Fjárfesting Íslendinga erlendis

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:18:45 (7634)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir hans ágætu svör. Það sem mér finnst þau leiða í ljós, eftir því sem ég hef haft upplýsingar um, er að hér er um að ræða aukningu í fjárfestingu innlendra aðila erlendis. Það hefði hins vegar verið mjög til bóta ef það hefði komið fram í svari hæstv. ráðherra hversu mikill hluti af þessari fjárfestingu hefði verið í fasteignakaupum, hversu mikill hefði verið í atvinnurekstri og hversu mikill í markaðsverðbréfum.
    Út af fyrir sig má segja sem svo að það eigi ekki að vera á færi einstakra stjórnmálamanna að meta það og vega í hvaða farveg þessi fjárfesting eigi að fara en engu að síður verð ég að láta í ljósi þá skoðun mína að auðvitað hefði maður kosið að sem mestur hluti af þessari starfsemi, þessari fjárfestingu, hefði einmitt farið í það að taka þátt í atvinnustarfsemi vegna þess að það getur haft svo margvíslegan annan ávinning fyrir okkur, bæði þann að við getum með beinum hætti tengst þessu og það fer aldrei hjá því að með því að taka þátt í atvinnurekstri erlendis þá öðlast menn þekkingu og nýja sýn sem mun koma að gagni fyrir okkur í framtíðinni.
    Það var mjög athyglisvert sem hæstv. ráðherra vék að og það var það að 10--20 þjóðir höfðu óskað eftir samstarfi við Íslendinga á sviði sjávarútvegs og það undirstrikar það mikla álit sem íslenskur sjávarútvegur nýtur erlendis og þá virðingu sem fólk í sjávarútvegi á Íslandi nýtur erlendis.
    Ég tel sem sagt að hér sé um mjög athyglisverða hluti að ræða, sérstaklega það sem lýtur að fjárfestingu okkar í erlendum atvinnufyrirtækjum. Ég bendi á í þessu sambandi að fjárfesting t.d. Útgerðarfélags Akureyringa í þýska útgerðarfyrirtækinu hefur þegar leitt af sér aukna starfsemi hér á landi með því að þessi skip koma og landa, njóta ýmiss konar þjónustu, kaupa innlenda þjónustu, innlendan varning og þess háttar og auðvitað kemur þetta þess vegna okkur beinlínis til góða og óbeinlínis þó síðar verði.