Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 20:00:33 (7594)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fékk nú reyndar ekki svar við síðari spurningu minni heldur að einhverju leyti svar við þeirri fyrri, þ.e. af hverju gildistökuákvæðið er með þeim hætti sem það er þarna í frv. Af hverju er ekki sagt að lögin öðlist gildi annaðhvort nú þegar eða við einhverja ákveðna dagsetningu? Ég skil ekki, ef þetta er svo gott mál sem mér sýnist og mér heyrist að nefndin hafi verið sammála um, hvers vegna þá ekki að láta frv. öðlast gildi nú þegar? Ég skil það út af fyrir sig að það sé eðlilegt að fara að tillögu þessarar nefndar sem þarna hefur komið að þessu máli. En það er ekki nauðsynlegt fyrir Alþingi endilega að fara eftir því sem nefndir út í bæ segja þó það sé oft gert að sjálfsögðu eins og formaður nefndarinnar hér tók til.
    Mig langar enn og aftur að spyrja nákvæmar um það --- þá vil ég spyrja beint: Hvað þýðir eins og stendur hér: ,,Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um rétt launþega til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta þegar um er að ræða lífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu``? Ég verð að viðurkenna það að ég átta

mig ekki á hvaða réttindi fólk getur misst við þessa breytingu. Það er ekki nógu skýrt fyrir mér. Ég hefði gjarnan viljað fá skýringu á því ef það er eitthvað --- því ég sé að það kemur þarna á eftir: ,,Ákvæði 2. mgr. getur þó eldrei leitt til skerðingar á áunnum réttindum`` sem mér finnst vera mjög til bóta. Ég get ekki almennilega skilið hvað í þessu felst. Svo vildi ég gjarnan fá svar við spurningunni varðandi gildistökuákvæðið sem mér er ekki enn ljóst.