Vandi verslunar í strjálbýli

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:29:54 (7637)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans þó ég verði að láta það í ljósi að mér finnst með ólíkindum hvað þau svör eru lík svörum sem hæstv. ráðherra gaf við fsp. af ekki ósvipuðu tagi sem lögð var fyrir hann þann 20. febr. 1992. Það segir okkur auðvitað það fyrst og fremst að þetta mál er í mjög slæmum farvegi. Það er í farvegi hinna eilífu kannana og skýrslugerða og sendimanna sem eru að fara um landið til þess að ræða við menn og kannski róa menn dálítið og segja frá því að þeim hafi nú ekki alveg verið gleymt en mér finnst að það hafi afar lítið sem segja má að sé fast í hendi komið út úr þessu.
    Ég geri mér það fullkomlega ljóst að það er ekki fullkomlega á valdi stjórnvalda að ráða fram úr þessum vanda. Að mörgu leyti er hér um að ræða vanda sem er á einskis manns færi að ráða fram úr nema þá e.t.v. fólksins sjálfs á landsbyggðinni. Ég vil benda á að kaupmenn eru mjög víða úti um land einmitt að bregðast við þessum vanda með mjög margvíslegum hætti. Ekki bara því að tengjast verslunarkeðjum hér suður í Reykjavík þó það hafi vissulega skilað mjög góðum árangri víða. Menn eru að reyna fyrir sér með beinan innflutning og menn eru að reyna fyrir sér með því að sameinast um innkaup og fleira í þessum dúr. Ég hefði hins vegar talið að ráðuneytið gæti veitt þessu máli miklu meiri liðstyrk, sérstaklega með alls konar rekstrarlegri ráðgjöf sem er mjög dýr fyrir hverja og eina einstaka af þessum litlu einingum. Ég held að þar hefði ráðuneytið fyrst og fremst átt að koma til að aðstoða verslunina.
    Ég árétta að hér er ekki um að ræða einkamál örfárra kaupmanna. Hér er um að ræða mál sem snertir hag fólksins sem þarna býr, snertir tekjur þess og afkomu þess. Þess vegna er þarna ekki um að ræða einkamál örfárra aðila og þess vegna held ég að það sé rétt sem ég fullyrti hér áðan að þetta er auðvitað þjóðfélagslegt vandamál sem við þurfum að taka á með sérstökum hætti.