Aðgerðir til að hefta útbreiðslu alnæmis

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:48:31 (7625)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Frú forseti. Í erlendum blöðum og sjónvarpsstöðvum er mikil og stöðug umfjöllun um sjúkdóminn alnæmi og varnir gegn honum. Stöðugt er unnið að rannsóknum sem eiga að verða til að hefta útbreiðslu alnæmis og til að vinna hug á HIV-veirunum sem sjúkdóminum valda. Staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir er hins vegar sú að afar hægt gengur að vinna bug á vágestingum þótt dregið hafi úr útbreiðslu sjúkdómsins einkum meðal ákveðinna hópa, sérstaklega homma.
    Mér hefur sýnst að heldur hafi dregið úr opinberum varnaraðgerðum hér á landi og að fjölmiðlar haldi ekki vöku sinni í þessu alvarlega máli. Að mínum dómi er það fyrst og fremst hlutverk heilbrigðisyfirvalda að vera í forustu í baráttunni við alnæmið, ekki eingöngu vegna þess að um gífurlegan kostnað er að ræða í heilbrigðiskerfinu vegna á fjórða tugs sjúklinga sem hér eru sýktir af alnæmi heldur fyrst og fremst vegna þess hve gífurlega mikilvægt það er að verjast útbreiðslu sjúkdómsins. Það hefur sýnt sig að forvarnir og stöðugur áróður er það sem gagnar best og þá er þar fyrst og fremst um að ræða áróður sem beinist að því að hver og einn beri ábyrgð á sinni kynhegðun.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér þá er um 7 millj. kr. varið til forvarnastarfs. Það eru þeir peningar sem landsnefnd um alnæmisvarnir fær til umráða á þessu ári og ég held að það megi öllum ljóst vera að þar er um allt of lítið fé að ræða þegar hugsað er til þess að bara lyfin sem alnæmissjúklingar hér á landi þurfa að taka inn kosta að því er mínar upplýsingar segja um 16 millj. kr. Og ég held að það sé ljóst að betur má ef duga skal, ekki síst í ljósi þess að sú könnun sem landsnefnd um almnæmisvarnir hefur staðið fyrir á kynhegðun Íslendinga hefur leitt í ljós samkvæmt fyrstu niðurstöðum að kynhegðun hefur lítið breyst.
    Á þskj. 860 spyr ég hæstv. heilbrrh. um aðgerðir til að hefta útbreiðslu alnæmis og samkvæmt þeim formála sem ég flutti hér, þá er auðvitað tilefni fsp. hvernig staðan er í þessum málum í ljósi þess litla fjármagns sem varið er til forvarna og líka í ljósi þess að mig fýsir að vita hvernig við stöndum í þessum málum samanborið við aðrar þjóðir. Því spyr ég:
  ,,1. Hvaða árangri hafa aðgerðir til varnar útbreiðslu alnæmis hér á landi skilað
    a. að mati alþjóðlgera heilbrigðisyfirvalda (WHO),
    b. að mati íslenskra heilbrigðisyfirvalda?
    2. Hvernig er fræðslu um alnæmi og vörnu gegn því háttað nú og að hvaða hópum fólks beinist fræðslan einkum?
    3. Er unnið að nýrri stefnumótun í alnæmisvörnum í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir bæði erlendis frá varðandi útbreiðslu alnæmis og þeirrar vitneskju sem aflað hefur verið um kynhegðun Íslendinga?``