Endurskoðun á útreikningi þjóðhagsstærða

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:57:21 (7608)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Þann 5. maí 1990 samþykkti Alþingi ályktun um nýja aðferð við útreikning þjóðhagsstærða sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna aðferðir við útreikning þjóðhagsstærða þar sem tekið sé tillit til áhrifa framleiðslustarfsemi á umhverfi og náttúrulegar auðlindir. Í þessu skyni verði komið skipulagi á hagsýslugerð um umhverfismál og nýtingu auðlinda og fylgst með því sem er að gerast erlendis á þessu sviði.``
    Á 112. löggjafarþingi þegar þessi tillaga var samþykkt töldum við flm. nauðsynlegt að endurskoða útreikning þjóðhagsstærða. Nokkrar þjóðir hafa sýnt viðleitni til þess að meta umhverfisþætti inn í þjóðhagsreikninga. Þar hafa Norðmenn riðið á vaðið og fleiri þjóðir eru að huga að því sama. Norðmenn byrjuðu að velta fyrir sér auðlindamati fyrir nær 20 árum síðan og nú gefur norska hagstofan árlega út yfirlit um ástand náttúrulegra auðlinda og mengun í Noregi. Þær stærðir sem til þessa hafa verið teknar inn í auðlindareikninga varða orku, fiskstofna, skóga og loftmengun og þá er ég að tala um Noreg. Norska umhverfisráðuneytið er nú að meta önnur svið þar sem miklu varðar að tengja saman efnahagslíkön og vistfræðilegar upplýsingar. Það má e.t.v. segja að hér á landi hafi verið reynt að meta slíkt og það má kannski segja að það sé vísir að slíkum útreikningum þegar metnir eru fiskstofnar hér við land. En það hefur hins vegar kannski ekki verið gert með aðrar auðlindir og ekki kannski beinlínis teknir inn í þjóðhagsstærðir beint.
    Í riti Þjóðhagsstofnunar, Þjóðarbúskapurinn, frá því í apríl 1991, rit númer 12, er birt í viðauka greinargerð þar sem tekið er aðeins á þessu máli og heitir sá kafli ,,Umhverfið og efnahagslífið``. Tilefni þess að þessi viðauki er þar prentaður er einmitt þessi ályktun Alþingis. Þeir segja þar að þessi greinargerð sé einungis kynning á efninu og ber að líta á hana sem slíka. Mér þótti samt mjög gott þetta framtak og margt merkilegt og gott að finna sem þar kemur fram. Það sem mig langar kannski til að vekja athygli á er að þeir segja að þjóðhagsreikningamenn séu hins vegar mjög formfastir og íhaldssamir í viðhorfum sínum en það breytir ekki því að þetta eru mál sem verður að fara að taka föstum tökum og þess vegna hef ég beint fsp. til hæstv. forsrh. á þskj. 628 um framkvæmd á þessari ályktun Alþingis sem ég nefndi áðan.