Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 19:52:44 (7592)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég sá á þessu nál. að margir nefndarmenn höfðu skrifað undir með fyrirvara. Fékk ég nú að heyra skýringar á því en ég taldi þær ekki fullnægjandi, þ.e. ég fékk ekki skýringar á ýmsum spurningum sem ég setti fram eftir lestur bæði frv. og nál. og reyndar brtt. líka.
    Í nál. segir að það sé ekki að finna ákvæði í íslenskri löggjöf sem sem sé samsvarandi því sem felst í þessu lagafrv. Ég las þetta lagafrv. með athygli og taldi að þarna væri um nokkuð gott mál að ræða og varð þess vegna dálítið undrandi þegar ég sá að brtt. sem er á þskj. 955 væri gerð til að gera reglur tilskipunarinnar skýrari. Þegar ég las þessa brtt. þá botnaði ég hvorki upp né niður í því hvað verið var að tala um. Ég skildi frv. eins og það var en alls ekki eftir að búið er að koma með þessa brtt. Mér finnst þetta mjög sérkennileg brtt. og á mjög erfitt með að átta mig á því hvað í henni raunverulega felst. Mér skilst að þetta sé heldur til hins verra og í því felist fyrirvarinn en ég þarf að fá betri skýringu á því í raun og veru hvað þarna er á ferðinni og óska eftir því að formaður nefndarinnar skýri betur hvers vegna þeir

telji þetta vera réttara. Ég á þá ekki við að EB sé að skipa okkur hér á landi fyrir hvernig lögin eigi að vera hér. Af hverju má ekki hafa þau betri fyrir íslenskt launafólk heldur en EB ákveður?
    Það sem kom mér líka á óvart og skil raunar ekki af hverju 7. gr. hljómar eins og hún gerir, þ.e. að ,,lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði að því er Ísland varðar`` ef þessi löggjöf er nauðsynleg sem ég held að hún sé. Þess vegna finnst mér mjög sérkennilegt að nefndin leggi ekki til brtt. við þessa gildistökugrein ef ekki eru neinir hnökrar á því að hafa þetta inni í íslenskri löggjöf óháð samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þetta vildi ég nú sagt hafa, virðulegur forseti, því að ég varð eiginlega fyrir hálfgerðum vonbrigðum þegar ég sá bæði brtt. og að ekki hafa verið gerðar brtt. við gildistökuákvæðið.
    Mér varð kannski of seint ljóst að þetta mál væri hér á dagskrá þannig að líklega er orðið nokkuð seint fyrir mig að koma með brtt. að því er þetta atriði varðar, þ.e. við 7. gr. og e.t.v. fleiri þar sem ég hafði ekki sett mig nægilega vel inn í þetta mál og það er svo langt síðan þetta var til umræðu hér í þinginu og ég áttaði mig ekki á að þetta kæmi til umræðu hér í dag.
    En þetta hefði ég gjarnan viljað fá betur upplýst ef hv. formaður nefndarinnar gæti skýrt nánar fyrir mér þessi tvö atriði sérstaklega.