Framtíð húss gamla Stýrimannaskólans

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:50:39 (7605)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Við höldum áfram umræðum um gamla Stýrimannaskólann og á þskj. 859 beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.:
  ,,1. Hvaða áform eru uppi um framtíðarnýtingu húss gamla Stýrimannaskólans við Öldugötu í Reykjavík?
    2. Hvernig er háttað viðhaldi og eftirliti með húsi gamla Stýrimannaskólans í Reykjavík?``
    Þessar spurningar skýra sig sjálfar. Hér er um það að ræða hvaða hugmyndir nú eru uppi í menntmrn. um nýtingu á húsinu og hvaða möguleikar koma þar til greina, eins og ég nefndi áðan hvort t.d. er inni í myndinni að Reykjavíkurborg fái þetta hús eða íbúasamtök Vesturbæjar. Það yrði líklegast að gerast í gegnum borgina eða eru aðrar hugmyndir uppi um nýtingu hússins? Það kom fram fyrr á fundinum að skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, Guðjón Ármann Eyjólfsson, hefur ákveðnar hugmyndir og er ákaflega jákvæður í garð þessa húss og hefur stungið upp á því að þar verði komið á fót einhvers konar minjasafni en ég er frekar á því að það eigi að nýta þetta hús í þágu hverfisins eins og reyndar hefur verið gert eða var gert á meðan þar var skóli og ekki síst í ljósi þess að það er ekki margra kosta völ varðandi félagsaðstöðu í gamla Vesturbænum og því er húsið auðvitað tilvalið til nýtingar sem kemur öllum íbúum hverfisins til góða. En ég bíð spennt eftir svörum hæstv. menntmrh.