Aðgerðir til að hefta útbreiðslu alnæmis

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 11:58:08 (7627)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka starfandi heilbrrh. fyrir þessi svör. Eins og fram kom í hennar máli er það staðreynd að umræðan um alnæmi hefur minnkað því miður. Vonandi er það ekki vegna þess að fólk reyni að loka augunum fyrir þessum mikla vágesti, heldur séu þar aðrar ástæður að baki.
    Ég hef orðið vör við það á ferðum mínum erlendis að það er mjög margt gert til þess að halda umræðunni gangandi og m.a. í Bretlandi hafa listamenn og poppstjörnur verið virkjaðar til þess að mæta í fjölmiðlum og reyna að ná til unga fólksins. Það er auðvitað mjög svo góðra gjalda vert að beina sjónum að skólakerfinu og verður auðvitað að byrja út frá því en menn verða líka að átta sig á þeim breytingum sem eiga sér stað í mynstrinu, í útbreiðslunni. Samkvæmt því sem ég hef lesið, þá er útbreiðslan núna mest meðal kvenna. Það eru konur sem eru orðnar aðaláhættuhópurinn. Samkynhneigðir karlar hafa tekið mjög á þessu máli og það hefur dregið mikið úr útbreiðslu í þeirra hópi. Eins hafa sjúkrahús og heilbrigðiskerfið tekið mjög fast á þessum málum varðandi varnir við blóðgjafir og hreinsun nála og fleira slíkt en eiturlyfjaneytendur eru auðvitað enn í áhættuhópi. En sem sagt, nýjasti hópurinn er fyrst og fremst konur sem smitast af eiginmönnum sínum sem leita til beggja átta eða stíga hliðarspor í hjónabandinu.
    Mér finnst rétt að vekja athygli á þessu hér og beina því til hæstv. heilbrrh. að sjónum verði ekki síst beint að konum því betur má ef duga skal. Við þurfum að halda vöku okkar í þessu alvarlega máli.