Umferðarlög

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 18:50:13 (7577)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég blanda mér að sjálfsögðu ekki í umræður um það hvernig hv. allshn. hefur unnið að þessu máli, hvernig það hefur allt saman tekist til, enda finnst mér það ekki vera aðalatriði málsins heldur hitt hver hin efnislega niðurstaða er hér eða verður. Ég fagna því sem hv. formaður nefndarinnar sagði að nefndin hefði ekki lokað á að skoða þau frv. önnur sem fyrir nefndinni lægju og væru flutt af einstökum þingmönnum. Þar á meðal skildi ég að væri það frv. okkar nokkurra þingmanna til breytinga á umferðarlögum sem ég hef gert hér að umtalsefni. Það væri að vísu fremur óvenjulegt ef nefndin sendi frá sér á sama vorinu tvö frv. eða tillögur um breytingar á umferðarlögum og hefði verið eðlilegast væntanlega að þau hefðu orðið samferða en ef nefndin vill halda áfram að skoða þessi mál þá fagna ég því að sjálfsögðu.
    Ég verð að segja alveg eins og er að þeim mun meira sem ég fer yfir t.d. umsagnir um þetta mál þeim mun meira er ég undrandi á því að nefndin skuli treysta sér út í þessar breytingar að ekki betur yfirveguðu máli eða meiri samstöðu um þær en raun ber vitni. Ég hef að sjálfsögðu ekki haft mikinn tíma til að fara yfir pappíra allshn. um þetta mál þó ég hafi verið áhugamaður um það lengi og reynt að kynna mér og fylgjast með umferðarmálum og slysavarnamálum. En nóg hef ég þó lesið í þessum umsögnum sem ég aflaði mér frá nefndinni til að sjá að flestir umsagnaraðilarnir hafa í besta falli efasemdir um þetta fyrirkomulag eða gera sér grein fyrir því að minnsta kosti að það er mjög vandasamt að setja um það reglur yfir í það að það er beinlínis varað við því að fara í þessar breytingar.
    Þegar hefur verið rætt hér um afstöðu Ökukennarafélagsins og það má auðvitað ýmislegt um það segja. Einhverjir kunna að telja að þeir séu fulltengdir málinu eða eigi of mikilla hagsmuna að gæta til að rétt sé að gera mjög mikið með þeirra sjónarmið. En hvað sem því líður verður ekki fram hjá því horft að það eru þeir sem starfa á þessu sviði og þarf að eiga samstarf við og samráð um ef vel á að takast. Það er óhjákvæmilegt. Það er þess vegna ekki heppilegt, jafnvel þó svo menn hyggist reyna að leysa það með samráði síðar á öðrum vettvangi, að lagabreytingin sjálf fari hér fram undir andmælum þeirra.
    Í öðru lagi ber ég niður í umsögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Þar gerir FÍB þá athugasemd að heimildin verði þannig úr garði gerð að æfingaakstur fari fram í samráði við löggiltan ökukennara, þ.e. að það verði hluti af ökukennslunni undir stjórn löggilts ökukennara. Þá erum við auðvitað að tala hér um talsvert annan hlut heldur en þann að það myndist sjálfstæður réttur í hálft ár til þess að aka með leiðbeinanda yfir tilteknum aldri sér við hlið. ( SP: Ökukennarinn á að meta það.) Þá kemur nú að því að við höfum ekki mikið í höndunum um það hvernig þessar reglur verði útfærðar. Það hefði þá a.m.k. verið til bóta að þessi reglugerð ráðherra eða reglur hefðu legið fyrir hér í drögum af því að þetta er jafnvandasamt eða umdeilanlegt ákvæði og raun ber vitni. Það virðist vera tekið mikið mark á umsögn lögregluembættanna þegar kom að því frv. sem ég er 1. flm. að því það er nánast eina neikvæða umsögnin um það frv. En hvað leggur lögreglustjórinn í Reykjavík til um þetta atriði? Skyldi þá ekki vera tekið jafnmikið mark á honum þegar lögreglustjórinn í Reykjavík sendir inn umsögn og segir beinlínis um 11. gr., með leyfi forseta: ,,Embætti lögreglustjóra varar við því að æfingaakstur þeirra sem ekki hafa áður fengið útgefin ökuréttindi verði leyfður án löggilts ökukennara, sbr. b-lið 11. gr.`` Ég sé ekki annað en þetta sé alveg skýrt. Lögreglustjóraembættið varar við því og færir síðan fyrir því ýmis rök í textanum sem ég ætla ekki tímans vegna að tíunda.
    Umferðarráð er kannski hvað jákvæðast þrátt fyrir allt í sinni umsögn og hvernig orðar það þetta? Það tekur að vísu undir að dómsmrh. geti sett reglur um æfingaakstur og slíkur æfingaakstur geti gefið ökunemum tækifæri á að auka eða bæta akstursþjálfun sína en segir síðan: ,,Umferðarráð vekur athygli á því að með þessu opnast tækifæri til bætts ökunáms, ef rétt er að staðið, en bendir jafnframt á að þessu fylgir ákveðinn áhætta. Vanda þarf vel til þeirra reglna sem settar verða, til að mynda hvaða skilyrði skuli sett fyrir slíkum æfingaakstri, sem og hvort eða hvaða kröfur skuli gerðar til leiðbeinandans.`` Og svo segir: ,,Slíkar reglur ætlast Umferðarráð til að settar verði að höfðu samráði við ráðið.`` Og er allt í lagi með það. En þó þessi umsögn yrði sjálfsagt flokkuð undir eina þá jákvæðustu er hún þó a.m.k. svo úr garði gerð að það er beinlínis tekið fram að þessu geti jafnframt fylgt áhætta og að vanda þurfi mjög til allrar útfærslu málsins.
    Sýslumannafélag Íslands telur að setja verði mjög strangar kröfur til leiðbeinanda sbr. 11. gr. frv. og öll hæfiskilyrði í því sambandi og þeir verða að vera a.m.k. 25 ára að aldri, sem eru þá hærri aldursmörk heldur en nefndin leggur til.
    Að lokum er hér umsögn Sambands íslenskra tryggingafélaga. Þeir leggja til að lágmarksaldur leiðbeinanda í æfingaakstri verði a.m.k. 25 ár í stað 21 árs sem frv. gerði ráð fyrir og sem niðurstaða virðist hafa orðið um að hafa 24 ár samkvæmt brtt. nefndarinnar. Síðan fara þeir yfir það hjá tryggingafélögunum að tjónatölur vátryggingarfélaganna sýni glögglega að tjón sem rakin verða til ökumanna á aldrinum 17--25 ára eru geysimörg. Þessi aldursflokkur veldur flestum og alvarlegustu slysunum. Eftir að 25 ára aldri er náð dregur á hinn bóginn úr tjónatíðni.
    Í umsögn tryggingafélaganna er einnig annað mjög athyglisvert ákvæði í ljósi þess að í raun gengur brtt. nefndarinnar út á það að akstursþjálfunin geti hafist nú sex mánuðum áður en menn mega öðlast ökuréttindi, þ.e. þegar menn eru 16 og hálfs árs gamlir. Samband íslenskra tryggingafélaga segir hins vegar í sinni umsögn að forsenda þess að stjórnin geti mælt með því að nemi hefji ökunám hálfu ári fyrir ökuréttindaaldurinn sé sú að sá aldur verði hækkaður úr 17 árum í 18. Þar er nú orðinn talsverður munur á 16 og hálfs árs aldri eða 18 eins og Samband tryggingafélaga leggur til, að ökuleyfisaldurinn sjálfur verði hækkaður um eitt ár. Og ég skil þá vel. Hafandi farið í gegnum tjónaskýrslur og slysaskrár lögreglustjóraembættanna og Umferðarráðs þá skil ég það vel að menn skuli leggja til að aldurinn verði hækkaður um eitt ár því það eru auðvitað engar smáfórnir sem færðar eru á því ári eins og tölur sýna. Við þurfum auðvitað að horfa á það hér hjá okkur að við erum með þennan aldur lægri heldur en mörg nágrannalöndin.
    Þetta, hæstv. forseti, vildi ég bara tína til vegna þess að ég held að það sanni og segi allt sem segja þarf um það að þetta er ekkert einfalt né sjálfsagt mál að mati þeirra sem helst hafa um það fjallað og mikið vandaverk ef á annað borð er farið út á þessa braut. Ég hefði gjarnan viljað sjá það sem hluta af miklu yfirvegaðri heildarendurskoðun á þessum leiðbeinenda- og ökuréttindamálum sem líka tækju til tímabilsins fyrst eftir að menn öðlast ökuréttindi. Hefðu menn gert jafnmikið með þær athugasemdir eða efasemdir sem fram koma í umsögnunum um þetta atriði í stjfrv. þá hefði það væntanlega ekki náð afgreiðslu frekar heldur en okkar tillögur í þingmannafrv. sem hér hefur líka verið rætt um.
    En vonandi verður það svo, eins og hv. formaður nefndarinnar boðaði, að að þessum málum verði áfram unnið og því fagna ég og er að sjálfsögðu alltaf tilbúinn og reiðubúinn til umræðna um eða þátttöku í starfi sem miðar að því að ráða bóta á þessum málum eða að bæta a.m.k. þetta ástand frá því sem nú er, það er ekki nógu gott eins og við erum væntanlega öll sammála um og kallar á aðgerðir eigi þessum mikla fórnarkostnaði í umferðinni að linna.