Sandfok á Mývatnssvæðinu

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:30:28 (7618)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar eitt brýnasta verkefni í landgræðslu hér á landi. Hæstv. ráðherra lýsti hvað gert hefur verið í og við byggð en að mínu mati þá verður, ef þarna á að nást varanlegur árangur, að hefta sandfokið fram á öræfunum. Þarna gildir e.t.v. á mjög lýsandi hátt orðtakið ,,á skal að ósi stemma`` og það hlýtur að vera verkefni næstu ára.
    Ég get einnig, virðulegi forseti, sagt frá því hér að nú er í gangi samvinnuverkefni milli umhverfisnefndar Eyjafjarðarsveitar í Eyjafirði og Landgræðslunnar um að safna saman ónýtum heyrúllum og flytja austur á Mývatnsöræfi og ég tel að þetta sé enn eitt lýsandi dæmið um það að bændur landsins eru allir af vilja gerðir að vinna með Landgræðslunni að verkefnum sem þessu.