Lagaákvæði er varða samgöngumál

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 19:08:35 (7578)

     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu hefur verið til athugunar hjá samgn. frá því snemma á þessu þingi enda er frv. 28. mál þingsins.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn frá samgönguráðuneytinu Davíð Stefánsson og Ragnhildi Hjaltadóttur. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Vinnuveitendasambandi Íslands, Siglingamálastofnun ríkisins, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vegagerð ríkisins, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, bifreiðstjórafélaginu Frama, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ferðamálaráði og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Í flestum þessum umsögnum er tekið fram að hlutaðeigandi umsagnaraðilar geri ekki athugasemdir við frv. en í örfáum þeirra eru athugasemdir þess efnis að ekki sé fullt samræmi í gildandi lögum við ákvæði frv. en það eru gjarnan lög sem hafa verið til meðferðar á Alþingi nú í vetur og hafa síðan verið afgreidd sem lög sem þá hafa færst það horf að vera í samræmi við önnur ákvæði í þessu frv. Hér er t.d. um að ræða lög um eftirlit með skipum, lög um leiðsögu skipa og lög um fjarskipti. En t.d. í umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands var gerð athugasemd við það að samkvæmt gildandi lögum væri eigi þarna fullt samræmi á milli en ekki gerðar beinar athugasemdir varðandi efnisatriði.
    Það er kom fram við 1. umr. að frv. er að formi til nokkuð óvenjulegt að því leyti að það felur í sér allmargar heimildir til hæstv. samgrh. að setja reglugerð samkvæmt lögunum. Í vinnu nefndarinnar var óskað eftir því að samgrn. skilaði til nefndarinnar greinargerð er greindi frá öllum efnisatriðum í þeim reglugerðum sem setja þyrfti samkvæmt þessum lögum. En lagabálkurinn tekur til laga um leigubifreiðar, laga um skipulag fólksflutninga, siglingalaga, laga um eftirlit með skipum, laga um leiðsögu skipa, hafnalaga, vegalaga, laga um veitinga- og gististaði, laga um skipulag ferðamála og laga um skráningu skipa. Þessi greinargerð samgrn. var síðan send til nefndarinnar eða kom til nefndarinnar hinn 1. des. sl. og var farið mjög gaumgæfilega yfir öll atriði þeirrar greingargerðar, þ.e. öll þau efnisatriði sem koma fram í reglugerðum samkvæmt þessu frv.
    Eftir að hafa skoðað þau mál voru ekki athugasemdir innan nefndarinnar að marki um það að nokkurt efnisatriði í þessum fyrirhuguðu reglugerðum mundi koma í bága við hagsmuni okkar Íslendinga í sambandi við aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Að sjálfsögðu lúta þessi mál þeim meginsjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar í þessum samningi en að öðru leyti er ekki að finna í þessum reglugerðardrögum neitt það sem talið var að mundi koma í bága við okkar hagsmuni. Enda er það svo, eins og áður segir, að umsagnaraðilar flestir hverjir gera ekki athugasemdir við frv.
    Ég vil gjarnan þakka nefndarmönnum mínum eða í samgn. fyrir þá vinnu sem í þetta var lögð. Sú

vinna var allmikil. Eigi að síður fór það svo að nefndin varð eigi sammála um afgreiðslu frv. Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með örfáum breytingum en minni hlutinn, þ.e. fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni, skila séráliti.
    Með áliti meiri hluta nefndarinnar eru lagðar til breytingar eins og áður sagði, brtt. á þskj. 809, þar eru lagðar til tvær breytingar á 2. gr. frv. sem báðar taka til 2. gr. laga nr. 53/1987, um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum. Í fyrsta lagi er lagt til að nýr töluliður bætist við greinina sem taki til ferða fram og til baka. Samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins um farþegaflutninga milli landa með langferða- og áætlanabifreiðum er farþegaflutningum skipað í þrjá flokka eftir eðli þeirra, þ.e. í reglubundna flutninga, óreglubundna flutninga og ferðir fram og til baka.
    Í lögum nr. 53/1987 er að finna tvo fyrstu flokkana en ekki þann síðasta. Nauðsynlegt er talið að hafa ákvæði þessa efnis einnig í lögunum, þannig að flutningsaðilar allra ríkja EES-samningsins eigi einnig hvað þennan flokk varðar jafnan rétt að markaðinum án mismunar vegna þjóðernis eða staðfestu.
    Ljóst er að þrátt fyrir að nauðsynlegt sé talið að þessi ákvæði komi inn í íslensk lög þá mun þetta að litlu leyti varða samgöngumál okkar Íslendinga, þ.e. samgöngumál til og frá landsins því ekki er um það að ræða að hingað séu ferðir til og frá eða fram og til baka með langferðabifreiðum. Eigi að síður með því að setja þetta inn í íslensk lög þá geta íslenskir aðilar tekið þátt í slíkri starfsemi annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í öðru lagi er lagt til að ný málsgrein bætist við 2. gr. laganna þar sem lögfest verði ákveðin skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að geta fengið leyfi til fólksflutninga samkvæmt þeim. Innan Evrópska efnahagssvæðisins verða samræmd skilyrði hvað varðar aðgang að starfsgrein aðila sem stunda farþegaflutninga á vegum, sbr. ákvæði tilskipunar EB nr. 74/561 ásamt viðauka. Þar er einnig að finna nánari skilgreiningar á hvað átt er við með kröfum um ,,fullnægjandi fjárhagsstöðu`` og ,,starfshæfni`` en aftur á móti eiga aðildarríki sjálf að ákvarða hvað felist í skilyrðinu um ,,óflekkað mannorð``.
    Þessu til staðfestingar er breytingartill. á þskj. 809 sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,    Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Til að öðlast leyfi skv. 1. gr. laganna þarf leyfishafi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    1. Hafa óflekkað mannorð.
    2. Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu.
    3. Fullnægja skilyrðum um starfshæfni.``
    Markmiðið með áðurgreindum skilyrðum er að tryggja hæfi þeirra sem stunda farþegaflutninga, auka gæði þjónustunnar í þágu neytenda, flutningsaðila og efnahagslífsins almennt og að stuðla að auknu öryggi á vegum.
    Loks er lagt til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í mörgum greinum frumvarpsins er að finna ákvæði þar sem samgönguráðherra eru veittar heimildir til að setja reglugerðir á sviði flutninga að því leyti sem nauðsynlegt verður vegna skuldbindinga er leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ljóst er að á grundvelli ákvæða EES-samningsins munu nýjar og breyttar reglur, er falla undir valdsvið löggjafans, koma fyrir Alþingi til umfjöllunar. Aðrar reglur verða teknar upp í landsrétt með útgáfu stjórnvaldsreglna, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Nefndin hefur skoðað ítarlega þær gerðir EES-samningsins er standa að baki framsalsheimildum þessa frumvarps, en þær gerðir miðast við 1. ágúst 1991, og telur ekki ástæðu til að takmarka valdsvið ráðherra á grundvelli þeirra. Í þeim gerðum felast framkvæmdaratriði sem ekki þarfnast lagasetningar og eru í mörgum tilfellum mjög tæknilegs eðlis. Verði aftur á móti um verulegar breytingar á gerðum þessum eða viðbætur við þær að ræða er gert ráð fyrir að heimildir ráðherra til setningar reglugerða á viðkomandi sviði verði endurmetnar af Alþingi. Undir skilgreininguna á ,,verulegar breytingar`` mundi sem dæmi falla tilvik þar sem nýjar gerðir eða breyttar samrýmast ekki þeim heildarsjónarmiðum varðandi flutningamál sem Ísland hefur ákveðið að fylgja með samþykkt EES-samningsins eins og hann er í þeim drögum sem nú liggja fyrir. Því leggur meiri hluti nefndarinnar til að við frv. bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heimildir samgönguráðherra til að setja reglugerðir samkvæmt lögum þessum skulu teknar til endurskoðunar verði verulegar breytingar á gerðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem lög þessi miðast við, eða viðbætur við þær.``
    Meiri hluti nefndarinnar og raunar nefndin í heild leit svo á að með þessu væri sett inn í lögin eðlileg ákvæði sem tækju af vafa um það að ef verulegar breytingar verða á þeim gerðum sem tengjast EES-samningnum þá skuli leita heimildar Alþingis fyrir því að setja reglugerðir í samræmi við þær breytingar. Heimildir hæstv. ráðherra samkvæmt lögum þessum takmarkast sem sé við þá gerð samningsins sem nú liggur fyrir og ekki umfram það ef um verulegar breytingar er að ræða. Framkvæmdin á þessu atriði getur svo ein leitt í ljós hvort á þetta ákvæði muni út af fyrir sig reyna. Tilvist þess hlýtur þó að kalla á árvekni löggjafans, þ.e. Alþingis, um framkvæmd þeirra heimilda sem frv. er ætlað að veita.
    Ég tel mig þá hafa skýrt þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði við þetta frv. og legg til fyrir hönd meiri hluta samgn. að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem er að finna í brtt. á þskj. 809.