Erlendar fjárfestingar á Íslandi

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:04:20 (7629)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Fjárfesting erlendra aðila í atvinnulífi á Íslandi árið 1992 reiknast hafa verið 813 millj. kr. reiknað á meðalsölugengi 1992.
    Um skiptingu eftir atvinnugreinum er þetta að segja: Þessi fjárfesting var að langmestu leyti framlag Alusuisse til Íslenska álfélagsins, Ísal. Auk þess var tilkynnt um fjárfestingu erlendra aðila í almennum iðnaði að fjárhæð 100 millj. kr. og verslun og þjónustu að upphæð tæplega 200 millj. kr. Þar er um eiginfjárloforð að ræða og einhver hluti fjárhæðarinnar kemur ekki til greiðslu fyrr en síðar.
    Þá spyr hv. þm.: Má vænta aukins áhuga útlendinga á því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi? Reynslan sýnir að áhugi erlendra aðila á því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi er sáralítill þveröfugt við það sem margir Íslendingar virðast halda sjálfir. Þetta stafar væntanlega m.a. af lágum arði af slíkum fjárfestingum þegar til lengri tíma er litið. Erlenda fjárfestingu hér á landi má reyndar að langmestu leyti rekja til orkufreks iðnaðar, þ.e. Álfélagsins og Íslenska járnblendifélagsins. Erlendir aðilar sýndu fiskeldi nokkurn áhuga um skeið en reynslan af gengi greinarinnar hefur bundið endi á þann áhuga. Því næst er þess að geta að erlendum aðilum var óheimilt að fjárfesta í þeim atvinnugreinum sem tengdust beint tveimur helstu náttúruauðlindum landsins, þ.e. sjávarútveginum og orkuvinnslu.
    Ég tel nauðsynlegt að auka fjárfestingar erlendra aðila í íslensku atvinnulífi. Atvinnurekstur er áhættusamur og það er vænlegra að deila áhættunni með erlendum eignaraðilum en þurfa sífellt að standa erlendum lánardrottnum skil á afborgunum og vöxtum hvernig svo sem árar. Einnig fylgja erlendri fjárfestingu oft mikilvæg markaðstengsl, nýjar framleiðslu- og stjórnunaraðferðir og tækniþekking. Allt eru þetta mikilvægir þættir fyrir íslenskt atvinnulíf í harðnandi alþjóðlegri samkeppni.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að fá erlenda aðila til að fjárfesta í orkufrekum iðnaði hér á landi og nú standa yfir kannanir á möguleikum þess að flytja rafmagn til útlanda um sæstreng. Hvort tveggja mundi fela í sér umtalsverða erlenda fjárfestingu. Stofnun frísvæðis á Keflavíkurflugvelli er í undirbúningi og vonir því bundnar að erlendir aðilar hefji starfsemi sína þar. En það er meginatriðið í því að laða erlenda fjárfestingu til landsins að íslensku atvinnulífi verði búin góð almenn skilyrði og þau verði sambærileg við það sem gengur og gerist í grannlöndum.