Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 14:21:59 (7556)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Málefni sjávarútvegsins eru hér til umræðu og ekki að ástæðulausu því nú er illa komið fyrir okkar mikilvægasta útflutningsvegi. Lífskjör þjóðarinnar byggjast að mestu leyti á góðu gengi greinarinnar því er þetta málefni þannig vaxið að það kemur öllum við. Ekki aðeins þröngum hagsmunahópum svokölluðum heldur snertir þegar upp er staðið alla Íslendinga með beinum eða óbeinum hætti. Margfeldisáhrif greinarinnar eru svo gífurlega stór þáttur í öllum viðskiptum og verslun í landinu, erfiðleika í bankakerfinu og samdrátt í framkvæmdum má oftar en ekki rekja til erfiðleika í stöðu sjávarútvegs.
    Vandi sjávarútvegsins er fyrst og fremst af þrennum toga spunninn:
    Í fyrsta lagi hefði þurft að draga verulega úr veiðum.
    Í öðru lagi höfum við staðið frammi fyrir verðlækkunum á afurðaverði erlendis á flestum mörkuðum.
    Í þriðja lagi er hér við völd ríkisstjórn sem er úrræðalaus og skortir samstöðu til átaka. Loforð eru svikin frá degi til dags með ákveðnum dagsetningum, samanber loforð hæstv. forsrh. að bæta þeim þorskbrestinn sem verst hafa orðið úti. Síðast lofaði hæstv. forsrh. að afgreiða það mál um leið og kjarasamningar yrðu afgreiddir. En eins og alþjóð veit var það ekki síst að kenna veikburða ríkisstjórn að kjarasamningar tókust ekki. En þrátt fyrir að samningar hafa ekki tekist getur vart verið að hæstv. ríkisstjórn telji sig lausa allra mála og þurfi ekki að efna loforð frá því í ágúst. Ég trúi ekki að hæstv. sjútvrh. ætli að standa aðgerðalaus gagnvart þessu máli lengur. Og ég verð að segja að mér þykir langlundargeð hans ótrúlegt. Langludnargeð þjóðarinnar er ekki með þessum hætti. Ríkisstjórnin hefur margsinnis lofað lækkandi raunvöxtum. Fátt kæmi skuldsettri atvinnugrein betur. M.a. var það ein af ástæðum þess að kjarasamningar náðust ekki að hæstv. ríkisstjórn ræður ekki við að efna loforð sín um lækkun raunvaxta. Krafist er að fyrirtæki hagræði og sameinist, sem þýðir færri fyrirtæki og færra fólk til starfa. Þegar slíkt hefur átt sér stað er svo býsnast yfir að meiri völd færist yfir á færri hendur en það er að sjálfsögðu afleiðing hagræðingarinnar.
    Um stöðu atvinnugreinarinnar almennt þurfum við ekki að hafa mörg orð. Ársreikningar fyrirtækja segja allt sem segja þarf. Útkoman er ömurleg. Það er hættuástand í þjóðfélaginu. Samt segir hæstv. ríkisstjórn og sér í lagi hæstv. forsrh. að það þurfi ekkert að gera. Við höfum þegar gert nóg, segir hæstv. forsrh. Það má segja að það hafi verið lagðar nógar álögur á atvinnugreinina, einn milljarður á sl. ári og Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins var eyðilagður. Tvíhöfða nefnd hefur lagt land undir fót og kynnt tillögur sínar. Það er auðvitað virðingarvert þó það eðlilegra hefði verið að vinna þessar tillögur í samvinnu við þá sem vinna í greininni og eiga að fjalla um málið, þá á ég við sjútvn. Alþingis. En til þess hefur ríkisstjórnin ekki treyst sér vegna þess að mikið ósætti er innan ríkisstjórnarinnar um þessi málefni sem lýsti sér best í gærkvöldi þegar þingflokksfundi ríkisstjórnarflokkanna lauk en þá upplýstist að hver höndin var upp á móti annarri. Enda segir hæstv. sjútvrh. að eina leið ríkisstjórnarinnar sé að búa við algjörlega óbreytt

kerfi. Og eftir að sitja á fundi sjútvn. í morgun þá skil ég hvað hæstv. ráðherra á við vegna þess að það er engin samstaða innan ríkisstjórnarinnar.
    Stefna tvíhöfða nefndar boðar að sjálfsögðu fyrst og fremst að aflamarkskerfið verði fest í sessi. Það er lagt til að afnema tvöföldun á línu sem þýðir ef samþykkt yrði geysilegt atvinnuleysi í hefðbundnum vertíðarplássum. En línuveiðar eru afar atvinnuskapandi auk þess sem þær eru vistvænn veiðiskapur. Við teljum útlokað að afnema tvöföldunina hér og nú á einu bretti. Annað atriði sem ég vil minnast á er í sambandi við krókaleyfisbáta. Sú stefna var mótuð á síðasta flokksþingi Framsfl. að minnstu bátarnir veiði áfram samkvæmt endurbættu banndagakerfi með heildarhámarki. En það sem nauðsynlegt er að taka tillit til er að þeir sem hafa sína atvinnu af krókaveiðum fái að njóta þess umfram þá sem stunda frístundaveiðar. Það er ýmislegt sem Framsfl. hefur við tillögu tvíhöfða nefndar að athuga en við erum þeirra skoðunar að aflamarkskerfið með endurbótum verði fest í sessi.
    Í byrjun þessa mánaðar báðu framsóknarmenn um utandagskrárumræðu um sjávarútvegsmál. Nú hafa alþýðubandalagsmenn kvatt sér hljóðs að kynna þáltill. þess efnis að sjútvn. endurskoði sjávarútvegsstefnuna. Með þáltill. fylgir greinargerð og í greinargerðinni eru drög að nýrri sjávarútvegsstefnu sem boðar sóknarstýringu og aflagjald. Þar er boðað að fyrir fullnýttar tegundri svo sem þorsk verði greitt hærra aflagjald en minna nýttar tegundir. Sóknarstýring þýðir að fiskvinnslufólk mundi aftur þurfa að búa við óstöðuga vinnu, að afli bærist ekki jafnt að landi, heldur í toppum þegar sókn er leyfð. Sóknarstýring þýðir að öflugustu og bestu skipin mundu fleyta rjómann af veiðunum og það mundi að sjálfsögðu kalla á geysilega fjárfestingu í nýjum skipum. Á ný mundi hefjast kapp um veiðarnar sem þó verða jafntakmarkaðar eftir sem áður. Markaðurinn sem við búum við er byggður upp með miklum tilkostnaði og mundi riðlast verulega. Í umræðum um sjávarútvegsmál er allt of lítið talað um mikilvægi markaðsmála. Það er eins og það sé minnsta mál að selja afurðir okkar á hámarksverði hvenær og hvar sem er en svo er ekki.
    Ef aftur yrði tekið upp sóknarmark þannig að sókn lægi niðri vikum saman yrði ekki lengur samið eins og gert er í dag um sölu ákveðinna fisktegunda frá mánuði til mánaðar og sú stóriðja sem fiskvinnslan er yrði háð allt öðrum lögmálum sem er ekki vinnsluaðferð framtíðar heldur fortíðar. Enda hafa alþýðubandalagsmenn ekki treyst sér til að leggja þetta frv. fram öðruvísi en sem fylgiskjal við þáltill.
    Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi að hagsmunir Íslendinga allra væru undir því komnir að vel væri á málum haldið. Þau orð vil ég endurtaka. Og í þeirri umræðu verður að ganga út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar og taka mið af öllum þáttum sem tengjast sjávarútvegi. Og satt að segja, þrátt fyrir mikla og ítarlega umræðu, hefur ekki verið bent á betri lausn en bætt aflamarkskerfi, alla vega ekki enn þá.