Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 15:48:04 (7564)

     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Umræður um stjórn fiskveiða er mál sem skipta þjóðina miklu máli. Þessa dagana eru þessi mál hvarvetna rædd, ekki aðeins í bátunum og á bryggjunum heldur víðast hvar á öðrum vinnustöðum og heimilum. Í því árferði sem við búum við hafa fleiri og fleiri gert sér grein fyrir því að afkoma íslensku þjóðarinnar byggist á fiskveiðum og fiskvinnslu. Mestallt annað er yfirbygging eða tilkomið vegna þeirrar auðlindar sem býr í hafinu umhverfis landið. Það væri rangt að segja að mikil eining ríki um stjórnun fiskveiða. Afstaða manna greinist eftir byggðarlögum, landshlutum og einnig eftir því hvar menn eru í skiprúmi. Það er afar ólíklegt að togaramaður og trillukarl hafi sömu skoðanir á skiptingu auðlindarinnar og svo má lengi telja.
    Það er vissulega ill nauðsyn að takmarka aðgang að auðlindinni. Við gerum það vegna þess að löngu er ljóst að ofveiði verður til þess að útrýma fiskinum, eyðileggja framtíð þjóðarinnar.
    Mér er það minnisstætt að í sumar var ég á fundi með þingmanni frá Nýfundnalandi. Það var einmitt daginn sem það var tilkynnt að ríkisstjórn Kanada hefði ákveðið að banna þorskveiðar næstu tvö árin. Þá sagði þingmaðurinn: Okkur hefði verið nær að fara sömu leið og þið Íslendingar að taka upp

stjórnun fiskveiða. Við hunsuðum alltaf fiskifræðingana en þið takið mark á þeim. Nú fer atvinnuleysið upp í 40--50% í mínu kjördæmi. Auðvitað var það rétt ákvörðun að takmarka fiskveiðarnar. Það er hins vegar mjög umdeilt hvernig stjórnun þeirra hefur tekist. Þeir eru býsna margir sem fullyrða að meginmarkmiðunum hafi ekki tekist að ná fram. Flotinn hefur þrátt fyrir háleit markmið stækkað og þrátt fyrir takmörkun hefur hrygningarstofninn sífellt minnkað. Nú erum við vissulega við hættumörk og sér þess víða stað. Það er skammt síðan við töldum eðlilegt að fiska um 400 þús. tonn af þorski en nú er leyft að fiska einungis rúmlega 200 þús. tonn eða um helmingi minna. Afleiðingarnar hafa birst í atvinnuleysi og erfiðleikum byggðanna vítt og breitt um landið. Það sem þó er alvarlegast er að öll yfirbygging þjóðarinnar, þjónusta og eyðsla, er enn miðuð við þá blekkingu að 400 þús. tonn af þorski séu til skiptanna.
    Hvað eftir annað hefur lögum um stjórn fiskveiða verið breytt. Við jafnaðarmenn höfum ávallt haldið því fram að þjóðin öll ætti auðlindina. Hvað eftir annað bárum við fram tillögu hér á Alþingi um að það verði viðurkennt í 1. gr. laganna. Sú tillaga var jafnan felld. Að því kom þó að tillagan var loks samþykkt. Nú viðurkenna allir eða flestir að þjóðin eigi auðlindina. Það vefst hins vegar mjög fyrir mönnum hvernig það skuli útfært.
    Við í Alþfl. gerum okkur auðvitað ljóst að það eru sjómenn og útgerðarmenn sem sækja fiskinn. Við erum hins vegar þeirrar skoðunar að þeir verði að sætta sig við þær reglur sem þjóðin, eigandi fiskimiðanna, setur.
    Sú till. til þál. sem hér liggur fyrir fjallar um að skipa nefnd til að semja tillögur. Ég tel enn eina nefndarskipunina óþarfa og ég tel það ekki til bóta að láta hagsmunaaðila ráða öllu um gerð nýrra tillagna. Staðreyndin er sú að þau lög sem nú gilda og menn eru svo ósáttir við eru byggð á samkomulagi svonefndra hagsmunaaðila. Í raun hafa fyrri nefndir verið skipaðar hagsmunaaðilum og haga störfum sínum á þann veg að þær hafa undirbúið og samið lagatexta. Síðan hafa alþingismenn líkt og atkvæðavélar afgreitt þessar hugsmíðar eins og á færibandi. Alþingi á að hafa burði til þess að axla fulla ábyrgð en leita eftir samráði og taka tillit til gagnrýni telji menn það skynsamlegra.
    Nú er við ræðum stjórnun fiskveiða eru aðstæður allar aðrar en áður. Nú eru þúsundir manna atvinnulausir og afleiðingar þess fyrir heimilin eru skelfilegar. Við þessar aðstæður þarf að gæta þess að fiskveiðistefnan lúti því markmiði að færa sem flestum vinnufúsum höndum störf. Það þarf að meta það mjög kaldrifjað á hvern hátt því markmiði megi ná. Við þurfum vissulega að tryggja hámarksarðsemi þess fisks sem veiddur er. Við mat á því verður að skoða hve mikils virði það er fyrir þjóðfélagið að atvinnuleysi minnki eða hverfi. Á því samdráttarskeiði sem nú hefur varað í nokkur ár hefur vissulega margt verið reynt til hagræðingar. Sjálfsagt hefur margt heppnast, en það er líka oft erfitt að sjá hvort nokkuð hefur áunnist. Það er t.d. umhugsunarefni hverju sameining útgerðarfyrirtækja hefur skilað.
    Ársreikningar 16 stærstu útgerðarfyrirtækja landsins voru í fréttunum um daginn. Þar kom fram að tap þessara fyrirtækja sem flest hafa gengið í gegnum sameiningu er 1,5 milljarðar kr. Ekkert bendir til að sameining sé endilega rétta leiðin. Grunar mig að oft sé brugðið á það ráð að sameina tvö eða fleiri dauðvona fyrirtæki sameiningarinnar vegna. Líklegt er að örvæntingin sem grípur um sig þegar örðugleikar steðja að verði oft til þess að rangar ákvarðanir eru teknar. Spyrja má hvort nokkur viti til þess að tvö lík fæði af sér lifandi afkvæmi.
    Helsti vaxtarbroddurinn í sjávarútvegi síðustu ára hefur verið stofnun fiskmarkaða. Ekki er vafi á því að þar var rétt að verki staðið. Fyrst var byrjað hér á suðvesturhorninu og leiddi það af sér að fiski var ekið um landið þvert og endilangt í því skyni að koma honum á markað. Úrelt verðlagningarkerfi sem var sjómönnum mjög fjandsamlegt átti stærstan hlut að þeirri þróun. Með þróun fiskmarkaðanna hefur það sýnt sig að fjarskiptamarkaðir eru byggðavænir og nægir að nefna að þegar stofnaðir voru fiskmarkaðir úti á landi drógust fiskmarkaðarnir hér syðra aftur úr. Með tilkomu fjarskiptamarkaða um land allt hefur verið sýnt fram á að þar sem fiski er landað og sími og rafmagnið til staðar, er hægt að selja fisk án þess að keyra hann til Reykjavíkur eða sigla honum til Cuxhaven. Ekki er vafi á því að ef þessi tækni er notuð verður hægt að flytja þau atvinnutækifæri sem flust hafa úr landi hingað heim til Íslands aftur.
    Þegar kvótakerfið var sett á má segja að 80% kvótaúthlutunar hafi verið í eigu fiskvinnslunnar. Nú í dag má segja að 80% fiskvinnslunnar séu í eigu útgerðarinnar. Hvers vegna ekki að skilja á milli veiða og vinnslu? Við skulum selja það á fiskmörkuðum sem kemur úr auðlindinni og þá mun koma í ljós hvaða fiskvinnslufyrirtæki eru hæf og hvaða útgerðir eru hæfar. Þá gerist það mjög fljótt að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þróunarsjóði. Við þær aðstæður sem við búum í dag er þróunarsjóður nauðsynlegt skref en aðskilnaður veiða og vinnslu mun leiða af sér nýtt og betra skeið öllum til góða. Þá verður engin fiskvinnsla til staðar í landinu sem ekki hefur ástæðu til að græða á vinnslunni. Þá verður engin útgerð rekin sem ekki stendur sig. Óarðbærar útgerðir munu detta út. Við slíkar aðstæður mun úrelding ganga mun hraðar fyrir sig og á skynsamlegri hátt en nú tíðkast. Ástæða er til að geta þess að ég geri athugasemdir við það að hægt verði að færa aflakvóta yfir á fiskvinnsluhús og bendi í því sambandi á að slíkt getur verið mjög varasamt með tilliti til hagsmuna sjómanna sem gætu þurft að sæta afarkostum svokallaðra eigenda í landi. Ég tel að það sé forgangsmál að efla fjarskiptamarkaðinn í landinu og aðskilja veiðar og vinnslu. Sennilega hefur aldrei verið betra tækifæri til þess en einmitt nú.
    Við þurfum að spyrja okkur margra spurninga áður en við ljúkum lagasetningu um stjórnun fiskveiða. Spyrja má: Hvernig gengur frystitogari sem kostar 1,5 milljarða kr.? Líklegt er að hann þurfi með

allri sinni fjárfestingu 15 tonn á dag með 20--30 manna starfsliði á meðan einfaldri fiskvinnslu með sama starfsliði nægir 10 tonn á dag til að hafa sæmilega eða góða afkomu Og spyrja má: Hvers vegna er stærstu skipunum ekki meira beint í utankvótategundir á djúpslóð eða til fjarlægra miða í stað þess að skarka á sama stað og litlu bátarnir? Og líka má velta því fyrir sér hvort kvótakerfið hefði ekki heppnast betur hefði þess verið gætt að taka tillit til þess veiðimunsturs sem var þegar kvótinn var lögleiddur í upphafi, þ.e. í hvaða veiðarfæri og á hvaða svæði hann var veiddur. Ef togara vantaði kvóta átti hann ekki að hafa aðeins rétt til að kaupa togarakvóta, bátur kaupa af bát innan síns stærðarflokks o.s.frv.
    Ég fullyrði að íslenskur sjávarútvegur á framtíð fyrir sér. Ef við berum gæfu til að gæta hófs og leita allra leiða til að fá hámarksafrakstur af fiskinum. Evrópska efnahagssvæðið mun með þeim tollalækkunum sem því fylgja hjálpa mikið til. Enn legg ég áherslu á það að höfuðverkefni stjórnmálamanna í dag er að leita allra hugsanlegra leiða til að útrýma atvinnuleysinu. Ef rétt er á haldið gæti ný lagasetning um stjórnun fiskveiða átt þátt í að auka atvinnuna.
    Við erum nú að ræða eitt viðkvæmasta mál sem fyrir Alþingi hefur komið á þessum vetri. Við höfum það verkefni að samræma þær fjölmörgu skoðanir sem uppi eru um fiskveiðimálin. Stjórnmál eru hópvinna og því er líklegt að margur verði að láta nokkuð af sinni meiningu til að unnt verði að ná ásættanlegri lagasetningu til heilla fyrir þjóðina. Í bók Laxness var Salka Valka eitt sinn ásökuð fyrir að hafa skipt um skoðun. Þá svaraði Salka Valka: Hef ég kannski ekki leyfi til að vera skynsamari en í fyrra? Líklegt er að margur þurfi að lagasetningu lokinni að svara líkt og Salka Valka þegar að henni var vegið.
    Fjöregg þjóðarinnar, auðlindir hafsins, verðum við að verja og vernda. Það verðum við að gera á réttlátan hátt og skapa sem mestan frið þjóðarheildinni til hagsbóta.