Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 15:28:06 (7562)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég dreg það ekki í efa að eflaust hefur sú tillaga til þál. sem við ræðum nú og þingflokkur Alþb. stendur að, einhvern tíma átt eitthvert erindi inn í hina pólitísku umræðu í landinu. En það er því miður ekki lengur svo. Þessi tillaga hefur gersamlega dagað uppi og orðið að eins konar pólitísku steintrölli. Í raun og veru gefur hún ekki lengur neitt tilefni til sjálfstæðrar umræðu ein og sér. Kjarni tillögunnar er sá að sjútvn. Alþingis verði falið það verkefni að móta sjávarútvegsstefnu. Nú blasir það hins vegar við að nefnd stjórnarflokkanna hefur lagt fram afrakstur verka sinna sem er að sjálfsögðu fullgildur umræðugrundvöllur um mótun sjávarútvegsstefnu þó svo að menn greini að sjálfsögðu á um efnislegt innihald hennar þannig að tilgangsleysi þessarar þáltill. er orðið algert og öllum ljóst. Það er því ekki þessi tillaga ein og sér sem við ræðum nú. Þvert á móti. En þessi umræða getur orðið okkur tilefni til nokkurrar umfjöllunar um sjávarútvegsmálin almennt og þar á meðal um þann dæmalausa vandræðagang sem berlega hefur komið í ljós í hvert sinn sem Alþb. hefur sest niður til þess að reyna að móta sér sína eigin sjávarútvegsstefnu.
    Þessi þáltill. sem hér er tilefni umræðunnar er síðasti áfanginn á makalausri eyðimerkurgöngu Alþb. í sjávarútvegsmálum. Tillagan er hin formlega og endanlega staðfesting þess að flokkurinn hefur sjálfur gefist upp á því að finna sína eigin stefnu en reynir að dreifa athyglinni frá eigin vandræðagangi með því að leggja til að sjávarútvegsstefnan sé mótuð í sjútvn. Alþingis. Það sem mesta athygli vekur auðvitað er sú staðreynd að sjálfur hefur flokkurinn ekkert haft fram að færa sem kalla má stefnu flokksins eða áhersluatriði um mótun sjávarútvegsstefnunnar. Þar geta menn leitað með logandi ljósi en ekkert fundið. Allt sem fram hefur komið úr þeim herbúðum hefur verið mótsagnakennt og þar hefur hvað rekið sig á annars horn.
    Í fskj. þessarar þáltill. fylgja hugrenningar 1. flm., hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, um framtíðarstjórnun fiskveiða í búningi frv. Það er afar sérkennileg framsetning. Hver er staða þessa fskj.? Hvað býr hér að baki? Hverjir eru fylgismenn þessara hugmynda hv. þm.? Hverjir eru meðflm. á frv.? Það verður ekki ráðið af þessu plaggi, öðru nær. Í greinargerðinni er vikið að þessu fskj., þessu viðhengi sem hnýtt hefur verið aftan í þáltill. með þeim orðum að tilgangurinn með því að prenta þessi þankabrot hv. þm. á þskj. sé sá að umræða geti hafist um nýjar hugmyndir. Já, þvílíkt og annað eins. Menn hafa nú hingað til vanist því að þegar hv. þm. klæða hugmyndir sínar og hugsjónir í búning frv., þá sé það gert til þess að slíkt frv. verði að lögum en þingflokkur Alþb. afgreiðir þessa frumvarpshugsun hv. 1. flm. þáltill. og talsmanns Alþb. í sjávarútvegsmálum með þeim hætti að hún geti kannski stuðlað að því að umræður geti hafist eins og menn hafi ekki tekið eftir því að úti um allt land fara fram núna kröftugar umræður um sjávarútvegsmálin. Já, þetta er óneitanlega allt saman heldur sérkennilega rismikð eða hitt þó heldur en kannski gert í virðingarskyni við fulltrúa í sjávarútvegsmálaráði Alþb. sem kallaðir voru til samráðs um mótun og gerð frv.
    Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að núgildandi lög um fiskveiðistjórnun sem Framsfl., Alþb. og Alþfl. bera pólitíska ábyrgð á, muni að öllu óbreyttu hafa það í för með sér á næsta ári að svokallaðir krókaleyfisbátar munu fara yfir á kvótann. Ekki þarf að orðlengja um þá gríðarlegu óánægju sem ríkt hefur um allt land vegna þessa. Að undanförnu hefur verið unnið að því kappsamlega að finna leið er gæti tryggt að 1.100 smábátar um land allt sem hafa átt ómetanlegan þátt í því að tryggja vinnu víða um land, losni undan þessari kvöð sem var á þá sett með lögunum frá árinu 1990, sem fyrrnefndir flokkar stóðu að og samþykktu og bera pólitíska ábyrgð á. Það er því nauðsynlegt að breyta gildandi lögum um fiskveiðistjórnun og því vænti ég þess að tryggt verði að krókaleyfi verði áfram við lýði þó að öllum sé það ljóst nú að á því verði gerðar einhverjar breytingar frá því sem nú er.
    Sömu sögu er að segja um línutvöföldunina. Það kerfi hefur reynst vel. Það hefur tryggt vinnu yfir háskammdegið þegar erfiðast hefur verið að sækja. Þess vegna þarf að búa svo um hnútana að það fyrirkomulag ríki áfram og verði hér eftir sem hingað til undirstaða atvinnusköpunar víða og í ýmsum hlutum landsins.
    Það eru orð að sönnu að fátt sé okkur nauðsynlegra nú en einmitt það að stefnan í sjávarútvegsmálum sé skýr og fyrirtækjunum sem í greininni starfa hagfelld. Stórminnkaður afli allt frá árinu 1987 og skelfileg lækkun afurða okkar hefur valdið miklum hremmingum í íslenskum sjávarútvegi. Í því sambandi vil ég nefna að í fyrra hafði sjávarútvegur á Vestfjörðum þremur milljörðum kr. minni tekjur en á árinu 1988 vegna áhrifa frá minni aflaheimildum. Þá eru ótalin áhrifin frá þeirri aflaminnkun sem enn hefur orðið á þessu ári svo að ekki sé nú talað um lækkun afurðaverðsins. Við þessu þarf að sjálfsögðu að bregðast með almennum hætti sem tryggir rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Það ástand getum við einfaldlega

ekki liðið lengur er gerir það að verkum að stór og öflug sveitarfélög og fyrirtæki þeirra nýti sér stöðu sína til þess að yfirbjóða skip og aflaheimildir þeirra er lakast standa. Það getur aldrei orðið ásættanlegt að sveitarsjóðir og fyrirtæki þeirra verði ráðandi um þróun íslensks sjávarútvegs. Það hefur aldrei staðið til og má aldrei verða. Slíkt væri enda skrumskæling á allri atvinnustefnu og andstætt þeim viðhorfum sem nú eru uppi í núv. ríkisstjórn um mótun atvinnulífsins í landinu.
    Við skulum ekki á hinn bóginn ímynda okkur það að það sé auðvelt að feta sig út úr þeim erfiðleikum sem sjávarútvegurinn hefur ratað í. Vandinn sem við er að glíma er gamall og hann er uppsafnaður. Árum saman bjó sjávarútvegurinn við rangt skráð gengi og slæman rekstrargrundvöll. Það eru ekki síst þau gömlu vandamál sem nú eru að hitta okkur fyrir þegar ytri aðstæður fara versnandi og tekjurnar lækkandi. En það breytir engu um það að undan því verkefni að tryggja að nýju stöðu sjávarútvegsins verður ekki vikist. Við þessar aðstæður þarf nauðsynlega að skapa greininni nýtt svigrúm, ekki með aukinni skattheimtu í alls konar formi sem sumum er svo tamt að tala um og krefjast og m.a. birtist mjög glögglega í frumvarpsfylgiskjali Alþb. sem hér hefur verið gert að umræðuefni, heldur með því gagnstæða að létta skuldabyrði greinarinnar nú þegar tekjurnar eru í lágmarki. Þannig mundum við líka um leið blása nýjum lífsanda í allt atvinnulífð í landinu sem á allt undir því að sjávarútvegurinn geti starfað af þrótti og orku. Með þeim hætti einum getum við dregið úr þeim miklu erfiðleikum sem undirstöðuatvinnugrein okkar er nú stödd í og um leið eflt atvinnustarfsemi og dregið úr atvinnuleysinu í landinu.