Endurskoðun á útreikningi þjóðhagsstærða

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:05:55 (7610)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. svörin og lýsa ánægju minni með það hversu vel ríkisstjórnin hefur tekið á þessari ályktun Alþingis. Það verður að segjast eins og er að það hefur ekki alltaf verið drifið svo í málum eins og hér hefur verið gert og það er auðvitað vel og ber að fagna því. Eftir því sem mér heyrðist á þeim upplestri sem kom fram hjá hæstv. forsrh. þá lýst mér nokkuð vel á þær tillögur sem komið hafa fram hjá þessari nefnd og reikna ég með því að þær liggi líka á lausu væntanlega hjá umhvrn. þannig að það er hægt að kynna sér þær betur.
    Ég tel mjög mikilvægt að þessu máli verði hraðað og fagna því að það hefur verið ákveðið að gera ráð fyrir því á fjárlögum að starfsmaður verði ráðinn í verkefnið. Ég tók eftir því að hann átti að vera hjá Hagstofu Íslands. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Hagstofan og Þjóðhagsstofnun vinni saman að þessu máli sem væntanlega er gert ráð fyrir. Það er auðvitað eðlilegt að það verði gerðir sérstakir hliðarreikningar að því er varðar umhverfismálin kannski til að byrja með en það verður auðvitað að samþætta efnahags- og umhverfismálin, þau eru svo samtengd og verða ekki aðskilin. Þó svo að þessir hefðbundnu þjóðhagsreikningar verði áfram á þann hátt sem nú er þar sem eingöngu eru tekin mið af þeim verðmætum sem unnt er að meta af einhverri nákvæmni en ekki teknir inn ýmsir þættir svo sem umhverfisþættir og félagslegir þættir og ýmislegt fleira, þá sé mjög mikilvægt að þeir þættir verði teknir inn og það verði sett fram á sama hátt og þjóðhagsreikningarnir eru settir fram þannig að fólk geti gert sér grein fyrir að þegar verið er að meta hagvöxt, þá sé hægt að gera það a.m.k. á tvennan hátt. Annars vegar eingöngu með tilliti til hinna efnahagslegu þátta og svo hins vegar með umhverfismálin inni í. Reyndar eru margir sem benda á og hef ég talið það vera mjög mikilvægt að taka einnig inn ýmsa félagslega þætti.
    Þetta vildi ég og sagt hafa, frú forseti, varðandi þessa ályktun og endurtek það að ég lýsi ánægju minni með það að ríkisstjórnin hafi tekið nokkuð myndarlega, að því er mér heyrist, á þessu máli.