Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 15:08:45 (7560)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Það er ekki góður dagur í dag fyrir hæstv. sjútvrh. að flytja þá ræðu sem hann flutti hér áðan. Og þetta er ekki heppilegur sólarhringur fyrir hæstv. sjútvrh. að fara út í þá sálma sem hann gerði. Þessi sami sólarhringur og öll þjóðin hefur horft upp á vandræðagang ríkisstjórnarinnar svo að segja í beinni útsendingu. Sjútvrh. fór hér mikinn í upphafi ræðu sinnar hér áðan og taldi m.a. þennan tillöguflutning okkar alþýðubandalagsmanna marka einhverja uppgjöf af okkar hálfu varðandi það að ræða sjávarútvegsmál eða móta stefnu um sjávarútvegsmál. Hann fann hugmyndum okkar flest til foráttu og eyddi mestöllum þrótti sínum í það. En talar ekki hæstv. sjútvrh. úr glerhúsi? Er kvótakerfi þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Kristjáns Ragnarssonar fullkomið? Er það gallalaust? Er rétt að ræða aðrar hugmyndir út frá þeirri forsendu að við höfum alfullkomið stjórntæki í höndunum? Þessi sami sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, sem hefur ekki í embætti sínu haft annan metnað en þann að vera einhvers konar veikróma bergmál fyrrv. sjútvrh. og Kristjáns Ragnarssonar. Er hann ekki að tala úr glerhúsi?
    Þorsteinn Pálsson sjútvrh. sem er búinn að samþykkja auðlindaskatt Alþfl., Þorsteinn Pálsson sjútvrh. sem vildi gefast upp og gafst upp í samningaviðræðum við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál, Þorsteinn Pálsson sjútvrh. sem hefur setið eins og hver annar heypoki í ríkisstjórn í hart nær tvö ár á sama tíma og sjávarútvegurinn tapar milljörðum á milljarða ofan og býr við verstu afkomu um áratuga skeið, missiri eftir missiri. Er ekki þessi Þorsteinn Pálsson að kasta steinum úr glerhúsi þegar hann fjallar um málflutning annarra eins og hann gerði hér áðan? Þessi Þorsteinn Pálsson sjútvrh., sem mér bíður í grun að fái síst merkilegri eftirmæli sem sjútvrh. en hann hefur fengið sem forsrh., ætti að fara varlega í grjótkast af þessu tagi.
    Ég hef ekki tíma til þess hér, hæstv. forseti, að svara ýmsum rangfærslum sjútvrh. og fleiri ræðumanna um hugmyndir okkar alþýðubandalagsmanna eða þær hugmyndir um sóknarstýringu sem fylgja okkar tillögu. Eitt hlýt ég þó að leiðrétta og það er þá rangfærslu að aflagjald, tiltekið gjald á landaðan afla sem stjórntæki innan greinarinnar sé skattur, sé auðlindagjald. Það er auðvitað fjarri öllu lagi, það hlýtur Þorsteinn Pálsson sem einu sinni var fjmrh. að skilja. Alþb. er tilbúið til að ganga til viðræðna um mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu með opnum huga. Við teljum það þvert á móti mestu þröngsýnina af öllu í þessum efnum að rígbinda sig í núverandi kvótakerfi, loka augunum fyrir göllum þess og neita að ræða nokkuð annað. Það er þröngsýni, það er lélegur málflutningur, ekki hitt að lýsa eftir og bjóða fram þátttöku í að móta samstöðu um nýja stefnu. Sjútvrh. er auðvitað algjörlega í hnút með málin eins og öll þjóðin hefur horft upp á. Enda biðlar hæstv. sjútvrh. núna fyrst og fremst til Framsfl. Setur allt sitt traust á

Framsfl. að hann geti skáskotið málunum hér í gegn með hjálp framsóknarmanna vegna þess að það liggur engin samstaða fyrir í stjórnarflokkunum og hæstv. sjútvrh. kemur málunum ekki fram. Það er svo hins vegar mál þeirra framsóknarmanna hvort þeir vilja draga ríkisstjórnina að landi við þessar aðstæður.
    Þá var nú ekki ónýtt framlag Össurar Skarphéðinssonar hér áðan. Það var beinlínis dýrmætt að þessi sami Össur sem sjútvrh. upplýsti í fréttum kl. 12 á miðnætti sl. að væri aðalþröskuldurinn í vegi fyrir samkomulagi stjórnarflokkanna, hann kom hér upp og óskapaðist yfir því að aðrir flokkar hefðu ekki náð saman um sjávarútvegsstefnu. Auðvitað var það bara grín hjá sjútvrh. að nefna Össur í fréttunum því hann veit vel að Össur mun éta þetta ofan í sig eins og allt annað. Eins og skólagjöldin, eins og lánasjóðinn, eins og Hrafn Gunnlaugsson og yfirleitt flest það sem hann hefur rokið upp með hér í ræðustól og étið ofan í sig jafnharðan. Þannig að eini brandari sólarhringsins sem virkilega var gaman að var þegar Þorsteinn Pálsson sjútvrh. taldi það torvelda framgang málsins að Össur Skarphéðinsson hefði við það athugasemdir. Annað eins hefur maður nú ekki heyrt lengi.
    Hæstv. forseti. Afkoma í íslenskum sjávarútvegi er satt best að segja herfileg og hefur verið það í eitt til eitt og hálft ár. Taprekstur í greininni nemur 5--7 milljörðum kr. á ársgrundvelli og fyrirtækin eru að skila uppgjöri fyrir árið 1992 með tapi sem mælist í hundruðum milljóna kr. hvert um annað þvert. Þrátt fyrir að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var tæmdur á einu bretti á árinu 1992, 2,4 milljarðar kr. runnu úr honum til fyrirtækja í sjávarútvegi og samt mælist tapið í hundruðum milljóna kr. Hvað er ríkisstjórnin að gera við þær aðstæður? Hvað er hún að gera? Ekki neitt. Kemur sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut. Hæstv. sjútvrh. er búinn að svíkja loforðið sitt í níu mánuði um stuðning við útgerðir vegna samdráttar í fiskveiðiheimildum. Í níu mánuði hefur sjávarútvegurinn verið dreginn á asnaeyrunum gagnvart hreinu og kláru loforði af því tagi. Vinnubrögð við endurskoðun fiskveiðistefnunnar eru ein hörmung frá upphafi til enda eins og niðurstaðan sýnir. Hún gat ekki orðið önnur en þessi að um hana yrði engin sátt eins og ríkisstjórnin hefur að því staðið. Þaðan af síður er hér verið að leggja grunn að einhverri varanlegri stefnumörkun þegar hún er lokuð inni í röðum stjórnarsinna og ekki gerð minnsta tilraun til þess að ná um hana samstöðu við aðra stjórnmálaflokka í landinu, við sjómannasamtökin, við fiskverkafólk, sveitarfélög eða aðra slíka aðila. Þessi einkaafurð, þessi einkavædda afurð stjórnarflokkanna mun ekki verða til sem marktækt plagg í umræðum um sjávarútvegsmál á Íslandi degi lengur en þessi ríkisstjórn lafir og það verður vonandi ekki lengi úr þessu.
    Ástandið í kerfinu er auðvitað þannig að það er nánast óþolandi. Sjómenn eru að gera uppreisn gegn þessu kerfi og gegn þessu ástandi. Þeir eru píndir til kvótakaupa, jafnvel aftur og aftur, en fá ekki krónu af þeim sama kvóta ef hann er svo seldur frá útgerðinni. Grindavík og Hafnarfjörður eru að skipta Bolungarvík á milli sín þessa dagana. Það er framtíðin að stærri og sterkari byggðarlögin og sveitarfélögin skipti þeim litlu á milli sín, bjóði í þau. Og hvað er verið að gera í vanda Bolungarvíkur? Málið er í nefnd. Hæstv. forsrh. skipaði nefnd fyrir nokkrum mánuðum síðan og hefur síðan lítið mátt vera að huga að þeim málum vegna annríkis í Hrafnsmálinu eins og kunnugt er og Bolungarvík er í nefnd og verður sjálfsagt í nefnd svo lengi sem þessi ríkisstjórn situr. Þannig er að þessum málum staðið. Ríkisstjórninni hefur gjörsamlega mistekist það verk að ná hér einhverri lágmarkssamstöðu um grundvöll fyrir sjávarútveginn og um stenfumörkun til framtíðar í þessum mikilvæga málaflokki, gersamlega. Og ef það er eitthvað sem þarf á Íslandi, þá er það þó sæmileg sátt og starfsfriður fyrir þessa undirstöðuatvinnugrein. Það hefur engri ríkisstjórn nema ef vera skyldi stjórn Þorsteins Pálssonar, sem starfaði í 14 mánuði 1987--1988, tekist jafnóhönduglega í þessum efnum. Það er alveg óhætt að fullyrða það, því miður. Og svona getur það auðvitað ekki gengið lengur. Fyrirtækin munu stöðvast hér á næstu mánuðum hvert á fætur öðru. Þau þola ekki tap sem mælist í hundruðum millj. kr. mörg ár í röð, jafnvel ekki þau sterkustu bera það til langframa, slík starfsskilyrði. Þetta getur ekki gengið öllu lengur við þessar aðstæður og það er alveg ljóst að ef svo heldur sem horfir að ríkisstjórnin nái hér engri niðurstöðu af neinu tagi, hvorki gagnvart stefnumörkun um fiskveiðar né afkomu sjávarútvegsins, þá verður hún að fara því að ef það er eitthvað sem við getum ekki þolað og búið við á Íslandi, þá er það ríkisstjórn sem er óstarfhæf í málefnum sjávarútvegsins. Við sátum uppi með eina slíka ríkisstjórn sumarið 1988. Það varð öllum ljóst og að lokum stjórninni sjálfri að hún var óstarfhæf, hún gat ekki tekið á þeim vandamálum sem uppi voru. Sama aðstaða er komin upp nú og það er eingöngu tímaspursmál hvenær menn sjá það og vonandi þá einnig ríkisstjórnin að hún ræður ekki við verkefni sitt og hún verður að fara frá því að við Íslendingar getum ekki búið við það að stjórnleysi og upplausn ríki í málefnum okkar undirstöðuatvinnuvegs.