Heimahlynning

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:37:03 (7621)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að fólk með krabbamein á ólæknandi stigi hefur óskað eftir því að fá aðstoð menntaðs fólks á heilbrigðissviði, fyrst og fremst hjúkrunarfræðinga en einnig mætti nefna lækna, geðlækna, presta og sjúkraliða, til þess að geta dvalið sem lengst heima hjá sínum nánustu og þá í sumum tilfellum einnig að deyja heima. Þessi þjónusta hefur gengið undir nafninu heimahlynning. Það er lykilatriði í þjónustu heimahlynningar að fjölskylda viðkomandi sjúklings taki virkan þátt í aðhlynningunni því viðkomandi hjúkrunarfólk getur ekki dvalið allan sólarhringinn á heimili sjúklings. Bakvaktir eiga hins vegar að tryggja að möguleikar séu á að leita strax hjálpar ef nauðsyn krefur.
    Að sjálfsögðu lokast engar leiðir til þess að sjúklingur geti lagst inn á sjúkrahús og fengið þá meðferð sem þar er veitt. Heimahlynning er sjúklingi að kostnaðarlausu eins og lega á sjúkrahúsi.
    Það er óhætt að segja að krabbamein spyr ekki um aldur, það er því ekki síður mikilvægt að geta boðið yngra fólki og fólki á miðjum aldri kost á að dvelja sem lengst heima hjá sínum nánustu áður en kallið kemur sem enginn mannlegur máttur fær stöðvað.
    Fram til þessa hefur mikið starf í heimahlynningu verið unnið í sjálfboðavinnu og það segir mér að starfsemin sem slík sé ekki komin í nægilega fastar skorður hér á landi. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrrh. um heimahlynningu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hvernig er háttað heimahlynningu fyrir krabbameinssjúka,
    a. í Reykjavík,
    b. utan Reykjavíkur?
    2. Hver eru framtíðaráform ráðuneytisins varðandi þróun þessarar þjónustu?
    3. Hver er áætlaður kostnaður við heimahlynningu borið saman við kostnað við legu á sjúkrahúsi?``