Heimahlynning

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:39:36 (7622)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. er í þremur töluliðum. Í fyrsta lagi er spurt um það hvernig háttað er heimahlynningu fyrir krabbameinssjúka í Reykjavík og utan Reykjavíkur.
    Því er til að svara að heimahlynning Krabbameinsfélags Íslands er þjónusta við krabbameinssjúklinga með sjúkdóm á lokastigi sem óska eftir að geta dvalið í heimahúsi sem allra lengst. Þjónustan byggir á hugmyndafræði Hospice-hreyfingarinnar þar sem megináhersla er á lögð á það að sjúklingar geti lifað og dáið með fullri reisn og virðingu. Hér er því fyrst og fremst um líknarmeðferð að ræða þar sem leitast er við að sinna á heildrænan hátt líkamlegum, andlegum, félagslegum og trúarlegum þörfum sjúklingsins og aðstandenda hans. Enn fremur er aðstandendum veitt umönnun eftir dauða sjúklings. Starfsemi heimahlynningar Krabbameinsfélags Íslands er enn sem komið er einungis veitt á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemin hófst fyrri hluta árs 1987 og var takmörkuð við dagþjónustu í byrjun, fimm daga vikunnar. Þörf fyrir þjónustu á öðrum tímum sólarhrings varð brátt augljós og veitir heimahlynningin nú sólarhringsþjónustu. Hjúkrunarfræðingar sem starfa við heimahlynninguna gengu inn í samning Tryggingastofnunar ríkisins við hjúkrunarfræðinga. Sömuleiðis gerðu læknarnir sem þar starfa samkomulag við Tryggingastofnun ríkisins um greiðslufyrirkomulag. Á árinu 1991 störfuðu fimm hjúkrunarfræðingar og tveir læknar við heimahlynninguna og önnuðust 89 sjúklinga. Alls dóu 64, þar af 30 í heimahúsum og hefur fjöldi þeira sem deyja í heimahúsum aukist mjög frá upphafi. Þjónustudagar hjá heimahlynningu Krabbameinsfélagsins voru 5.481 á árinu 1991. Sjúklingafjöldi í heimahlynningu á árinu 1992 var 88 en nokkuð dró úr starfseminni á síðari hluta ársins vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Þannig voru teknir í þjónustuna 60 sjúklingar á fyrri hluta ársins en einungis 28 á síðari hluta þess. Nýir hjúkrunarfræðingar hafa bæst við fyrri hluta þessa árs og er starfsemin því að nýju að færast í eðlilegt horf. Frá síðustu áramótum hafa 46 sjúklingar komið í þjónustuna sem er svipað og á sama tíma og í fyrra.
    Í öðru lagi er spurt: Hver eru framtíðaráform ráðuneytisins varðandi þróun þessarar þjónustu?
    Því er til að svara að starfsemi heimahlynningar Krabbameinsfélagsins var upphaflega hugsuð sem þróunarverkefni Krabbameinsfélagsins í a.m.k. tvö ár en að loknu því tímabili yrði hún metin.
    Í nóvember 1989 urðu þáttaskil í starfseminni þegar Rauði kross Íslands og Reykjavíkurdeild Rauða

krossins ákváðu að veita Krabbameinsfélaginu fjárhagslegan stuðning og til að þróa þetta verkefni betur. Rauði krossinn hætti þátttöku í verkefninu í apríl 1991. Í febrúar 1991 var af hálfu landlæknisembættisins gerð úttekt á starfsemi heimahlynningarinnar. Meginniðurstaða þeirrar úttektar var sú að um mjög góða þjónustu væri að ræða. Sérstök nefnd vinnur nú að endurskipulagningu heimahjúkrunar í Reykjavík. Fulltrúar frá heimahlynningu hafa rætt við nefnd þessa. Þess er að vænta að í tillögu nefndarinnar verði sérstakur gaumur gefinn að fyrirkomulagi heimahlynningar sem þætti í heimahjúkrun.
    Varðandi landsbyggðina þá er heimahjúkrun rekin frá allflestum heislugæslustöðvum landsins. Eftir því sem kostur er er þar reynt að sinna heimahlynningu krabbameinssjúklinga með sjúkdóm á lokastigi með svipuðu fyrirkomulagi og tíðkast í Reykjavík.
    Varðandi spurninguna um áætlaðan kostnað við heimahlynningu borið saman við kostnað við legu á sjúkrahúsi þá er erfitt að bera saman kostnað við heimahlynningu og kostnað við legu á sjúkrahúsi þar sem um mjög ólíka þjónustu er að ræða. Kostnaður við rekstur heimahlynningar Krabbameinsfélagsins á árinu 1991 var 24,3 millj. kr. og var þar um að ræða 5.481 þjónustudag eða 4.433 kr. á dag. Sá kostnaður sem Krabbameinsfélag Íslands ber nú af þessum rekstri er fyrst og fremst greiðslur fyrir bakvaktir hjúkrunarfræðinga og lækna, auk húsnæðis og annarrar aðstöðu. Samtals eru þetta 6--7 millj. kr. Annan kostnað vegna heimahlynningar greiðir Tryggingastofnun ríkisins.