Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 20:02:54 (7595)


     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að ég gleymdi að svara þessu með gildistökuákvæðið. Það er alveg rétt að t.d. í frv. til laga um hópuppsagnir þá breyttum við gildistökuákvæðinu. Það var samkomulag í nefndinni um það og samkomulag við þá aðila sem höfðu unnið að þessu máli og gert samkomulagið að þetta mál væri eðlilegt og allir stæðu að því eftir sem áður óháð EES.
    Ég nefndi það hér áðan í mínu svari að stundum hefðu aðilar vinnumarkaðarins náð samstöðu um mál í tengslum við þetta sem ekki hefði náðst samstaða um áður. Þetta er eitt slíkt mál. Þetta er eitt slíkt mál þar sem samstaðan er bundin þessu máli, þessu EES-máli og við yrðum að fara hreinlega ofan í það aftur og þá mundi kannski fyrirspyrjandi segja: Ef Alþingi þykir það gott mál og annar aðilinn hvor sem það væri er ósáttur við það að gildistakan væri strax af hverju gerir það það ekki? Það er ekki tillaga félmn. Félmn. hefur farið yfir þetta mál, hún hefur fengið að vita að þetta er samkomulagsmál að gildistaka laganna er bundin því að EES-samningurinn taki gildi og það yrði þá að skoðast upp á nýtt ef ekki yrði af því. Hitt er að væri ég t.d. í lífeyrissjóði meðan ég er hjá fyrirtækinu og síðan verða aðilaskipti og af einhverjum orsökum fer ég í annan lífeyrissjóð, á ég auðvitað allan minn rétt samkvæmt þeim lífeyrissjóði sem ég var í en ég byrja náttúrlega að ávinna mér réttindi samkvæmt hinum ef ég flyst til. Ég held að ég geti ekki útskýrt það öðruvísi. Það kom athugasemd að vísu fram um það frá einhverjum lífeyissjóðum, SAL-sjóðunum held ég, að einstaklega tyrfið orðalag til þess að fjalla um að lífeyrissjóðirnir undanskildir, þ.e. viðbótarréttur samkvæmt lífeyrissjóðum er þá undanskilinn þarna.