Samstarf við Sambandslýðveldið Rússland

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 12:35:38 (7640)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Á milli Íslands og Rússlands er í gildi samningur á sviði sjávarútvegsmála sem undirritaður var 25. apríl 1977 við Sovétríkin þáverandi. Fjallar hann um samstarf á sviði vísinda og tæknisamstarfs og samráð um fiskveiðar og rannsóknir á auðlindum hafsins. Áhugi hefur komið fram hjá báðum að eiga sem best samskipti á þessu sviði og víkka út samninginn frá 1977 þannig að hann nái til annarra sviða sjávarútvegsmálefna. Stjórnkerfið og efnahagslífið í Rússlandi er eins og kunnugt er í mikilli uppstokkun eftir að ákveðið var að hverfa frá miðstýringu til markaðsbúskapar. Stjórnkerfið í Rússlandi er í mótun og hafa stór ráðuneyti verið lögð niður en í stað þess hafa nefndir eða ráð verið sett á laggirnar. Stjórn fiskveiða er í höndum sjávarútvegsráðs Rússlands. Það annast jafnframt stjórnun innan greinarinnar og stuðning ríkisvaldsins við fyrirtæki. Þá hefur ráðið yfirumsjón með alþjóðlegu samstarfi á sviði sjávarútvegsmála og það annast og skipuleggur menntun starfsfólks í fiskiðnaði. Ráðið hefur samráð við ráðamenn á hinum ýmsu svæðum og héruðum landsins um nýtingu auðlinda og í gildi eru reglur verkalýðsfélaga um að veiðar skulu stundaðar af rússneskum þegnum.
    Engin almenn lög eru um fiskveiðilög í Rússlandi og er framkvæmd þeirra því nokkuð á reiki. Undirbúningur slíkrar löggjafar er þó hafinn og er reiknað með að honum ljúki á þessu ári. Þessi staða skapar tækifæri fyrir erlenda fjárfesta á sama tíma og hún veldur óvissu og getur dregið úr áhuga þeirra. Stjórnmálaástandið í Rússlandi og fyrrverandi aðildarríkjum Sovétríkjanna hefur einnig haldið aftur af fjárfestingum erlendra aðila í þessum ríkjum og sér ekki fyrir endann á því.
    Rússar eru þriðja mesta fiskveiðiríki heims með um 11 millj. tonna ársafla. Floti þeirra er of stór fyrir eigin fiskimið og hafa þeir því samið um veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja. Flotinn er engu að síður í vaxandi mæli á heimamiðum þar sem veiði hefur aukist að undanförnu. Fiskveiðar erlendra skipa eru mjög takmarkaðar í rússneskri fiskveiðilandhelgi en nokkur belgísk, norsk og færeysk skip stunda þar þó veiðar. Rússar hafa eðlilega ekki hug á hleypa erlendum ríkjum inn í fiskveiðilandhelgi sína án þess að fá í staðinn veiðiheimildir í landhelgi þeirra.
    Í desember á síðasta ári kom hingað til lands í boði sjútvrh. formaður sjávarútvegsnefndar Rússlands Vladimir Koreljsky. Markmiðið var að athuga möguleika á samstarfsverkefnum milli Rússa og Íslendinga í sjávarútvegi. Áhugi Rússanna er mestur á beinu samstarfi fyrirtækja í löndunum. Koreljsky nefndi möguleika á samskiptum Íslendinga og Rússa á þorski í Barentshafi í skiptum fyrir karfa og grálúðu á Íslandsmiðum og einnig sýndi hann áhuga á því að rússnesk verksmiðjuskip fengju yfir borðstokk síld og loðnu frá íslenskum fiskiskipum í stað þorsks, rækju eða hörpudisks, en einnig kæmu beinar peningagreiðslur til greina. Hugmyndum um veiðiheimildir Rússa í íslenskri fiskveiðilögsögu var alfarið hafnað enda banna íslensk lög veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri lögsögu. Á fundunum voru einnig ræddir möguleikar á stofnun sameiginlegra fyrirtækja þar sem Íslendingar gætu lagt fram fjármagn, tækni, tækjabúnað, sérfræðiþekkingu, t.d. vegna fullvinnslu sjávarafla til manneldis og markaðssetningar sjávarafurða.
    Eins og kunnugt er hafa íslensk fyrirtæki flutt inn rússneska rækju undanfarin ár og stutt er síðan innflutningur hófst á svokölluðum Rússaþorski. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og Fiskifélagi Íslands voru flutt inn rúmlega 2.000 tonn af rækju og tæplega 3.000 tonn af þorski á síðasta ári. Árið 1991 voru flutt inn tæplega 4.000 tonn af rækju en aðeins 120 tonn af þorski. Hér er um viðskipti milli

fyrirtækja að ræða og ekki rétt að stjórnvöld hafi afskipti af þeim.
    Viðskipti við Rússa ná ekki aðeins til hráefnis því rússnesku togararnir hafa keypt hér þjónustu af ýmsu tagi. Stálsmiðjan og Fiskafurðir gerðu samning við rússneskt útgerðarfyrirtæki frá Múrmansk um viðamiklar breytingar á vinnsludekki fimm 2.000 tonna frystitogara. Samningurinn hljóðar upp á tæplega 200 millj. kr. og mun fyrirtækið greiða fyrir breytingar með fiski. Forsaga málsins var að Íslendingar voru ekki sáttir við meðferð fisks sem Rússar lönduðu hér en með breytingum á skipunum hér á landi er ráðin bót á því. Hér er farin skynsamleg leið sem þjónar hagsmunum allra sem að málinu koma. Forsvarsmenn fyrirtækjanna telja að meira verði um verkefni sem þessi í framtíðinni.
    Ljóst er að Rússar þurfa að flytja inn tækni og þekkingu í sjávarútvegi á næstu missirum. Þá skortir bæði fjármagn og tækniþekkingu til að framleiða sjávarafurðir sem standa undir kröfum erlendra aðila. Ekki hefur skort á áhuga útlendinga í þátttöku í uppbyggingu sjávarútvegs í Rússlandi og hafa fyrirtæki frá Noregi, Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku, Portúgal og Spáni átt samstarf við innlend fyrirtæki þar. Íslendingar hafa takmarkaðan tíma til að koma á samstarfi við rússnesk fyrirtæki vegna mikillar ásóknar annarra ríkja.
    Fleiri dæmi má nefna um samstarf við Rússa. Íslenskar sjávarafurðir hf. hafa gert samning við rússneskt útgerðarfyrirtæki um framleiðslu og sölu á afurðum eins af skipum fyrirtækisins. Marel hf. hefur um nokkurra ára skeið selt tæki til sjávarútvegsfyrirtækja í Rússlandi. Fyrirtækið Icecon og fleiri fyrirtæki, t.d. Traust, vinna nú að sölu á tækniþekkingu til Kamtsjatka með því að bjóða ráðgjöf og byggingu á fiskvinnslufyrirtækjum. Útflutningsráð hefur einnig komið að þeim verkefnum. Þannig er af ýmsu að taka en kjarni málsins er þó sá að hér verður fyrst og fremst um að ræða samskipti milli fyrirtækja en ekki stjórnvalda.