveitarfélaga. Allt eru þetta liðir og aðgerðir að þessu ákveðna markmiði, að breyta byggðamynstrinu í landinu. Þetta hefur haft í för með sér að þegar verið er að sækja að grundvallarréttindum fólks, tilverurétti þess, þá snúast menn til varnar. Að kaupstaðirnir á landsbyggðinni hafa lagt fram milljarða króna til að halda þessum veiðiréttindum. Það hefur verið tekið saman á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga að á síðustu fimm árum hafa kaupstaðirnir lagt fram þrjá milljarða, þar af tvo milljarða í sjávarútveginn til þess að halda sinni stöðu og halda uppi atvinnu í sínum byggðarlögum.
    Nú er að hefjast annar þáttur og nýr þáttur í þróun þessa kvótakerfis. Við getum kallað hann ,,Kaupstaðirnir keppa``, þar sem stóru og fjölmennu kaupstaðirnir bjóða í veiðiheimildir fámennu kaupstaðanna og þeir munu auðvitað hafa betur því að þeir hafa aflið, þeir hafa fjármagnið. Það sem hæstv. forsrh. átti við á fundi á Ísafirði fyrir síðustu alþingiskosningar þegar hann sagði að hann vildi ekki sjá landið sporðreisast og að byggð stæði með byggð var það að byggðin sem hann ætlar að standa með er byggðin á höfuðborgarssvæðinu, Reykjavík standi með Hafnarfirði í að kaupa veiðiheimildir vestan af fjörðum. Það er stefnan í dag. Það er næsti þáttur í þessu kvótakerfi sem lagt hefur verið til á vegum nefndar af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að endanlega verði tryggt í sessi.
    Hæstv. forsrh. hefur ekki látið svo lítið að skipta sér af vandamálum vestur á fjörðum. Menn vita hvernig staðan er á Bíldudal þar sem búið er að selja togarann og búið er að selja bátinn og menn vita um stöðuna vestur í Bolungarvík og hæstv. forsrh. sendi þrjá menn vestur svona okkur til þægðar til að spjalla við okkur og gefa okkur hugmyndir um það hvað við ættum að gera. Og hvaða tillögur komu fram frá þessum aðilum? Það voru bjargráðanefndin, það eru tillögurnar frá einkavini forsrh. Þær voru þessar:
    1. Seljið kvótann.
    2. Hættið þið við hafnargerðirnar.
    3. Sameinið sveitarfélögin.
    Þetta eru ráð hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar gagnvart landsbyggðinni sem stendur í þeirri stöðu að tap í sjávarútvegi er orðið svo mikið að fyrirtækin ráða ekki við það sjálf. Það er tímanna tákn að þegar menn eru að gera upp síðasta ár hafa 12 af stórum frystihúsum landsins og sjávarútvegsfyrirtækjum tapað 1,5 milljörðum kr., en þá er Seðlabanki Íslands gerður upp með þriggja milljarða kr. hagnaði, tvöfalt meiri hagnaði en nemur samanlögðu tapi þessara 12 stóru frystihúsa og sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni.