Sandfok á Mývatnssvæðinu

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:24:43 (7617)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Landgræðslustörf til að hefta sandfok í Skútustaðahreppi hófust árið 1942. Síðan hafa verið girt og friðuð 17 svæði sem spanna 26.500 hektara af einhverjum erfiðustu sandfokssvæðum þessa lands. Á síðustu sex árum hefur verið unnið fjölþætt gróðurverndar- og landgræðslustarf í Skútustaðahreppi sem hér segir:
    Á árunum 1987--1992 voru settar upp landgræðslugirðingar á fjórum stöðum í hreppnum, alls 56 km að lengd og 7.800 hektarar að stærð. Innan girðinganna hefur melgresi verið sáð og áburði dreift til að styrkja melgresi og annað gróður. Í girðingunni umhverfis Reykjahlíð hefur einnig verið lögð áhersla á notkun taðs og heys til uppgræðslu og plöntun landgræðslutrjáa. Nokkuð hefur verið unnið að uppgræðslu og áburðargjöf á völdum svæðum í afrétti þótt land hafi ekki verið friðað.
    Mikið uppgræðslustarf hefur verið unnið innan landgræðslugirðinga. Mest hefur það verið unnið með flugvélum sem sáð hafa grasfræi, dreift áburði á sáningar og styrkt gróður til að örva fræsetu og sjálfssáningu. Melfræ hefur verið herfað niður og nú á síðustu árum sáð á samt lúpínufræi með sáðvélum, einnig utan landgræðslugirðinga. Síðan 1983 hefur verið unnið að umfangsmiklu samvinnuverkefni um uppgræðslu og stöðvun sandfoks í Krákárbotnum með það að markmiði að stöðva sandburð í Kráká og Laxá. Landsvirkjun, Skútustaðahreppur, ýmis veiði- og landeigendaféög ásamt Landgræðslunni hafa kostað það verkefni. Hundruð hektara af ógrónu landi hafa verið grædd, sandfok stöðvað á vissum svæðum, en gífurlegt verkefni er þar fram undan eins og annars staðar í hreppnum.
    Í samræmi við stefnu og markmiðssetningu Landgræðslunnar hefur verið lögð áhersla á það í vaxandi mæli að fá bændur til starfa við landgræðslu í hreppnum. Í síðasta ári tóku bændur að sér ýmis landgræðslustörf, svo sem sáningu, áburðargjöf og girðingar í meira mæli en áður þótt þeir hafi í mörg ár unnið að þessum verkefnum. Árið 1990 hófst sérstakt samvinnuverkefni við bændur um uppgræðslu heimalanda. Markmið þess er að græða upp land í heimahögum til að beita vor og haust og minnka með því álag á viðkvæmt land. Bændur greiða hluta af kostnaði við þetta verkefni. Árin 1991 og 1992 var þetta heimalandaverkefni fært út enn frekar því ónóg aðstaða í heimalöndum hefur verið ein af ástæðum þess hve beit hefur hafist snemma í afréttum. Beitartími sauðfjár á afréttum Mývetninga var ein sá lengsti sem þekkist á landinu. Mikið hefur áunnist í styttingu beitartíma. Fyrr á árum hófst beit á afrétti hreppsins í maí en á síðasta ári var upprekstur ekki heimilaður fyrr en 4. júní og þá aðeins fyrir hluta fjárins til að byrja með. Beit á svo viðkvæmu landi hefst þó enn allt of snemma og unnið að því að ná samkomulagi um enn frekari seinkun upprekstrar. Til að minnka beitarálag hefur Landgræðslan stuðlað að fækkun sauðfjár í samvinnu vð heimamenn og yfirstjórn sauðfjárframleiðslunnar. Fé á sumarbeit í hreppnum fækkað úr 17.600 fjár í 14.300 fjár á árunum 1987--1992. Göngum hefur verið flýtt og tekið hefur verið fyrir haustbeit áa í mellöndin á austurafrétt Mývetninga sem stóð frá því eftir göngur og fram í desember.
    Hefting sandfoks og úrbætur vegna ferðamanna í Dimmuborgum eru sérstakt átaksverkefni sem unnið er að í samvinnu við Náttúruverndarráð og Skútustaðahrepp með liðstyrk bænda og áhugamanna. Borgunum var bjargað frá eyðileggingu þegar landið var girt 1942 en þá var hluti Dimmuborga reyndar þegar kominn í kaf í sand. Unnið er að því að hefta sandinn varanlega auk þess að bæta göngustíga til að fyrirbyggja skemmdir af völdum traðks.
    Á umræddu tímabili hefur Landgræðslan og landbrn. haldið fjölda kynningar- og fræðslufunda í

Mývatnssveit. Fyrrv. landbrh. skipaði árið 1988 nefnd til að gera tillögur um landgræðslu og landnýtingu. Á grundvelli álits nefndarinnar var unnið mikið starf við úttekt og mat á ástandi og búskap í hreppnum. Landgræðslu- og landnýtingarnefndin sem landbrh. skipaði á sl. ári hefur unnið víðtækt starf við öflun gagna til áætlunargerðar. Stofnað var á sl. ári sérstök samráðsnefnd Landgræðslunnar og heimaaðila til að samræma aðgerðir í hreppnum og stýra landgræðslustörfum bænda. Alls hefur Landgræðslan varið 104,6 millj. til verkefna í Skútustaðahreppi á þessu tímabili. Árlegur kostnaður er því um 10% af heildarfjárveitingu Landgræðslunnar. Framlög annarra aðila er erfitt að meta nákvæmlega en munu losa 30 millj. kr. á umræddu tímabili.
    Í júní sl. skipaði ég nefnd til að semja landgræðslu- og landnýtingaráætlun fyrir Skútustaðahrepp með hliðsjón af ástandi heimalanda og afrétta. Í skipunarbréfi kemur m.a. fram að nefndin skuli hafa það að markmiði að finna leiðir til að stöðva gróður og jarðvegseyðingu þar sem jafnframt sé gætt hagsmuna íbúa sveitarfélagsins með tilliti til búsetu- og atvinnumöguleika. Áhersla er einnig lögð á að efla samvinnu bænda og Landgræðslunnar og gefa bændum í auknum mæli kost á vinnu við landgræðslu.
    Hæstv. forseti. Ég á eftir tæpa mínútu og mun nota síðari ræðutíma minn til að ljúka ræðunni.