Vandi verslunar í strjálbýli

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:24:33 (7636)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr um niðurstöður úttektar á vanda dagvöruverslunar í strjálbýli. Nefndin var skipuð 22. febr. 1989 og alllangt síðan hún skilaði sínum niðurstöðum. Hún telur skýringar á þeim sérstaka vanda sem við er að glíma í strjálbýlisversluninni vera einkum þessar:
    Áhrif stórbættra samgangna sem beina viðskiptum til verslunarþjónustu stærri þéttbýlisstaða.
    Áhrif hins almenna samdráttar á framleiðslu sem m.a. hefur leitt til verulegrar fólksfækkunar víða á landsbyggðinni fyrir utan áhrif aukins rekstrarkostnaðar og fjármagnskostnaðar.
    Niðurstaða nefndarinnar var að opinberrar aðgerðar væri þörf til þess að bæta stöðu dagvöruverslunar í strjálbýli. Jafnframt benti nefndin á að ýmiss konar sérverslun ætti einnig í erfiðleikum en taldi ekki þar um að ræða vanda sem opinberir aðilar gætu úr bætt.
    Nefndin var sammála um að almennar aðgerðir til styrktar dagvöruverslun ættu að ná til verslunarsvæða þar sem íbúafjöldi er um eða innan við 1.500 manns en sértækar aðgerðir þyrftu að koma til varðandi verslun og þjónustu í strjálbýli þar sem verslunarsvæðið telur innan við 500 íbúa ef svæðið býr við umtalsverða einangrun frá fjölmennari verslunarsvæðum hluta ársins.
    Nefndarmenn voru sammála um að fjárfestingarstyrkir ættu ekki við nema þá í algjörum undantekningartilvikum þar sem brugðið verði á það ráð að treysta rekstrargrundvöll verslunar og þjónustu með því að sameina dagvöruverslun fjölbreyttari verslun og þjónustu, svo sem eldsneytissölu til bifreiða, lyfjasölu, áfengissölu, póstafgreiðslu o.s.frv. Í slíkum tilvikum hljóta sveitarfélög að gegna miklu hlutverki með skipulagsaðgerðum og í sumum tilvikum eignarhaldi og húsnæði. Það er augljóslega erfitt að skapa verslunarþjónustu á verslunarsvæði sem er með 500 íbúa öðruvísi en með því að sameina það annarri þjónustu.
    Nefndin benti á að stuðningur við verslun og þjónustu í strjálbýli ætti eðli málsins samkvæmt að vera meðal verkefna Byggðastofnunar, þ.e. stuðningi við fjárfestingar og að veittir verði úr ríkissjóði hagræðingarstyrkir til strjálbýlisverslana sem greiddu kostnað við rekstrarráðgjöf og í sumum tilvikum væru notaðar til að greiða fyrir sameiningu verslunarfyrirtækja og hagræðingu í verslun og þjónustu.
    Þá spyr hv. fyrirspyrjandi hvernig viðskrn. hafi brugðist við tillögum nefndarinnar. Því er til að svara að einungis fáar af tillögum nefndarinnar hafa komist í framkvæmd vegna fjárskorts. Þess skal þó getið að ráðuneytið réð Sigurð Jónsson rekstrarráðgjafa til þess að framkvæmda tillögur nefndarinnar um ráðgjöf við verslunareigendur og rekstraraðila dagvöruverslana á landsbyggðinni. Tók hann fyrst fyrir Vestfirði, gerði þar úttekt á stöðu dagvöruverslunar, ræddi við viðkomandi aðila og fulltrúa sveitarstjórna á svæðinu og skilaði tillögum um keðjusamstarf verslana í því skyni að auka hagkvæmni í vöruinnkaupum. Fundað hefur verið um málið með fulltrúum kaupmannasamtaka og samvinnuverslana og með fulltrúum vestfirskra verslanaeigenda og til stendur að halda almennan fund þar vestra með fulltrúum verslunareigenda. Á fundum sem haldnir hafa verið fyrir nokkrum vikum var rætt um frekari fundahöld og námskeiðastarfsemi með eigendum og starfsfólki dagvöruverslana í strjálbýli.
    Á sama tíma sem þetta hefur átt sér stað hefur þróunin reyndar verið ör í dagvöruverslun landsmanna og mun nú standa fyrir dyrum stofnun nýs innkaupasambands fyrir samvinnuverslunina og jafnframt hafa einstaka kaupmenn upp á síðkastið notið innkaupaþjónustu hjá Bónuskeðjunni. Með keðjusamstarfi dagvöruverslana í strjálbýli eins og sá rekstrarráðgjafi sem ráðuneytið leitaði til hugsaði sér það er fólgið í samstarfi um innkaup frá framleiðendum og öðrum á tilteknum vörutegundum, samnýtingu á þjónustu, betri nýtingu auglýsingafjár o.s.frv. Þá er ráðgjöf og samanburður rekstrarafkomu mikilvægur þáttur í slíku samstarfi en bætt fjármagnsnýting og lækkun rekstrarkostnaðar er meginforsenda þess að takast megi að bæta afkomu og tryggja áframhaldandi rekstur. Ráðuneytið hefur nú samið við þennan rekstrarráðgjafa að gera sams konar úttekt á dagvöruverslun á Austfjörðum og mun hún fara fram í sumar og í framhaldi af því ráðgjöf um úrbætur.
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég tel að við margslunginn vanda sé að etja í dagvöruverslun í strjálbýli, vanda sem ekki verður leystur nema í samstarfi verslunareigenda, samtaka verslunarinnar, sveitarstjórna og reyndar Byggðastofnunar. Þróunin í strjálbýlisverslun vegna breyttra aðstæðna verður ekki stöðvuð en ég tel að hlutverk hins opinbera í þessu máli eigi að vera að stuðla að því að íbúar strjálbýlis njóti lágmarksþjónustu á þessu sviði eins og öðrum.