Efling heimilisiðnaðar

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:08:57 (7611)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :

    Virðulegi forseti. Hinn 26. apríl 1991 skipaði þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, nefnd til þess að vinna að eflingu heimilisiðnaðar. Í þessari nefnd sátu Ásrún Kristjánsdóttir myndlistarkona sem er formaður, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fyrir hönd forsrh., Sigrún Guðmundsdóttir frá menntmrn., Jakobína Guðmundsdóttir frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og Hildur Hákonardóttir fyrir Samband ísl. myndlistarmanna. Þessi nefnd vann mikið starf og skilaði heilmikilli skýrslu sem lögð var fram í nóvember sl. Það má ljóst vera að orðið ,,heimilisiðnaður`` felur margt í sér og nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það bæri að skilgreina það hugtak mjög vítt. Í inngangi skýrslunnar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að orðið ,,heimilisiðnaður`` hefur breytt um merkingu og er í dag allt handverk og listhandverk sem unnið er af einstaklingum eða hópum sem ýmist eru áhugafólk eða fagfólk en nánari skilgreiningar er vissulega þörf.``
    Í ljósi þessarar skilgreiningar skoðaði nefndin þetta mál og leggur fram margar tillögur um það hvernig efla megi heimilisiðnað á Íslandi. Það má ljóst vera að í heimilisiðnaði og listiðnaði felast miklir möguleikar til atvinnusköpunar, ekki síst í sveitum landsins þar sem er að finna margar vinnandi hendur sem hafa því miður of lítið fyrir stafni. Nú hef ég dæmi þess að konur úti á landsbyggðinni hafa gripið til sinna eigin ráða, en það þarf meira til og hér þarf auðvitað ríkisvaldið að koma til. Við getum lært af því sem gerst hefur bæði í Finnlandi, Danmörku og víðar þar sem peningar hafa verið lagðir í hönnun og eflingu ýmiss konar list- og handverks og því leikur mér hugur á að vita hvernig ríkisstjórnin ætlar að fylgja eftir þessari skýrslu sem unnin var á vegum forsrn. Því spyr ég hæstv. forsrh. á þskj. 703:
    ,,Hvernig hyggst forsrh. fylgja eftir tillögum nefndar þeirrar um eflingu heimilisiðnaðar sem skipuð var í ráðherratíð Steingríms Hermanssonar og skilaði skýrslu og tillögum í nóvember 1992?``