Sandfok á Mývatnssvæðinu

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:31:50 (7619)


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör. Það kom fram í hans svari að unnið hefur verið að landgræðslustörfum og landvernd á þessu svæði allt frá árinu 1942 og á síðustu árum hefur verið varið til þessara starfa allt að 10% af heildarfé Landgræðslu ríkisins sem farið hefur til landgræðslustarfa.
    Það hafa verið girt svæði og unnið mikið starf innan girðinga og er ekki að vanmeta það. Það hafa líka verið haldnir margir fundir með bændum og samið við þá um styttingu á beitartíma og unnið að því að fá þá til að fækka fé. Athyglinni hefur sem sagt verið beint að því að draga úr búskap og svíða búsmalann af bændum sem hefur í sjálfu sér lítil áhrif á uppruna vandans sem þarna er við að tefla. Ég lít svo til að þessar aðgerðir allar sem hingað til hafa verið gerðar hafi ekki komið að þeim notum sem nauðsynleg eru og skal ég þó ekki vanmeta það að hæstv. ráðherra sem starfað hefur stuttan tíma, hefur nú skipað sérstakar nefndir til þess að fjalla um þessi mál og er það vel. En það er óhjákvæmilegt þegar slík vá vofir yfir þessari sveit að bregðast við með þeim hætti sem raunar kom fram hjá síðasta ræðumanni að efna til varnargarða, beinlínis að gera varnargarð frá því fyrir framan Svartárkot í Bárðardal og austur að Jökulsá og þáttur í því gæti verið að flytja heyrúllur. Það þarf að sá melgresi í belti sem getur tekið við sandstraumnum. Það þarf með einhverjum ráðum að hefta sandfokið sem kemur sunnan af öræfunum og blasir við hverju sinni sem maður er á ferð í þurru veðri í sunnanátt og er að kæfa þessa fallegu og dýrmætu sveit og allar náttúruperlur hennar. Þessu vil ég beina til hæstv. ráðherra og ég tel að þetta sé svo þýðingarmikið verkefni að það réttlæti það að varið sé til þessa verks um takmarkaðan tíma miklu meira fé en 10% af ráðstöfunarfé Landgræðslunnar meðan það verk stendur yfir.