Lagaákvæði er varða samgöngumál

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 19:37:26 (7582)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tók það fram áðan að ég væri ekki þingvanur maður og vissi ekki hvort svona lagað gengi upp. Mér finnst þetta aftur á móti ekki snúast um það hvort menn ætli sér að fara að taka málið upp í sjálfu sér. Ég geri ekki ráð fyrir að það mundi neitt breytast í afstöðu manna til málsins sjálfs. En mér finnst það bara einhvern veginn svo sjálfsagt mál að þegar eru samþykktar lagabreytingar á Alþingi, þá sé vitnað í þau lög sem menn ætlast til að lagabreytingar hafi áhrif á. Mér finnst því að það verði að skipta um fyrirsagnir á þessum greinum sem við á þannig að það sé vitnað í rétt lög með réttum númerum í þessari lagasetningu. Það er nú eingöngu það sem ég er að fara fram á að yrði gert og ég skil eiginlega ekki hvers vegna hægt er að kippa svona hlutum í liðinn á skammri stund með stuttum nefndarfundi.