Lagaákvæði er varða samgöngumál

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 19:42:56 (7587)


     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því í sambandi við það mál sem hér var verið að ræða að það væri kannski eðlilegt og tæknilega rétt að þegar það frv. sem hér var rætt núna verður prentað eftir 2. umr., þá verði það prentað með nýjum og réttum laganúmerum. Nú eru ný lög um eftirlit með skipum og leiðsögu skipa ekki orðin lög. Þau eru ekki orðin lög fyrr en þau hafa verið gefin út í Stjórnartíðindum, en það er auðvitað hugsanlegt að gefa þau út í fyrramálið og að gefa þeim númer og prenta síðan þskj. á ný með hliðsjón af hinum nýju númerum. Og ég skil vel þær athugasemdir sem hér koma fram frá hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 6. þm. Vestf. að það er auðvitað eðlilegt að þessir hlutir séu eins nákvæmir og kostur er því að við erum nú gagnrýnd fyrir ýmislegt hér í þinginu. Ég held að við ættum að reyna að fækka þeim gagnrýnisefnum eins og kostur er og ég er viss um að hv. formaður samgn. hefur áhuga á því líka.