Sandfok á Mývatnssvæðinu

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:21:26 (7616)

     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Á síðustu árum hefur sandfok ógnað ýmsum af dýrustu náttúruperlum Mývatnssveitar. Sömu sögu er raunar að segja um gróður í byggð og á afréttarlöndum bænda í þessari sveit sem er ein hin sérstæðasta og fegursta hér á landi. Sandfokið á upptök sín á Mývatnsöræfum, en gosefni t.d. af Öskjusvæðinu eru mjög á hreyfingu þegar þurrviðrasamt er. Í sunnanátt eða suðlægum vindum teygir sandfokið sig niður í byggð og eru sandskaflarnir nú komnir inn í Dimmuborgir. Óhjákvæmilegt er að bregðast við þessum vágesti áður en hann eyðir náttúruverðmætum sem eru óbætanleg. Ekki liggur að mínum dómi nægilega ljóst fyrir hvað gert hefur verið á síðustu árum til þess að sporna við þessum háska.
    Á síðustu árum hefur Landgræðsla ríkisins haft verulegt fé til ráðstöfunar til landgræðslustarfa og til þess að vinna gegn landeyðingu. Á fjárlögum ársins 1992 var almennt starfsfé Landgræðslu ríkisins um 210 millj., þar með til sérstakra landgræðslu- og gróðurverndarverkefna, rétt um 80 millj. kr. en sérstaklega var merkt til aðgerða í Mývatnssveit eða við Mývatnssveit um 2 millj. kr. Á fjárlögum þessa árs eru ætluð sér sérstakra landgræðsluverkefna á vegum Landgræðslu ríkisins um 81,6 millj. kr. eða svipað og árinu á undan. Að sjálfsögðu hlýtur það að vera viðfangsefni þessarar stofnunar að ráðast gegn þeim vanda sem heitast brennur á landinu hvar sem það er og ég fæ ekki betur séð en hvergi sé eða hafi verið á síðustu árum meiri yfirvofandi háski fyrir náttúruverðmæti, náttúruperlur og byggð í einni sveit en einmitt Mývatnssveit eins og hér er gert að umtalsefni. Því hef ég lagt fram á þskj. 890 fsp. til hæstv. landbrh. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,1. Hvað hefur verið gert af hálfu opinberra aðila síðustu sex árin til að hefta sandfok sem ógnar náttúruperlum Mývatnssveitar ásamt gróðri í byggð og afréttarlöndum?
    2. Hvað hafa þessar aðgerðir kostað?
    3. Til hvaða aðgerða er áætlað að grípa á þessu ári?``